Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 16:23:40 (6860)

1996-05-30 16:23:40# 120. lþ. 155.1 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 155. fundur

[16:23]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. ætti að fletta upp á þeim gögnum sem við höfum í efh.- og viðskn., en ég hef því miður ekki við hendina því þau eru úti í fundarsal, þar sem greint er frá upplýsingum frá ríkisskattstjóra, fremur en skattrannsóknarstjóra ríkisins, öðrum hvorum þeirra, um 13 stærstu fyrirtæki landsmanna og hvað mikið er óuppfært af nafnverði til jöfnunarvirðis hjá þessum fyrirtækjum. Mig minnir að hjá þeim sjö sem mest eiga inni í þeim efnum sé mismunurinn milli nafnverðs og uppfærðs jöfnunarverðs yfir sex milljarðar kr. Það er verið að gefa þessum fyrirtækjum möguleika á að borga út til eigenda sinna þetta uppsafnaða fé skattlaust og að eigendurnir sem hingað til hafa þurft að borga 42--47% skatt eins og launamenn fyrir slíka arðsúthlutun fái skattinn lækkaðan niður í 10%.

Það getur vel verið að hv. þm. finnist það eðlilegt og æskilegt að svona sé málum fyrir komið. Mér finnst þetta ekki eðlilegt. Mér finnst þetta ekki æskilegt. Mér finnst hins vegar bæði eðlilegt og æskilegt að fólk sem hefur tekjur af eigum sínum borgi skatta fyrir þær eftir sömu reglum og fólk sem hefur tekjur af vinnu sinni þarf að gera. Hvers vegna á að greiða lægri skatta af peningalegum tekjum af eignum og arði en af tekjum þeirra sem þurfa að vinna fyrir sér hörðum höndum frá morgni til kvölds?