Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 16:25:55 (6861)

1996-05-30 16:25:55# 120. lþ. 155.1 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 155. fundur

[16:25]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég man eftir því að á síðasta kjörtímabili starfaði ég í nefnd sem að einhverju leyti var á vegum ríkisstjórnar sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sat í. Nefndin hafði það hlutverk að útfæra frv. til laga um 10% nafnvaxtaskatt sem þáv. ríkisstjórn hafði gert að samkomulagi við verkalýðshreyfinguna að koma á. Ég skil þess vegna ekki alveg þessi sinnaskipti hv. þm. Sighvats Björgvinssonar í þessu máli, þ.e. að hann skuli allt í einu orðinn andsnúinn þeirri hugmynd sem hann sjálfur á sínum tíma var nú eiginlega næstum því búinn að koma á sem ráðherra í þáv. ríkisstjórn.

Okkur hv. þm. greinir einfaldlega á í þessu máli. Ég tel ekkert óeðlilegt að það sé sams konar staða hjá þeim sem eiga hlutafé og eiga eða hafa lagt fé í atvinnulíf og þeim sem hafa lagt fé t.d. í ríkisskuldabréf, að það sé sams konar skattlagning á slíkar tekjur. Ég tel að það sé engin óhófleg arðsemi í atvinnulífi að miða við 7%. Ég tel að það sé meira að segja frekar lítið. Eðlileg arðsemi í atvinnulífi þyrfti helst að vera á bilinu 10--15% ef vel ætti að vera. En í frv. sem verið er að afgreiða nú er miðað við að fyrirtæki geti dregið 7% af nafnverði frá tekjum til að greiða út í arð og að það sé skattlagt með 10%. Mér finnst það engin ofrausn.