Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 20:50:08 (6866)

1996-05-30 20:50:08# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[20:50]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Eitt er skýrt eftir þennan vetur. Afhjúpaður hefur verið sem aldrei fyrr hinn pólitíski loddaraskapur, einmitt það sem við í Þjóðvaka vöruðum við fyrir kosningar, því að ekki stendur steinn yfir steini í kosningaloforðum stjórnarflokkanna.

Rifjum upp: Boðuðu stjórnarflokkarnir fyrir kosningar að skerða kjör og réttindi launafólks? Nei, þeir gerðu það ekki. Boðuðu þeir að koma á innritunargjöldum á sjúkrahúsum, fjölga á biðlistum sjúkrahúsanna með stórfelldum niðurskurði? Nei, það gerðu þeir vissulega ekki. Boðuðu þeir að lækka ætti lífeyri og umönnunarbætur aldraðra og öryrkja eða hækka gjald fyrir læknisþjónustu og lyfjakostnað og skerða framlög til Framkvæmdasjóðs aldraðra og fatlaðra? Nei góðir áheyrendur, ekki frekar en þeir sögðu ykkur að þeir ætluðu að fækka bílastyrkjum til hreyfihamlaðra en ekki bílastyrkjum forstjóranna. Boðuðu þeir stórfellda einkavæðingu til að tryggja betur hlut stóreignafólks í þjóðfélaginu? Boðuðu þeir fjármagnstekjuskatt sem lækkar skatta á stóreignafólk en skattleggur mest hinn almenna sparifjáreiganda? Nei, þeir gerðu það ekki. Sögðu þeir að þeir mundu ekki standa við loforðið um greiðsluaðlögun fyrir skuldug heimili í landinu en í stað þess hækka skatta á íbúðareigendur í landinu með 40% skerðingu á endurgreiðslu virðisaukaskatts til þeirra? Nei, það gerðu þeir heldur ekki.

Ekkert af þessu boðuðu stjórnarflokkarnir fyrir kosningar. Þvert á móti stóð þjóðin í þeirri trú að velferðarkerfinu yrði hlíft en það ekki blóðsogið og að hinn almenni launamaður mundi nú uppskera í samræmi við það sem til var sáð. Þann bata sem við nú sjáum í efnahags- og atvinnulífinu eftir margra ára efnahagsþrengingar er ekki þessari ríkisstjórn að þakka heldur hinum almenna launamanni í þjóðfélaginu. Hann hefur þurft að þrengja sultarólina og sætta sig við engar launahækkanir og skerðingu á réttindum og kjörum sem hann hefur áður greitt fyrir með lægri launum. Hann hefur þurft að búa við gífurlegar skattahækkanir, aukningu á þjónustugjöldum og samdrátt í þjónustu velferðarkerfisins. Hann hefur ekki verið í óráðsíunni því að íbúðasjóðir fólksins hafa einungis þurft að afskrifa af skuldum þeirra 65 millj. kr. á fjórum árum en sjóðir atvinnulífsins 22 milljarða kr. á sama tíma. Þess vegna er það launamaðurinn sem á að uppskera. Það er hjá honum sem bæta á kjörin en ekki hjá fjármagnseigendum og stóreignamönnum í landinu sem þessi ríkisstjórn gengur fyrst og fremst erinda fyrir.

Gjaldþrot einstaklinga og heimila hafa aukist verulega frá því að þessi ríkisstjórn tók við og fjöldi efnalítils fólks sem leita þarf aðstoðar félagsmálastofnana hefur einnig vaxið mikið. Framsóknarmenn sem ætluðu að lækka skuldir heimilanna sitja líka uppi með það að skuldir heimilanna hafa hækkað um 27 milljarða kr. sl. tólf mánuði eða frá því að þeir tóku við stjórnartaumunum. Stjórnarflokkarnir eru fastir í fjötrum fortíðar og hagsmunagæslu hvar sem litið er. Í landbúnaðarmálum sem kosta skattgreiðendur tugi milljarða og í sjávarútvegsmálum þar sem auðlindin er smátt og smátt að verða eign fárra sem fá ókeypis aðgang að þessari sameiginlegu eign þjóðarinnar sem kvótaeigendur versla svo með sín á milli. Í lífeyrismálum þar sem bankastjórar fá 400 þús. kr. á mánuði í lífeyri eftir fimm ára starf en venjulegur launamaður 30--40 þús. á mánuði í lífeyri eftir 25 ára starf. Í launamálum eins og á þessum vetri þegar æðstu ráðamenn þjóðarinnar fengu allt að 100 þús. kr. launahækkun á meðan láglaunamaðurinn fékk 1.000 kr. og þannig mætti áfram telja.

Enn á að halda áfram að búa í haginn fyrir neðanjarðarlaunakerfið og festa það kirfilega í sessi. Þannig er það sett í vald forstöðumanna ríkisstofnana og undir geðþótta þeirra og náð komið hverjir séu verðugir og hverjir ekki til að fá launahækkanir. Það er vitað að tveir þriðju hlutar launamunar milli kvenna og karla má skýra með greiðslum sem eru ákvarðaðar af yfirmönnum. Þessi nýja starfsmannastefna ríkisstjórnarinnar mun því enn auka bilið milli ríkra og fátækra og stuðla að enn frekara launamisrétti kynjanna.

Stjórnarandstaðan og verkalýðshreyfingin hefur vissulega með málafylgju sinni náð fram ýmsum breytingum á umdeildum frumvörpum ríkisstjórnarinnar en margt situr eftir. Hjá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er fólkið ekki í fyrirrúmi heldur grimmd og harka gagnvart launafólki.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er ríkisstjórn stóreignafólksins í landinu. Loksins þegar fjármagnstekjuskattur er settur á er tækifærið notað til að lækka mikið skatta á stóreignafólk en ekki lækka skatta launafólks. Skatturinn er líka óréttlátur því að hann er fyrst og fremst skattur á almenna sparifjáreigendur en ekki á hinn raunverulega fjármagnseiganda eins og lagt er til í öðru frv. sem við formenn þriggja stjórnarandstöðuflokka höfum lagt fram. Samkvæmt okkar tillögum mega hjón fá um 137 þús. kr. í vaxtatekjur á ári án þess að greiða skatt af þeim, en í frv. stjórnarflokkanna er hver króna skattlögð. Ekki nóg með það, heldur virðist ríkisstjórnin ætla að tvískatta aldraða og öryrkja með fjármagnstekjuskattinum. Það er ekki látið nægja að vaxtatekjur lífeyrisþega eigi að skerða lífeyrisgreiðslur þeirra. Aldraðir og öryrkjar þurfa líka að greiða af þeim 10% vaxtaskatt. Það er engu líkara en að stjórnarflokkarnir muni bara eftir öldruðum og öryrkjum þegar þeir geta reytt af þeim krónurnar. Þess á milli vill ríkisstjórnin lítið af þeim vita.

Herra forseti. Við í Þjóðvaka erum ekki bundin á klafa neinna sérhagsmuna og erum óhrædd eins og málafylgja okkar á Alþingi sýnir að setja fram ný úrræði og hugmyndir í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum, í velferðarmálum eins og heilbrigðisþjónustunni og í menntamálum, í launa- og lífeyrismálum með tillögum að raunhæfum aðgerðum til að leysa skuldavanda heimilanna og breytingar til aukins lýðræðis á ýmsum grundvallarþáttum í stjórnskipan landsins. Þannig hafa tillögur okkar á Alþingi endurspeglað nýjan valkost, raunhæfan valkost á móti fráleitum, stöðnuðum og úreltum hugmyndum stjórnarflokkanna við landsstjórnina.

Við viðurkennum vissulega að skoðanakannanir hafa valdið okkur miklum vonbrigðum og við viðurkennum líka að fjórflokkakerfið vann sigur í fyrstu lotu. En við höfum ekki látið það draga úr okkur kjark. Uppgjöf er ekki okkar stíll þrátt fyrir mótlæti. Við höldum því ótrauð áfram, trú þeim loforðum sem við gáfum kjósendum í kosningabaráttunni. Og við getum fullvissað pólitíska andstæðinga okkar um að það er fullsnemmt að fagna því að við hverfum af stjórnmálasviðinu. Úthaldið skortir okkur ekki, við höfum verk að vinna og góðan málstað að berjast fyrir.

Góðir áheyrendur. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því sem er að gerast í þjóðfélaginu. Mannúð, samhjálp, sjálfsvirðing einstaklingsins og samstaða með alþýðu fólks má sín orðið lítils andspænis ofurvaldi íhalds- og peningaaflanna sem byggir á að hver sé sjálfum sér næstur. Við í stjórnarandstöðunni sem viljum jafnaðarstefnuna í öndvegi getum lært af þessum vetri. Við komumst ekki hjá því að endurmeta stöðuna til að nýta okkur málefnalega samstöðu okkar og skilgreina betur hvernig við getum sameinað kraftana í sókn gegn stefnu ríkisstjórnarinnar sem er andhverfan við mannúðlega stefnu okkar jafnaðarmanna. Með samstöðu og samfylkingu jafnaðarmanna hefur fólkið í landinu trúverðugan og öflugan valkost sem gæti boðið núverandi stjórnarflokkum birginn og tekið forustuna í landsmálunum. Þannig og aðeins þannig getum við bætt og jafnað lífskjörin í landinu og hafið framsækna sókn ínn í 21. öldina.