Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 21:16:38 (6869)

1996-05-30 21:16:38# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, KH
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[21:16]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Á því þingi sem nú er að ljúka verða væntanlega afgreidd vel á annað hundrað lög og ályktanir, mikill meiri hluti þeirra með samhljóða samþykkt að undangenginni umfjöllun í nefndum þar sem iðulega eru gerðar nokkrar breytingar. Í þeim störfum skiptir oft litlu máli hvernig menn skiptast í stjórn og stjórnarandstöðu. Þar skiptir mestu þekking og innsýn í viðkomandi málefni og þá er gott að þingmenn hafi ólíka reynslu að baki. Sú breidd mætti að vísu vera meiri innan dyra.

T.d. er það ljóður á samsetningu þingheims í lýðræðisþjóðfélagi að einungis fjórðungur þingsæta skuli skipaður konum og án alls efa tækju umræður og lagasetning lit af því ef það hlutfall endurspeglaði raunveruleikann. Sama má segja um margs konar annan bakgrunn, svo sem aldur, menntun og starfsreynslu. Allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á viðhorf og skila sér inn í umfjöllun og störf þingmanna.

En þótt mikið af störfum Alþingis sé unnið í sátt og samlyndi eru þó alltaf allmörg mál sem skipta þingheimi í andstæðar fylkingar og þá þykja störf þessarar samkundu helst fréttnæm. Stjórnarandstaðan sætir oft ámæli fyrir harða baráttu gegn þeim málum sem skiptar skoðanir eru um, en það má aldrei gleymast að stjórnarandstaðan gegnir mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Henni ber að veita ríkisstjórn og meiri hluta aðhald af festu og ábyrgð.

Stjórnarliðar mættu sýna jafnmikinn áhuga og ábyrgð gagnvart því sem þingmenn sjórnarandstöðu hafa fram að færa. Þrátt fyrir gífurlegan aðstöðumun leggja þingmenn stjórnarandstöðunnar fram mikinn fjölda þingmála sem meiri hlutinn nennir varla að ræða og ýtir sífellt aftur fyrir í umfjöllun þingnefnda. Hvað á að kalla slíka málsmeðferð? Hún kallast að sjálfsögðu ekki málþóf, en lítilsvirðing er rétta orðið yfir háttalag stjórnarliða gagnvart fjölmörgum athyglisverðum og stefnumarkandi tillögum stjórnarandstöðunnar sem þeir sniðganga eins og þeir frekast geta.

Meiri hlutinn hefur séð til þess að stjórnarandstaðan hefur haft ærinn starfa á liðnum vetri. Ég man satt að segja ekki eftir öðrum eins fjölda af vanhugsuðum og illa unnum stjórnarfrumvörpum sem þingmenn hafa lagt nótt við dag við að reyna að betrumbæta og að lokum ekki séð annan kost en að vísa þeim aftur til föðurhúsanna til betri heimanbúnaðar. Þannig var t.d. með frumvörp ríkisstjórnarinnar um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og um stéttarfélög og vinnudeilur sem verið er að lögfesta þessa dagana, illu heilli. Umræður um þessi mál voru heitar og málefnalegar þótt stjórnarliðar hafi víða reynt að koma því á framfæri að hér hafi verið um ómálefnalegt karp að ræða og skrifuðu jafnvel heilar síður í málgagn sitt í kvörtunartóni.

Sjálfir þrjóskuðust stjórnarliðar við að tjá sig um þessi mál sem snerust þó um kjör og hagsmuni svo margra. Þeir sátu andvarpandi ef þeir sáust yfirleitt í þingsal og töldu klukkustundirnar sem umræðan tók og fjösuðu um málþóf. Þeir hafa af eðlilegum ástæðum haft lægra um þann árangur sem barátta stjórnarandstöðunnar skilaði. Þeir hafa lágt um það að þeir neyddust til að gera stórfelldar breytingar á báðum frumvörpunum, svo illa voru þau úr garði gerð.

Við getum velt því fyrir okkur hvernig farið hefði með aðför ríkisstjórnarinnar að samtökum launafólks ef stjórnarandstaðan hefði ekki beitt öllu sínu afli til að koma í veg fyrir verstu afglöpin. Og það er bágt til þess að hugsa að innan stjórnarflokkanna leynast ýmsir sem hefðu viljað standa með okkur í þeirri baráttu. Þeir treystu sér hins vegar ekki til þess að standa gegn flokksaganum og hlýða eigin samvisku. Aldrei heyrðist eitt einasta orð frá formanni Framsfl. í allri þessari umræðu. Hann tjáði sig ekki um þessi mál fyrr en í ræðu sinni áðan. Þess hefði þó mátt vænta með tilliti til orða sem hann lét falla á sl. hausti í umræðunni um stefnuræðu forsrh. Þá ræddi hann af skilningi um það mikla launabil sem skapast hefur í þjóðfélaginu og hann hvatti til þess að stjórnmálamenn, verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur settust á rökstóla, ekki til að semja um krónur eða prósentur heldur til að reyna að finna siðferðilegan grunn sem kjarasamningar framtíðarinnar gætu byggt á, svo að ég vitni orðrétt í ræðu hans. Þetta þótti mörgum vel mælt og hugsuðu gott til. Hér var kominn í ríkisstjórn flokkur sem vildi hafa fólk í fyrirrúmi og foringi sem var tilbúinn að gera sér það ómak að reyna að finna nýjar leiðir til að tryggja bærileg samskipti og mannsæmandi laun, tryggja samráð og réttlæti í þjóðfélaginu. Við höfum kynnst efndum þeirra orða. Fjmrh. og félmrh. tóku að sér það verk að tryggja þann siðferðilega grunn sem kjarasamningar framtíðarinnar gætu byggt á og formaður Framsfl. hefur nú upplýst að hann er ánægður með verk þeirra. Allur málatilbúnaður, vinnubrögð og afgreiðsla þessara mála vitna um ríkjandi viðhorf meiri hlutans, viðhorf sem eru andstæð launafólki, andstæð alþýðu landsins og eiga lítið skylt við samráð, jafnrétti og gagnkvæma virðingu. Valdboð að ofan eru einkunnarorðin. Hinn sterki ræður.

Herra forseti. Konur þessa lands geta ekki fagnað neinum áföngum í réttindabaráttu sinni að loknum þessum þingvetri. Einhverjar munu þó hafa vænst þess með tilliti til þess að í síðustu kosningabaráttu leyfðu margir sér þann munað að sýna sérstakan skilning á stöðu kvenna í samfélaginu og gefa viss fyrirheit um vilja til að leiðrétta augljóst misrétti í þeirra garð. Meira að segja Sjálfstfl. uppgötvaði orðið viðhorfsbreyting og eygði þar m.a. lausnina á launamisrétti kynjanna. Ekki skal ég draga úr nauðsyn viðhorfsbreytingar, enda hefur það verið kjarninn í baráttu okkar kvennalistakvenna frá upphafi. Hún verður hins vegar ekki af sjálfu sér. Að henni þarf að vinna. Núverandi stjórnarflokkar hafa nú haft árið til að gera eitthvað marktækt í þeim málum.

Nýútkomin skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála sýnir að menn kunna enn að gera skýrslur og áætlanir. En það dugir skammt ef framkvæmdaviljann skortir. Félmrh. lét reyndar vinna skýrslu um starfsmat sem margir binda vonir við, en fleira er ekki í frásögur færandi af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til þess að leiðrétta launamisrétti kynjanna. Stjórnarflokkarnir felldu tillögu Kvennalistans um sérstakt fjárframlag í þessu skyni og ekki hafa hugmyndir Kvennalistans um tólf liða aðgerðir til úrbóta í þessum efnum fengið hljómgrunn hjá fulltrúum staðnaðra viðhorfa.

Framlag fjmrh. til þessa máls er einkar athyglisvert. Hann minntist reyndar ekki á það í hagvaxtarræðu sinni áðan og mig undrar það ekki. Það felst í einni aukasetningu í nýsettum lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar segir á einum stað að forstöðumenn stofnana geti umbunað starfsmönnum sínum sérstaklega fyrir árangur í starfi og ber þeim að fara eftir reglum sem fjmrh. setur þar sem m.a. skal kveðið á um að karlar og konur hafi sömu möguleika á að fá viðbótarlaun. Þetta eru þá afrek ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og þarf mikinn velvilja til að fagna þessu framtaki og telja það til marks um viðhorfsbreytingu. Það þarf mikið að gerast ef sú viðhorfsbreyting á að verða í tíð þessarar ríkisstjórnar. Til þess sé ég aðeins eitt ráð. Ráðherrarnir ættu allir með tölu að fara á námskeið hjá núverandi meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem kvennabaráttan er viðurkennt breytingarafl. Þar er að finna þau viðhorf og þann vilja sem dugir til að fleyta þróuninni fram á við í stað þeirrar stöðnunar sem er okkur öllum til tjóns. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.