Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 21:45:47 (6873)

1996-05-30 21:45:47# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[21:45]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Hér í kvöld hafa talað nokkrir fulltrúar hæstv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. En þeir hafa ekki aðeins talað hér í kvöld. Þeir hafa á liðnum vikum og mánuðum talað með verkum sínum. Manni verður á að spyrja hvort það sé í raun sama ríkisstjórn, sömu stjórnmálamenn, sömu ráðherrar sem töluðu úr þessum ræðustól fyrir réttu ári og birtu okkur og allri þjóðinni stefnuyfirlýsingu, yfirlýsingu um það hvernig stjórnin ætlaði að starfa á kjörtímabilinu. Fyrir þá sem ekki muna var sérstaklega tekið fram og það á mjög hástemmdan hátt að búið yrði í haginn fyrir betra mannlíf á Íslandi þannig að íslenska þjóðin gæti stigið stolt inn í 21. öldina. Það sem meira er: Allar þær breytingar sem ríkisstjórnin mundi ráðast í yrðu framkvæmdar í sátt og í samvinnu því þannig farnaðist okkur best.

Hæstv. forseti. Ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta var orðað en boðskapurinn var þessi. Og ég minnist þess að þetta var tónn sem mönnum líkaði vel að heyra. Mörg okkar tóku undir með hæstv. forsrh. um þessar áherslur. En þetta var í fyrra. Þegar í haust, við gerð fjárlaganna, voru farnar að renna tvær grímur á menn. Þegar í haust stóðu stjórnarandstöðuþingmenn hér í þingsal í margra vikna þófi og baráttu til að reyna að forða því að ríkisstjórnin skerti kjör aldraðra, öryrkja og atvinnulausra með því að skera á tengslin á milli launa annars vegar og hins vegar lífeyris þessara hópa. Nánast frá fyrstu stundu hafa stjórnarandstöðuþingmenn staðið í stöðugri baráttu til varnar þessum hópum og öðrum hópum sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu. Auðvitað sáu menn fljótlega hvað klukkan sló og hver raunverulegur vilji var til samstarfs og samvinnu við stjórnarandstöðu þegar hverri tilrauninni á fætur annarri af okkar hálfu til lagabreytinga var hafnað, í skattamálum, í húsnæðismálum, varðandi námsmenn, aldraða, tillögur um úrbætur í atvinnumálum. Öllu þessu var vísað frá og hafnað af hálfu ríkisstjórnarinnar því ekkert af þessu var gert á hennar forsendum. Hverjar voru þær forsendur? Ekkert sem horfir til kjarajöfnunar, sem er til þess fallið að treysta lífskjör og velferð almennings, ekkert slíkt á upp á pallborðið hjá þessari ríkisstjórn. Það er þess vegna sem þingpallar hafa iðulega verið þéttsetnir í vetur og í haust. Hverjir skyldu hafa setið þingpallana. Hafa það verið fulltrúar atvinnurekenda? Fulltrúar fjármagnseigenda? Hefur framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambandsins haft áhyggjur af umræðum og ákvarðanatöku hér á hv. Alþingi Íslendinga? Eða hefur stjórn Vinnumálasambandsins mætt á þingpalla? Eða Verslunarráð Íslands? Nei, aldeilis ekki. Þeir vita sem er að þeir eiga og hafa á sínu bandi yfirgnæfandi meiri hluta fulltrúa hér í þingsalnum. Yfirgnæfandi meiri hluta sem fylkir sér um þeirra málstað. Það eru hins vegar fulltrúar launafólksins, öryrkja og fatlaðra, sem hafa komið á þingpalla til að andæfa kjara- og réttindaskerðingu ríkisstjórnarinnar.

Hverjir voru það sem fögnuðu sérstaklega skerðingar- og haftafrv. ríkisstjórnarinnar? Það voru að sjálfsögðu samtök atvinnurekenda. Og það er um margt táknrænt að auk ráðherranna hefur það verið framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands sem hefur haft framsögu um þessi skerðingar- og haftafrv. ríkisstjórnarinnar. Því það var við þessa aðila, fulltrúa fjármagnsins og stórfyrirtækjanna sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ætlaði að hafa samráð og það hefur hún svo sannarlega gert.

Nú er enn eitt frv. að koma upp. Þeir kalla það fjármagnstekjufrv. en það er í raun frv. um stórfelldar skattívilnanir, gjafir til efnaðasta hluta þjóðarinnar. Gjafir sem nema milljónum og tugum milljóna. Nú bíða þessir sömu menn, fjárfestarnir, eftir því að ríkisstjórnin einkavæði Póst og síma. Stofnun sem er metin á um 20--30 milljarða króna og skilar í hagnað á hverju ári, í samneysluna, á annan milljarð króna. Og Framsfl. --- ég hef stór orð um það vegna þess að til félagshyggjumanna í Framsfl. hafa menn gert miklar kröfur --- það er Framsfl. sem ætlar að kyngja því í botnlausu gagnrýnisleysi, í botnlausu kröfuleysi og metnaðarleysi fyrir hönd sinna umbjóðenda. Það eru þessir aðilar sem nú eru að bjóða til veislunnar. Veislunnar um Póst og síma. Nú bíða þeir. Nú bíða þeir með öndina í hálsinum, fjárfestarnir, eftir veislunni í vor. Í næstu viku verður samþykkt hér, ef að líkum lætur, frv. um einkavæðingu Pósts og síma. Það verður gert nú í vor fyrir laxveiðitímann. Fyrir þann tíma sem alvöruumræður um viðskipti hefjast.

Hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., talaði um vorið, nú væri vorið í nánd. En hvað hefur gerst á þessu vori? Það hefur gerst að með einhliða valdboði hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar rift einhliða, óskrifuðum sáttmála sem hefur ríkt hér um áratuga skeið um samskipti á vinnumarkaði. En ekkert af þessu þarf að koma á óvart því það er tekist á um framtíðarþróun íslensks samfélags. Annars vegar er sú hugsun sem hæstv. forsrh. orðaði einhvern tíma sem svo að ekki mætti afnema lífsbaráttuna, hugsun sem byggir á því að óttinn, óöryggið og græðgin örvi mannskepnuna best til dáða. Stefnu sem byggir á því að misréttið verði jafnan að vera fyrir hendi og sýnilegt. Annars vegar til að sýna auðinn og völdin sem í boði eru og hins vegar örbirgðina og réttindaleysið sem víti til varnaðar, verði mönnum á að hrasa eða mistakast. Annars vegar er þessi heimur, þessi framtíðarsýn, og hins vegar sú sýn sem verkalýðshreyfingin og fulltrúar félagshyggjunnar berjast fyrir og byggir á samvinnu og samstöðu þar sem framfarir eru sprottnar af jákvæðum hvötum, viljanum til að smíða þjóðfélag jafnaðar og félagslegs réttlætis. Þar sem lífsorkan er virkjuð til að gera gagn.

Ég vona að þjóðin beri gæfu til að sýna þessari ríkisstjórn misréttisstefnunnar rauða spjaldið áður en lengra verður haldið inn í hið pólitíska vor, hið pólitíska sumar og að lokum fimbulvetur. Fimbulvetur ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. ráðherra.