Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 21:53:16 (6874)

1996-05-30 21:53:16# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[21:53]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar.

  • Sumir tigna tölt og skeið,
  • taka blæinn fangi.
  • Aðrir laumast ævileið
  • með yfirgangi.
  • Sagði Markús söðlasmiður á Borgareyri í Landeyjum og því hef ég mál mitt á þessari hnyttnu vísu að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa fylgt þeirri stefnu að taka blæinn fangi, taka ákvarðanir til árangurs fyrir land og þjóð, oft erfiðar og umdeildar en nauðsynlegar. Landsmenn til sjávar og sveita í borg og bæjum finna árangurinn af þessum vinnubrögðum og það vekur með þjóðinni bjartsýni og eftirvæntingu.

    Það er stundum freistandi fyrir stjórnmálamenn að vera viðhlæjendur allra. En það er mikilvægara að stjórnmálamenn hafi þrek og þor til að taka af skarið til heilla heildarhagsmunum. Það gera núverandi stjórnarflokkar.

    Við erum á réttri leið. Jafnvægi í efnahagsmálum, verðbólga í lágmarki, vextir fara lækkandi, erlendar skuldir lækka, atvinna eykst, vænta má verðmætaaukninga í sjávarfangi og hagur fólks fer batnandi. Annað árið í röð eru launagreiðslur að hækka um eina millj. kr. á dag í Vestmannaeyjum og það er auðvitað spegilmynd af öðrum plássum landsins.

    Það er ekki óeðlilegt að það hvíni í þegar kerfisbreytingar eru gerðar því kerfið hefur svo ríka tilhneigingu til að láta ekki umbreyta sér. En við verðum að lifa í takt við tímann, nýta þróunina og þroskann til góðra verka og það kallar ósjaldan á breytingu. Lykilatriðið er þó að sameiginlegur sjóður landsmanna eyði ekki um efni fram og þjóðarbúskapurinn sníði sér stakk eftir vexti. Við erum og verðum um langa framtíð veiðimannasamfélag og eigum að horfast í augu við það. Það hlýtur að vera eitt mikilvægasta verkefni næstu ára að styrkja laun þeirra lægst launuðu og þeirra sem vinna erfiðu störfin í fiskvinnslu, iðnaði, heilbrigðisþjónustu og í menntakerfinu og treysta þarf grunn landbúnaðarins sem á undir högg að sækja. Launahækkun á að vera okkar metnaðarmál og með því umhverfi sem ríkisstjórnin hefur skapað og batnandi samkeppnisstöðu við önnur lönd eigum við margra kosta völ til árangurs.

    Það skiptir miklu máli að sátt ríki milli dreifbýlis og þéttbýlis og markviss stefna ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum er ekki síst til að styrkja stöðu landsbyggðarinnar sem alltaf á fyrst undir högg að sækja í þeim sveiflum sem erfitt er að komast hjá í veiðimannasamfélaginu.

    Við höfum lagt mikið kapp á að draga úr halla ríkissjóðs og fjölga atvinnutækifærum og það hefur skilað miklum árangri ekki síst fyrir hlutdeild verkalýðshreyfingarinnar sem hefur metið stöðuna rökrétt og hugsað til lengri tíma og það er mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins haldi áfram á sömu braut.

    Fyrir fimm árum, árið 1991, stefndi í mikið óefni hjá okkur Íslendingum því öll fjármálastjórnun var farin úr böndum. Nú höfum við stjórn á beislinu og sem dæmi má nefna að afköst í heilbrigðiskerfinu eru nú mun meiri en fyrir fáum árum en kostnaðurinn hefur ekki aukist. Því er ekki að neita að þetta er erfitt fyrir heilbrigðisstéttirnar en innan þessa ramma sem við höfum úr að spila verðum við að verja okkar velferðarkerfi. Það borgar enginn brúsann annar en við sjálf. Þannig hefur verið lagt kapp á að kalla fólk til meiri ábyrgðar, bæði einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög. Gott dæmi er flutningur grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga en það stórverkefni hefur verið flutt í góðri samstöðu og sátt og nú hefur Alþingi afgreitt það mál. Það er ljóst að flutningur grunnskólans eykur styrk sveitarfélaganna og sjálfstæði þeira. Það undirstrikar valdreifingu og kallar á frumkvæði heimamanna til þess að tengja sérstöðu byggðanna við skólakerfið. Mennta til byggðanna en ekki frá þeim eins og hefur verið um langa tíð.

    Þessi niðurstaða er sannkölluð byggðastefna. Þá hefur verið samþykkt frv. um framhaldsskóla, nýskipan sem byggist á hvatningu til verkmenntunar og á að geta skipt sköpum um það að menntunin verði meira metin, t.d. af atvinnurekendum sem hafa ekki rækt þá skyldu sína sem skyldi að kalla eftir menntun til aukinna gæða, nýtingar og driftar til verðmætaaukningar. Atvinnulífið á að gera miklar kröfur og arðsemin liggur ekki síst í menntuninni og reynslunni sem þarf til fullvinnslunnar.

    Þá hefur ríkisstjórnin lagt grunn að auknum rannsóknum því þær eru lykillinn að frekari nýtingu okkar auðlinda og nýsköpunar í atvinnulífi. Við eigum mikið verk óunnið í þeim efnum. Við eigum til að mynda eftir að virkja á mun markvissari hátt þekkinguna og reynsluna sem býr í Háskóla Íslands og tengdum stofnunum. Við eigum eftir að stórauka rannsóknir á hafinu í kringum Ísland, sjálfri gullkistunni. Allt kostar þetta fjármagn og forgangsröðunina þarf að meta hverju sinni en þörfin eftir fjármagni til rannsókna er hrópandi.

    Með tölvutækni og þróun í samgöngum búum við nú við hringtorg þeirra þjóða sem við viljum keppa við ef okkur sýnist. Um leið setjum við okkur þær kröfur að þola samanburð.

    Í náttúruríku landi þykir okkur gott að geta sagt: Það er bjart fram undan. Nú virðast skilyrðin í hafinu hagstæð okkur, bæði vegna friðunaraðgerða okkar og vafalaust einnig vegna aðstæðna í hafinu sjálfu. Þess vegna er sérstök ástæða til þess að óska sjómönnum og okkur sjálfum, okkur öllum, til hamingju með sjómannadaginn næstkomandi sunnudag. Í hafinu verðum við að nýta fiskstofnana skynsamlega, í landbúnaðinum verðum við að vinna okkur út úr erfiðri stöðu, styrkur okkar í alþjóðlegri samkeppnisstöðu auðveldar okkur aukinn drifkraft í uppbyggingu, iðnaði og ferðamannaþjónustu. Það er til að mynda ánægjulegt í uppbyggingu ferðamála og samgöngumála að stjórnarflokkarnir hafa tekið ákvörðun um nauðsynlega uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar þrátt fyrir það að núverandi borgarstjórnarmeirihluti hefur dregið lappirnar í þeim efnum. Reykjavíkurflugvöllur er lykill landsbyggðarinnar að höfuðborginni og auk þess sem það er gagnkvæmt skapar Reykjavíkurflugvöllur þúsundir starfa í höfuðborginni með þeim á fjórða hundrað þúsund farþegum sem fara um völlinn árlega. Mikil átaksverkefni hafa verið í samgöngu- og hafnamálum undanfarin ár og þetta eru aðeins dæmi um þann mikla drifkraft sem fylgir stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og undirstrikar að það er bjart fram undan og skemmtileg leið.

    Góðir Íslendingar. Það er í okkar stíl að taka blæinn fangi. Guðs blessun og þökk fyrir áheyrnina.