Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 22:07:31 (6876)

1996-05-30 22:07:31# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, SighB
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[22:07]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hvað gerist þegar Framsfl. og Sjálfstfl. taka höndum saman um stjórn landsins? Alltaf það sama. Til botns sökkva þau frjálslyndu framfaraöfl sem finna má í þessum flokkum báðum. Undirtökunum nær kyrrstöðuliðið, verðir sérhagsmunanna, andstæðingar almannahags, fólkið sem hefur gærdaginn að framtíðarsýn. Kyrrstaðan er komin til að vera. Nýr búvörusamningur leggur áfram milljarða byrði á skattgreiðendur, hneppir áfram landbúnaðinn í fjötra miðstýringar og óstjórnar, gerir fátæktina áfram að fastri fylgikonu bændastéttarinnar. Framkvæmd GATT-samningsins sem með ofurtollum einangrar áfram íslenska neytendur í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og kemur áfram í veg fyrir að samningurinn nýtist til lækkunar á ævintýralega háu matvælaverði á Íslandi. Takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila munu áfram koma í veg fyrir að þýðingarmesta útflutningsatvinnugrein landsmanna fái að nýta sér erlent áhættufjármagn og þau tækifæri til uppbyggingar nýrrar markaðsöflunar og aukinnar verðmætasköpunar sem því fylgir. Löggjöf um úthafsveiðar á að stöðva framsókn úthafsveiðiflotans sem fært hefur þjóðinni milljarða verðmæti og skapað þau nýju sóknarfæri sem nú eru að lyfta þjóðarskútunni upp úr öldudal.

Í endurskipulagningu ríkisrekstrar, breytingu á rekstrarformi ríkisbanka, nauðsynlegri endurskoðun á orkubúskapnum, skipulagsbreytingu á rekstri orkufyrirtækja og setningu löggjafar um óskorað eignarhald íslensku þjóðarinnar á virkjunar- og námuréttindum gerist ekkert ef frá er talið meingallað frv. um Póst og síma. Áform um skipulagsbreytingar í stjórnun fiskveiða svo sem með veiðileyfagjaldi eru engin. Þvert á móti eru fest í sessi forréttindakerfi sægreifanna með öllu því braski sem því fylgir. Evrópuumræðan er læst niður í skúffu á meðan Íslendingar verða æ áhrifalausari í alþjóðlegu samstarfi eins og sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hefur greint frá. Þegar næsta lota hefst í viðræðum Evrópuríkja um aukið samstarf mun Ísland eiga alla sína heimavinnu óunna og neyðist til að skila auðu. Kyrrstaðan er komin til að vera, herra forseti. Klukkan okkar gengur ekki lengur. Varðveisla sérhagsmunanna á kostnað almannahags, öfugmælafrv. ríkisstjórnarinnar um skattlagningu fjármagnstekna sem er tillaga um stórfelldar skattalækkanir til stóreignamanna og jeppafólksins. Lækkun á sköttum fyrirtækja, lækkun á skattgreiðslum arðs til eigenda þeirra, lækkun á sköttum þeirra sem kaupa og selja hlutabréf og verðbréf þar sem 10 þús. kr. skattur er hámarksskattur á margra millj. kr. árstekjur af slíkum viðskiptum. Sameinaðir verktakar eru taldir eiga 2--3 milljarða kr. í óskattlögðu eigin fé sem þeir fá nú heimild til að greiða eigendum án sköttunar og eigendurnir fá að taka við því með 10% skattlagningu í stað 42--47% skattlagningar eins og verið hefur. Sumargjöf ríkisstjórnarinnar til stóreignamanna nemur fleiri hundruð milljónum kr. í skattlausum greiðslum til þeirra 10% landsmanna sem eiga meira en helminginn af eignum þjóðarinnar. Hverjir eiga að borga herkostnaðinn? Gamalt fólk, börn og unglingar sem eiga sparifé sitt inni á reikningum innlánsstofnana. Skerðing ríkisvaldsins á réttindum starfsmanna sinna þar sem almenn mannréttindi eru takmörkuð, verkfalls- og samningsréttur skertur og umsaminn réttur afnuminn. Atlaga ríkisstjórnarinnar að verkalýðsfélögum og lögþvinganir um breytingar á samskiptingum á vinnumarkaði sem valdið geta illvígum kjaraátökum í haust og eyðilagt það farsæla samstarf byggt á gagnkvæmu trausti sem fært hefur íslensku þjóðinni langþráðan stöðugleika í efnahagsmálum, lækkað vexti, slökkt bál óðaverðbólgunnar, öllum þessum árangri er nú kastað á eld því varðstaðan um sérhagsmunina er tekin fram yfir almannahag.

,,Fólk í fyrirrúmi`` var aðalslagorð Framsfl. í kosningabaráttunni. Er Ingibjörg Pálmadóttir að framkvæma þá stefnu í heilbrrn.? Er Páll Pétursson að framkvæma þá stefnu gagnvart fólkinu í verkalýðsfélögunum? Er Guðmundur Bjarnason að framkvæma þá stefnu með búvörusamningnum? Er Halldór Ásgrímsson að framkvæma þá stefnu með ofurtollunum sem eyðilögðu GATT-samninginn? Nei, fólkið er nú aftast í skut, skipið sjálft liggur við festar sérhagsmunanna, það flýtur ekki lengur.

Góðir áheyrendur. Er þetta óskastjórn unga fólksins sem hefur jákvæða framtíðarsýn? Er þetta óskastjórn frjálslyndra og viðsýnna karla og kvenna sem vita að virk þátttaka Íslands í fjölþjóðlegu samstarfi, í frjálsri verslun og viðskiptum, í heilbrigðri samkeppni á markaði og með skipulagsbreytingum í opinberum rekstri eru lyklarnir að bættum lífskjörum, auknum tækifærum til menntunar, til þekkingaröflunar, til þroska og til aukinnar lífshamingju? Ég segi nei. Samstjórn kyrrstöðuaflanna lætur aldrei drauma þessa fólks rætast. Hún hefur ekki gert það á sínu fyrsta valdaári. Hún mun ekki gera það á þeim árum sem hún kann að eiga eftir á valdastólum. Vonandi verða þau sem fæst. --- Góða nótt.