Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 22:14:41 (6877)

1996-05-30 22:14:41# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[22:14]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Óvenjuafkastamiklu og farsælu þingi er að ljúka. Því er hlálegt að hlusta á talsmenn stjórnarandstöðunnar tala um stefnuleysi og stöðnun hjá ríkisstjórn og stjórnarflokkum. Þeir fjölmörgu lagabálkar sem Alþingi samþykkir á þessum vetri sanna að þessi gagnrýni stjórnarandstöðunnar á sér enga stoð í veruleikanum. Hv. þm. Ögmundi Jónassyni get ég sagt að það stendur ekki til að selja Póst og síma, ef það mætti verða honum til einhverrar huggunar.

Framsfl. gekk til síðustu kosninga undir kjörorðinu ,,Fólk í fyrirrúmi`` og þetta kjörorð höfum við haft að leiðarljósi. Við höfum unnið ötullega að því að hrinda kosningaloforðum okkar í framkvæmd. Fjárlagahallinn er á öruggri niðurleið. En jafnvægi í ríkisbúskap er forsenda hagvaxtar sem er aftur forsenda þess að störfum fjölgi þannig að allir eigi kost á atvinnu. Atvinnuleysið er á undanhaldi og standa rökstuddar vonir til þess að okkur takist að skapa 12 þúsund störf til aldamóta. Átak hefur verið gert til þess að reisa rönd við skuldasöfnun heimilanna. Komið hefur verið á fót samstarfsverkefni félmrn. og Húsnæðisstofnunar og lánastofnana um rekstur ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og þangað geta þeir sem glíma við miklar skuldir leitað og fengið ókeypis ráðgjöf og aðstoð. Lög hafa verið sett um réttaraðstoð vegna nauðasamninga einstaklinga þar sem ríkið greiðir kostnað við að gera nauðasamninga. Sett hafa verið lög sem heimila að semja um skattaskuldir aðrar en vörsluskatta. Þá bíða lokaafgreiðslu lög um Innheimtustofnun sveitarfélaga sem gerir höfuðstól meðlagsskulda niðurfellanlegan í ákveðnum tilfellum. Ráðgjafarstofan og þessi nýju lagaúrræði ættu að geta hjálpað mjög mörgum til að koma lagi á fjármál sín og forða þeim frá hörmungum gjaldþrota.

Hvað húsnæðismál varðar hefur lánshlutfall þeirra sem kaupa sína fyrstu íbúð verið hækkað úr 65 í 70%. Þá hefur lögum um Húsnæðisstofnun verði breytt þannig að nú er lánstími húsbréfalána sveigjanlegur til 15, 25 eða 40 ára og reglugerð hefur verið gefin út um heimild til skuldbreytingar eða frestun á greiðslum á lánum Byggingarsjóðs eða húsbréfadeildar. Nú er hægt að uppfylltum skilyrðum um veðmörk að fresta greiðslum í allt að þrjú ár. Tekið hefur verið á vanda sveitarfélaga vegna félagslegra eignaríbúða og var frv. þar að lútandi samþykkt í morgun. Þá hefur verið heimilað að lána út á endurbætur eldra húsnæðis með rýmri hætti en áður hefur verið gert.

Unnið hefur verið að flutningi grunnskólans yfir til sveitarfélaganna og sveitarfélögunum á að vera fjárhagslega kleift að taka við rekstri grunnskólans og reka hann af myndarskap.

Það hefur verið unnið að jafnréttismálum með markvissum hætti. Hrint verður af stokkunum tilraunaverkefni um starfsmat og það ætti að verða grundvöllur að launajafnrétti kynjanna í framtíðinni.

Hafin er endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra en í þeim málaflokki þarf að taka til hendi þannig að þörfum allra hinna fötluðu verði sinnt sem fullkomnast en þess jafnframt gætt að fjármunir séu nýttir sem best.

Lagabreyting um reynslusveitarfélög er á lokastigi og nokkrir samningar hafa þegar verið gerðir um yfirtöku reynslusveitarfélaga á verkefnum frá ríkinu.

Breyting á vinnulöggjöfinni bíður lokaafgreiðslu. Þessi breyting hefur valdið miklum átökum á Alþingi og forsvarsmenn launamanna hafa snúist mjög öndverðir gegn lagasetningunni. Sumir hafa talið að ekki mætti breyta stafkrók í lögunum frá 1938 og aðilar vinnumarkaðarins ættu að semja um samskiptareglur sín á milli. Samskiptareglur á vinnumarkaði eru ekki einkamál launamanna og atvinnureknda. Þær varða þjóðfélagið allt og almennaheill krefst þess að lagareglur gildi um svo mikilsverð málefni. Það er mesti misskilningur að þessi lög séu sett launamönnum til óþurftar. Þessi lög ættu að geta orðið launamönnum heilladrjúg til bættra lífskjara og styrkt samtök þeirra.

Reynt hefur verið að koma til móts við rökstuddar óskir verkalýðshreyfingar og lögin eru sniðin að miklu leyti eftir þeim ábendingum sem verkalýðsfélögin hafa sett fram og sams konar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur og launamenn. Þessi lagabreyting felur í sér veruleg nýmæli. Vinnustaðarsamningar fá stoð í lögum. Viðræðuáætlun verður gerð í tíma áður en samningar eru lausir. Almennir launamenn og almennir atvinnurekendur fá lögbundinn rétt til þess að taka þátt í meginákvörðunum um kaup og kjör, verkföll og verkbönn. Og ríkissáttasemjari þarf að hafa reynt til þrautar að koma á frjálsum samningum áður en hann leggur fram miðlunartillögu. Það er auðvitað þrautalending en þó skárri leið en að leysa vinnudeilur með lagasetningu.

Efnisatriði frv. eru tvímælalaust til bóta og það mun reynslan sanna. Það sem einkum er deilt á eru vinnubrögð við lagasetningu. Ég vísa því alfarið á bug að önnur aðferð hefði verið farsælli. Ég hef fengið ómaklega gagnrýni stjórnarandstöðunnar vegna þessa máls, en ef stjórnmálamaður telur sig vera að gera rétt og vinna þjóðfélaginu til heilla þýðir ekkert að kikna undan stundargagnrýni. Ég vænti þess að þegar fram líða stundir sjái allir, bæði stjórnarandstæðingar og forustumenn launamanna, að hér er um þarfa og heppilega lagabreytingu að ræða. Ríkisstjórninni hefur tekist að bæta þetta þjóðfélag á fyrsta starfsári sínu. --- Góðar stundir.