Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 22:20:45 (6878)

1996-05-30 22:20:45# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[22:20]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Fyrsti vetur nýrrar ríkisstjórnar er alltaf athyglisverður. Þá mæta stjórnarliðar ánægðir til leiks eftir að hafa náð völdum eins og þeir gerðu sér vonir um fyrir kosningar. Stjórnarandstaðan er alltaf dálítið slegin fyrsta veturinn. Draumarnir rættust ekki í kosningunum og nokkurn tíma tekur að sætta sig við nýtt hlutskipti.

Það má spyrja: Hefur umræðan í vetur snúist um grundvallaratriði í lífsskoðunum? Nei, þetta hefur oftast verið þref um tæknileg atriði þó vissulega slái stundum í brýnu um grundvallaratriði. Það voru fjögur mál sem snerust um pólitík, þ.e. búvörusamningurinn, veiðileyfagjaldið, fjárlögin og vinnumarkaðsmálin. Það er merkilegt hvað þetta er oft stöðnuð umræða og snýst oft um að verja núverandi stöðu einhvers kerfis.

Stjórnarþingmenn ganga erinda framkvæmdarvaldsins í að hjálpa þeim að knýja frumvörp í gegnum þingið með sem allra minnstum breytingum. Stjórnarandstaðan er oftast í vörn og vinnur út frá frumvörpum stjórnarinnar og er þannig þvinguð til að vinna út frá forsendum framkvæmdarvaldsins. Þetta gerir það að verkum að Alþingi nær ekki að sýna framkvæmdarvaldinu eðlilegt eftirlit. Stjórnskipan okkar er meingölluð, m.a. vegna þess að Alþingi er miklu virkara framkvæmdarvaldsþing en löggjafarþing.

Nú eru forsetakosningar fram undan og nokkur umræða hefur hafist um breytingar á því embætti. Ég tel ástæðu til að minnast á tillögur Vilmundar Gylfasonar og Bandalags jafnaðarmanna um að kjósa framkvæmdarvaldið í beinni kosningu líkt og gert er í Bandaríkjunum og Frakklandi. Ég er sannfærður um að slíkt fyrirkomulag mundi henta okkur Íslendingum mjög vel. Þetta gæti þýtt að kosinn forsætisráðherra gegndi jafnframt núverandi skyldum forseta lýðveldisins. Þetta þarf að ræða ítarlega í haust, þessar og aðrar hugmyndir því að stjórnskipun okkar er alls ekki nógu góð.

Það er innan stjórnmála sem menn breyta umgjörð sérhvers þjóðfélags, að vísu mjög hægt. Við erum býsna íhaldssöm þjóð og áttum okkur ekki á því að breytingarnar erlendis eru nú mun hraðari en var fyrir nokkrum árum. Vilji einstakra þjóða skiptir sífellt minna máli. Fjölþjóðleg og alþjóðleg sjónarmið móta sífellt meira skoðanir ungs fólks og ef við náum ekki að fylgja eftir breytingum í umhverfinu dagar okkur einfaldlega uppi. Við megum aldrei miðla þeirri lífssýn að þjóðfélagið sé óréttlátt og ósanngjarnt, veiti ekki sjálfsvirðingu, hygli fáum útvöldum og stuðli að valdasamþjöppun. Mér finnst stjórnarflokkarnir miðla slíkri lífssýn.

Stjórnmál snúast um að gefa fólki kost á að velja milli stefna sem grundvallast af lífssýn til framtíðar. Ég þröngva ekki minni lífsskoðun og stefnu upp á nokkurn mann, en ég get borið hana undir kjósendur. Ég er sannfærður um að okkar þjóðfélag verður að breytast í átt til þess sem stóru jafnaðarmannaflokkunum hefur tekist í Vestur-Evrópu. Jafnaðarmenn hafa ekki átt forsrh. á Íslandi á þessari öld nema í örfá ár. Þetta er einsdæmi í Evrópu. Við höfum alltaf mætt sundruð til leiks og síðan hafa sjálfstæðis- og framsóknarmenn ráðið niðurstöðum eftir allar kosningar. Þetta var ekkert betra eftir síðustu kosningar. Þá biðu Framsfl., Alþfl. og Alþb. með grasið í skónum eftir að mynda stjórn með Davíð Oddssyni. Davíð valdi vel, tók Framsókn og fékk auðsveipa hjörð til að hjálpa sér að stjórna landinu.

Við breytum ekki þessu ofurvaldi Sjálfstfl. nema við stöndum sameiginlega að framboði við næstu alþingiskosningar. Annars endar þetta eftir sem áður í tveimur eða þremur vinstri fylkingum með fimm til fimmtán prósent fylgi hver og ekkert breytist, sjálfstæðis- og framsóknarmenn ráða ferðinni.

Herra forseti. Stjórnmál eiga að snúast um grundvallarstefnumál. Þessi vetur hefur sýnt okkur að við höfum verk að vinna í stjórnarandstöðunni. Allt bendir til þess að þessi stjórn sitji ekki aðeins út kjörtímabilið heldur einnig hið næsta. Það skiptir máli að koma í veg fyrir það. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.