Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 22:26:30 (6879)

1996-05-30 22:26:30# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, HG
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[22:26]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Talsmaður Sjálfstfl. í umræðunni áðan vitnaði í kvæði. Hann sagði það eftir Markús í Borgareyrum í Landeyjum. Eitthvað sýnist mér þingmaðurinn hafa villst í kjördæminu því að eftir því sem ég best veit, þá er þessi bær undir Vestur-Eyjafjöllum. Skýringin kann að vera að hv. þm. fljúgi gjarnan um kjördæmið eða yfir það.

Ég ætla hins vegar að leyfa mér að vitna til Bólu-Hjálmars sem kvað eitt sinn um lestarferð höfðingja í sinni sveit nyrðra:

  • Aumt er að sjá í einni lest,
  • áhaldsgögnin slitin flest.
  • Þessar hendingar koma upp í huga minn þegar litið er yfir fyrsta starfsár ríkisstjórnar þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Þetta er afskaplega sviplítil og drungaleg stjórn. Ekki vantar liðssafnaðinn, afl atkvæða til að tryggja meiri hluta fyrir málum í þinginu hversu vond og vitlaus sem þau eru. Flest eru málin raunar bland af hvoru tveggja, ógeðslegur gambri eins og þau frumvörp til höfuðs verkalýðsfélögunum í landinu sem mest hafa verið rædd hér síðustu viku.

    Nú sitja ráðherrarnir uppi með þessi frumvörp meira og minna í tætlum, eins og þvott sem gleymst hefur úti á snúru vetrarlangt og lent í aftakaveðrum. Þeir eru ekki öfundsverðir af þessum rýjum, ráðherrarnir þeir Páll og Friðrik, þótt þeir munu vafalaust reyna að nota þær til að koma böndum á verkalýðshreyfinguna fyrir kjarasamninga í haust.

    Góðir áheyrendur. Okkur er sagt að við lifum á tíðum alþjóðavæðingar og að með því að standa sig á markaðstorgi heimsins geti þjóðirnar vænst góðrar uppskeru. Það er rétt að breytingarnar eru hraðar og stöðugt verður styttra milli heimshorna á mannlegan mælikvarða. Þessu fylgja margháttaðir möguleikar ef rétt er á haldið. Mikilvægt er þó að átta sig á að láta þessar breytingar ekki bera sig stjórnlaust út á alþjóðlegan rúmsjó. Ráðandi í þessum hræringum er fjármagnið sem leikur nú lausum hala sem aldrei fyrr og leitar ávöxtunargróða í flestum krókum og kimum heimsins. Þessi fjármagnsöfl eru hvarvetna að verki og hafa fjölda ríkisstjórna í gíslingu. Þau eru blind í sjálfu sér og þeim er ekkert heilagt. Þau sameinast um það sem er hreyfiafl þeirra, að brjóta niður hindranir, auka gróðann í þágu eigenda sinna, hluthafanna, kannski á öðru heimshorni, sem biðja um það eitt að hækka pundið.

    Einnig íslenska ríkisstjórnin hefur látið taka sig í gíslingu þeirra sem yfir fjármagninu ráða. Um það bera verk hennar og hugmyndir órækt vitni.

    Íslendingar hafa nú á þriðja ár verið þátttakendur í Evrópsku efnahagssvæði, einhverri furðulegustu uppfinningu milliríkjatengsla í gjörvallri Evrópusögunni. Samningur þessi átti flestan vanda að leysa, hleypa blómgun í atvinnulíf, draga úr atvinnuleysi og laða að erlent fjármagn. Ekkert af þessu hefur gerst í raun og atvinnuleysi er nú hlutskipti nær 7.000 manns eða um 5% af fólki á vinnumarkaðnum. Hjá móðurskipinu, Evrópusambandinu, er atvinnuleysi þó tvöfalt hærra eða um 11%. Í Þýskalandi hefur fjöldi atvinnulausra ekki verið meiri síðan í kreppunni miklu upp úr 1930 og engin sólarmerki sjást um bata nema síður væri. Fimmta hvert ungmenni í Evrópusambandinu þarf að bíða í meira en tvö ár eftir að fá vinnu. Ríki Evrópusambandsins keppast nú við að skera niður ríkisútgjöld og velferðarþjónustu áður en þau taka upp sameiginlega mynt að tveimur árum liðnum. Upp frá því munu ósnertanlegir bankastjórar evrópsks seðlabanka stjórna efnahagsforsendum Vestur-Evrópu. Það mátti raunar heyra á Friðriki Sophussyni í kvöld að Ísland gæti sem best passað inn í þennan klúbb.

    Hér á Alþingi höfum við síðustu tvö ár kynnst Evrópusambandinu allrækilega, þessu mesta reglugerðarveldi sögunnar. Stjórnarráðið hefur ekki undan við að flytja fyrirmæli frá Brussel inn á borð okkar til afgreiðslu. Það þykir sérstök frétt að Íslendingar megi taka í nefið og jafnvel vörina ef þeim svo sýnist, án fyrirmæla frá ESB. Í því máli var raunar tryggð sérstök undanþága. Það gleymdist hins vegar að biðja um undanþágu varðandi það sem meira máli skiptir eins og t.d. íslenskar orkulindir. Á það erum við minnt þessa dagana þegar Evrópusambandið undirbýr nýja tilskipun um raforkumál sem m.a. getur kippt fótunum undan íslenskum raforkufyrirtækjum og þeirri stefnu sem við viljum hafa um jöfnun orkuverðs. Forsrh. okkar vill leyfa Íslendingum að taka í vörina og honum líst ekkert á Evrópusambandið fremur en þeim sem hér talar. Það sama verður ekki sagt um utanrrh., formann Framsfl. Hann var ekki fyrr sestur í stól forvera síns en hann tók ESB-bakteríuna. Öllum ,,púkó`` svardögum hefur verið stungið undir þann sama stól.

    Í ræðu sinni um utanríkismál í þinginu 23. apríl sl. sagði formaður Framsfl.: ,,Stækkun ESB hlýtur að stuðla enn frekar að friði, velmegun, öryggi og stöðugleika í álfunni.`` Og hann bætti við: ,,Aðild að ESB hefur ekki verið útilokuð af Íslands hálfu.`` Alþb. varar við stöðu þessara mála. Inn fyrir múra Evrópusambandsins eiga Íslendingar síst af öllu erindi.

    Hann er annars orðinn skrýtinn, þessi Framsfl. eins og heyra mátti af munni eins af nýjum þingmönnum flokksins hér áðan sem sér ofsjónum yfir atkvæðavægi fólks á landsbyggðinni.

    Góðir áheyrendur. Um margt erum við og mannkynið allt á hættuslóð. Við látum tæknihyggju ráða ferð okkar í allt of ríkum mæli. Inngrip manna í náttúruleg þróunarferli, jafnvel í eigið erfðagóss eru komin út fyrir öll skynsamleg mörk og áfram er anað í blindni. Maðurinn sjálfur, friðhelgi heimilis og einkalífs er á stöðugu undanhaldi fyrir ágengni tækninnar: hávaða, fjölmiðlun, upplýsingasöfnun og jafnvel persónunjósnum. Verst fer þetta með börnin og þann samleik kynslóðanna sem fram undir þetta hefur stuðlað að samhengi í verkmennt, tungu okkar og annarri menningu. Engin af gildum liðins tíma og nútíðar eru lengur sjálfgefin og því þarf að rækta þau eigi íslensk menning og samfélag að halda velli til frambúðar.

    Herra forseti. ,,Áhaldsgögnin slitin flest`` kvað Bólu-Hjálmar fyrir 180 árum. Enn frekar á það við þegar litið er á farteski þeirra sem nú ráða ferðinni. Það er kominn tími til fyrir löngu að skipta um fólk við stjórnvölinn í þessu landi og setja upp önnur leiðarljós. Alþb. hefur krafta fram að bjóða, reynslu og tengsl við fjöldasamtök í landinu sem hollara er að starfa með en á móti. --- Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.