Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 22:34:28 (6880)

1996-05-30 22:34:28# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, EKG
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[22:34]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Því er oft haldið fram að þingstörfin fram eftir vetri hafi verið daufleg. Hvað sem um það má segja er hitt jafnvíst að þetta þing sem nú lýkur brátt störfum hefur verið ótrúlega afkastamikið og afgreitt frá sér lög sem munu hafa mikil og farsæl áhrif á framtíð okkar. Þessa dagana erum við að setja lög sem tryggja nýja skipan grunnskóla sem nú verða að fullu færðir yfir til sveitarfélaganna jafnframt því sem tekjustofnar þeirra verða stórum efldir. Þannig verða bæði völd og áhrif aukin á sveitarstjórnarstiginu og sveitarfélögum gert kleift að takast á við ný og mikilvæg verkefni.

Ný lög hafa verið samþykkt um framhaldsskóla í landinu. Samþykkt hafa verið ný upplýsingalög og heildstæð lög um snjóflóð og skriðuföll. Með breytingu á lögum um stjórn fiskveiða er fundin framtíðarlausn á stjórnkerfi smábáta. Á lokastigi er lagasetning um úthafsveiðar en einmitt á þeim sviðum hefur vöxturinn í íslenskum sjávarútvegi verið hvað mestur.

Nú er ýmist lokið eða um það bil að ljúka lagasetningu um skipan vinnumarkaðarins jafnt hins opinbera og hins almenna. Þau mál voru afar umdeild í upphafi. Í mjög veigamiklum atriðum var hins vegar tekið fullt tillit til sjónarmiða verkalýðshreyfingarinnar í þessum málum. Það er þess vegna gersamlega fráleitt eins og hér hefur verið haldið fram, m.a. í kvöld, að ekkert hafi verið skeytt um aðfinnslur verkalýðshreyfingarinnar. Það var líka mjög athyglisvert að við 3. umr. um frv. til laga um stéttarfélög og vinnudeilur fyrr í dag laut gagnrýni stjórnarandstöðunnar að langmestu leyti að tildrögum lagasetningarinnar en ekki innihaldi hennar. Það segir meira en mörg orð.

Það hefur hins vegar verið stórfurðulegt að fylgjast með málflutningi stjórnarandstöðunnar nú í kvöld í þessum málum. Á meðan sumir töluðu um einhliða valdboð í þessu sambandi sögðu aðrir stjórnarandstæðingar sömu frumvörp vera útþynnt. Svo tala sömu menn um óvenjugóða samstöðu stjórnarandstöðunnar einmitt í þessum málum. Þetta er þeirra samstaða í reynd, samstaða um það að vera ósammála í grundvallaratriðum.

Þá er mikilvægt að minna á að Alþingi hefur samþykkt afar þýðingarmiklar ráðstafanir til þess að koma til móts við fjölskyldur í fjárhagslegum nauðum. Þar var tekið myndarlega á alvarlegum vanda þótt enn séu þar óunnin verk. Lýsir það miskunnarlausri grimmd eins og haldið var fram í kvöld að endurspeglaði stjórnarstefnuna? Aldeilis ekki.

Í næstu viku leiðum við væntanlega í lög nýja skipan fjarskipta og póstmála sem mun skapa þessari nýju mikilvægu atvinnugrein ný sóknarfæri til ótvíræðra hagsbóta fyrir notendur og starfsfólk. Samhliða því er gert ráð fyrir að það verði leitt í lög að símgjöld verði jöfnuð í landinu og það má heita lokaáfangi á þeirri leið sem farin hefur verið á undanförnum árum að lækka símgjöld í landinu, ekki síst á langlínutöxtum. Allt þetta sýnir okkur að þetta þing hefur verið mjög starfsamt og það mun marka heillavænleg spor inn í framtíðina. Myndin sem blasir við er þess vegna ekki mynd kyrrstöðu eins og hér var sagt fyrr í kvöld, heldur mynd framfara. Að sönnu hefur ekki verið gengið fram af hálfu stjórnarinnar með bumbuslætti eða flugeldasýningum eins og t.d. Alþfl. virðist telja vera helsta tákn framfaravilja í stjórnmálum. Verkin hafa hins vegar talað og árangurinn er að koma í ljós. Gagnvart þessu hefur stjórnarandstaðan staðið málefnasnauð en geipað þeim mun meir eins og hefur komið í ljós í kvöld, svo mjög raunar að jafnvel í þeirra eigin herbúðum er þessi hugmyndafátækt orðin að sérstöku umkvörtunarefni dag eftir dag í blöðunum.

Virðulegi forseti. Íslenska þjóðfélagið hefur lengstum getað státað af góðum lífskjörum og mikilli atvinnu. Þess vegna hefur það verið mikið áhyggjuefni að við höfum á undanförnum árum mátt þola meira atvinnuleysi en við höfum áður þekkt og lífskjör hafa ekki þróast með sama hætti og í nágrannalöndum okkar. Þessu mótlæti hefur verið mætt af ábyrgð og festu af stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins. Hér hefur verið tryggður efnahagslegur stöðugleiki sem m.a. birtist okkur í nær daglegum fréttum af vaxtalækkunum. Þannig eru að skapast skilyrði fyrir atvinnulífið til þess að fjárfesta og takast á við ný verkefni og þetta mun létta almenningi greiðslubyrði lána. Það skiptir ekki síst máli fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinar á landsbyggðinni sem eiga líf sitt undir því að hér verði áfram stöðugleiki í verðlagi og hagfellt gengi. Í stað þess að það dragi sundur með okkur og öðrum þjóðum í lífskjörum liggur það nú fyrir að lífskjör okkar batna nú mun örar en í löndunum í kringum okkur. Það er heilmikill árangur. Batinn í efnahagslífinu er þess vegna svo sannarlega að skila sér til almennings, fjölskyldnanna í landinu.

Fyrirtækin eru líka að styrkja undirstöður sínar jafnframt því sem atvinnutækifærunum fjölgar jafnt og þétt. Frá árinu 1993 hefur störfum á Íslandi fjölgað um fimm þúsund. Þetta eru mikil umskipti frá því að atvinnutækifærum fækkaði bókstaflega ár eftir ár. Það er sérstakt fagnaðarefni að þessi nýju atvinnutækifæri hafa að langmestu leyti orðið til í hinu almenna atvinnulífi sem er ótvírætt merki þess að það er nú að eflast. Ekki síst á þetta við í ýmsum nýjum atvinnugreinum, svo sem í tölvuþjónustu og ferðaþjónustu, gagnstætt því sem fullyrt var fyrr í kvöld. Þetta, samfara því að lífskjör batna nú hraðar hér á landi en í nágrannalöndum okkar, er ótvíræð sönnun þess að þetta þjóðfélag er á réttri leið. Á þeirri leið eigum við að halda áfram íslenskri þjóð til hagsbóta.