Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 10:04:08 (6882)

1996-05-31 10:04:08# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[10:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mál það sem hér er til umræðu, þ.e. upptaka einhvers konar fjármagnstekjuskatts eða skattlagningar vaxtatekna, er búið að vera lengi á dagskrá í íslenskri þjóðmálaumræðu. Ég hygg að sl. 10--15 ár hafi það verið meira og minna viðvarandi í umræðum um skattamál og ríkisfjármál. Það hefur komið inn í samhengi við jöfnun lífskjara, skattlagningu fyrirtækja á einstaklinga, dreifingu skattbyrði og annað því um líkt.

Fyrir flestar alþingiskosningar, a.m.k. þær sem ræðumaður man eftir og hefur tekið þátt í, hefur þetta mál með einum eða öðrum hætti verið á dagskrá og upp á síðkastið hefur það a.m.k. í orði kveðnu verið svo að allir stjórnmálaflokkar í landinu teldu rétt að til einhvers konar samræmingar á skattlagningu tekna sem myndast með þessum hætti, sem vextir af sparifé eða sem arður af hlutafé eða öðru slíku, skyldi koma. Það hefur hins vegar lengi verið tilfinning mín að mönnum hafi ekki alltaf verið jafnmikil alvara með þessum ræðuhöldum og ætla mætti og erfið fæðing þessa máls í gegnum stjórnmálin sannar það að nokkru leyti. Þannig var það a.m.k. á þeim tíma sem ég þekkti vel til og verið var að vinna að þessu máli í ríkisstjórn að menn voru furðu fundvísir á einhverja tæknilega vankanta á öllum þeim hugmyndum sem upp komu um að skattleggja fjármagnstekjur. Þetta er gamalkunn aðferð sem menn þekkja vel að menn segjast í orði kveðnu vera fylgjandi tilteknu máli en finna svo endalaust á því óleysanlega agnúa að koma því til framkvæmda.

Staðreyndin er sú að enginn maður með sæmilega réttlætiskennd og sómatilfinningu treystir sér yfirleitt til þess að andmæla því að það sé eðlilegt að skattleggja tekjur sem myndast með þessum hætti. A.m.k. væri afar gaman að komast í rökræður við eintak sem treystir sér til að halda því fram að það væri eðlilegt að rífa af launamönnum allt að helming af þeim tekjum sem þeir vinna fyrir hörðum höndum brúttó en láta síðan aðra njóta algers skattfrelsis gagnvart tekjum sem myndast vegna þess að peningar liggja á bók eða hlutabréf ávaxtast. Það sjónarmið hafa fáir treyst sér til að verja og þess vegna hefur aðferðin verið sú af þeirra hálfu sem hafa viljað þvælast fyrir þessu máli að finna endalaust allar mögulegar og hugsanlegar afsakanir fyrir því að ein eða önnur útfærsla málsins væri ekki nógu vel úr garði gerð.

Það er líka mikið talað, herra forseti, um samræmingu þegar verið er að ræða um skattlagningu fjármagnstekna. En nú hefur komið á daginn að menn áttu ekki við sama hlutinn þegar þeir ræddu um samræmingu. Sá sem hér talar og ég held margir fleiri höfðu það alltaf í huga þegar rætt var um samræmingu skattlagningar tekna, fjármagnstekna og annarra tekna, að samræmingin væri í því formi að menn skyldu borga eðlilega skatta til samfélagsins af öllum tekjum sem þeir hefðu án tillits til þess í sjálfu sér hver uppruni þeirra væri. Og alveg sérstaklega var það í mínum huga ranglátt að menn sætu uppi með skattkerfi sem skattlegði harðast eða þyngst þær tekjur sem yrðu til með launavinnu. En nú er komin sem sagt ný útfærsla á þessari samræmingu og hún er samræming niður á við. Hún er samræming í átt til minni skattlagningar á öllum tekjum sem myndast í raun og veru öðruvísi en þannig að menn vinni fyrir þeim. Það er sú skattstefna sem hæstv. ríkisstjórn er að boða. Það er ekki hróflað við tekjusköttum launamanna. Þeir skulu áfram vera 42--47% að frádregnum eða nýttum mjög óverulegum persónufrádrætti sem menn hafa og liggur langt undir þurftarmörkum. Síðan skal skattlagning annarra tekna samræmd þannig niður á við að allt beri það 10% skatt. Þess vegna var það að vonum að menn yrðu nokkuð langleitir þegar í ljós kom að hæstv. ríkisstjórn hugðist selja mönnum þá hugmyndafræði í tengslum við það að taka upp hinn langþráða fjármagnstekjuskatt að þá skyldi samræmingin eiga sér þannig stað að til samræmis við mjög lágan 10% flatan skatt á vaxtatekjur kæmi lækkun skattlagningar annarra fjármagnstekna eða tekna sem yrðu til með öðrum hætti en þeim að um launavinnu væri að ræða, þ.e. að skattlagning arðs, söluhagnaðar, gróða sem myndast við slíkt og leigutekna skyldi fara niður á þetta stig. Þannig er verið að búa til tvöfalt skattkerfi varðandi skattlagningu tekna, annars vegar skattlagninguna á launatekjurnar, en um það bil helmingur af þeim brúttó að frádregnum þessum litla persónufrádrætti er tekinn, og hins vegar þetta lága svið þar sem fjármagnstekjur eða aðrar tekjur eru skattlagðar.

Þetta er í raun og veru grundvallaratriði þessa máls, herra forseti. Pólitísku átakalínurnar snúast fyrst og fremst um það hvernig þessar tekjur eru meðhöndlaðar og skattlagðar og hvernig samræmingin á sér stað. Ég held að menn séu því miður að fara út á afar rangláta og ósanngjarna braut, sérstaklega ef sú útfærsla málsins verður áfram við lýði sem hér er að mestu leyti lagt upp með, þ.e. að engin efri mörk, engin þök séu á því hversu miklar tekjur menn geta haft með þessum hætti og einungis er tekin 10% skattur af.

Í almenna tekjuskattskerfinu hefur þó náðst sá árangur að menn hafa viðurkennt í reynd vissan hátekjuskatt með sérstöku 5% þrepi á hærri launatekjur. Þar er að vísu um mjög rúm mörk að ræða, 450 þús. fyrir hjón, 225 þús. fyrir einstaklinga, ef ég man rétt. En það er þó viss viðurkenning á því hugtaki að rétt sé að hafa það sem stundum er kallaður prógressívur tekjuskattsstigi og taka meira af hærri tekjum en lægri. En þessi hugsun er týnd og tröllum gefin hér að öllu öðru leyti en því að í brtt. meiri hlutans er sett til málamynda þak á ,,skattfrelsi`` söluhagnaðar þannig að ef einstaklingur hefur í hreinan söluhagnað meira en 3 millj., hjón 6 millj., á vissu árabili, þá skal tekið af því samkvæmt almennri skattlagningu. En þó eru þau ákvæði öll mjög rúm m.a. vegna þess að menn geta geymt þennan hagnað tímabundið og reynt að koma honum fyrir í formi nýrra fjárfestinga og þá greiða þeir ekki skatt. Það er búið til alveg sérstakt svigrúm fyrir fólk sem hefur haft þvílíka þénustu út úr einhverjum bréfaæfingum af þessu tagi að menn geta geymt sér skattinn um nokkurn tíma.

Nú er það svo að vísu að um tíma voru á borðum meiri hlutans hugmyndir um að setja inn þetta þak líka gagnvart hagnaði af arði. Ég verð að segja alveg eins og er að þótt þessi mörk séu að mínu mati næstum fáránlega rúm borin saman við íslenskan veruleika hefði ég talið það umtalsverða stefnubreytingu í málinu, svo ég segi ekki eðlisbreytingu, ef slík þök hefðu verið sett inn gagnvart bæði söluhagnaði og arði, svo að ég tali nú ekki um ef vaxtatekjur hefðu fallið undir það líka. Þá var málið að mínu mati búið að breyta algerlega um eðli og þótt mörkin væru áfram jafnfáránlega rúm og ætlunin var af hálfu hv. meiri hluta hefði alltaf mátt lagfæra það síðar. Menn hefðu fyrr eða síðar fært þau í eitthvert raunhæft form þannig að stærðargráða þessa svigrúms væri í samræmi við íslenskan veruleika. Hv. þm. Pétur Blöndal, sem er allra manna fróðastur um innviði þessa kerfis, segir mér að það sé sennilega enginn Íslendingur svo ríkur að hann muni rekast á þessi þök enn sem komið er a.m.k. Þótt það fjölgi býsna hratt í stóreignastéttinni núna á tímum vaxandi misgengis launa og lífskjara í landinu, mun það sjálfsagt vera svo að þeir einstaklingar eru alla vega ekki margir fyrsta kastið sem hafa meira en 3 milljóna hreinar tekjur af arði, hlutabréfum, vöxtum eða söluhagnaði. Af söluhagnaði gæti það gerst. En síður af hinu enn sem komið er.

[10:15]

Þá það. Það hefði þá mátt spyrja sig að því og fara yfir það efnislega hvort þessi þök ættu þá ekki frekar að vera 1,5 millj. og 3 millj. eða eitthvað af þeirri stærðargráðu. Væru svo þökin þannig útfærð að þau væru reiknuð saman fyrir alla þessa tekjuþætti, þá mundi það að sjálfsögðu virka fyrr. En þetta er ekki niðurstaðan því miður og þessi hugsun er týnd í málinu að öllu öðru leyti en því að þetta þak er þarna sett inn á þennan hátt sem mun að vísu hafa afar lítil áhrif eins og það er útfært gagnvart söluhagnaði einum saman.

Hvað er þá orðið um þetta mál, herra forseti? Hvað er þá í raun í þessum frv. hæstv. ríkisstjórnar þegar til kastanna kemur? Jú, það er að vísu þessi 10% flati vaxtatekjuskattur. Menn skulu sem sagt greiða í ríkissjóð 10% tekjuskatt af vöxtum og arði o.s.frv. eins og nánar er kveðið á um í lögunum. En það er allt og sumt. Aðalefni frumvarpanna að öðru leyti snýr að þeim breytingum á skattaumhverfi fyrirtækjanna og hagnaði af arði og söluhagnaði og leigutekjum og öðru slíku sem þarna er á ferðinni. Það er stóra kerfisbreytingin sem hér er verið að gera. Þess vegna hafa menn með réttu bent á það að í raun og veru eru heiti þessara frv. rangnefni. Þetta á miklu frekar að heita frv. til laga um lækkun á skattlagningu arðs, um heimildir fyrirtækja til að uppfæra nafnverð hlutabréfa o.s.frv. því að það er stóra inntakið í þessu máli og það sem kemur til með að hafa miklu, miklu meiri áhrif þegar frá líður. Enda segja fróðir menn og það þarf svo sem ekki annað en lesa sér til í viðskiptakálfi Morgunblaðsins að þessi mál eru þegar farin að hafa lífleg áhrif á t.d. hlutabréfamarkaðinn. Nú fá færri en vilja í hlutafjárútboðum stóru fyrirtækjanna þessa dagana. Forkaupsréttarhafar buðust til að kaupa þrisvar sinnum meira en boðið var út í tveimur stórum sjávarútvegsfyrirtækjum núna á síðustu vikum. Fínt, segir hv. sérfræðingur, Pétur Blöndal, hv. þm. (Gripið fram í: Meiri fjárfesting, meiri atvinna.) Og hvers vegna skyldi þetta vera? Jú, það er annars vegar vegna þess að sem betur fer hefur gengið nokkuð vel í sumum þessara fyrirtækja í sjávarútvegi og það er gott. Menn líta orðið á þetta sem þokkalega álitlegan fjárfestingarkost. En það er líka vegna hins að menn eru að undirbúa þessa nýju framtíð. Menn eru að undirbúa þá framtíð að svigrúm fyrirtækjanna til þess annars vegar að uppfæra stofninn til útgreiðslu arðs er stóraukinn með þessum frv. og nánast skattfrelsi þessara tekna er búið til handa þeim sem leggja inn fé á þessum nótum. Ég kalla það nánast skattfrelsi að borga skitin 10% af tekjum alveg upp úr og endalaust. Ég held að miðað við skattbyrðina annars staðar, hvort heldur í öðrum löndum eða í almenna tekjuskattskerfinu, sé tæplega hægt að kalla þetta annað en skattfrelsi. Tíundi hluti er nánast innan skekkjumarka í því sambandi.

Herra forseti. Ég ætla að koma aðeins betur að þessu með skattalegt umhverfi fyrirtækjanna á eftir. En ef við höldum okkur aðeins betur við sjálfan fjármagnstekjuskattinn eða vaxtatekjuskattinn og val um mismunandi leiðir þar, þá er náttúrlega út af fyrir sig hægt að hugsa sér ýmsar útfærslur og aðferðir í því sambandi. Hér er valin sú leið að skattleggja allar tekjurnar flatt á þennan hátt í staðgreiðslu. Það er einföld aðferð í framkvæmd og hefur sína kosti sem slík. En hún er afar gölluð að öðru leyti. Það sem ég tel að sé tvímælalaust langmesti ágalli málsins eins og það er útfært af hálfu meiri hlutans, er náttúrlega sú staðreynd að ekkert frítekjumark er fyrir hendi gagnvart þessari skattlagningu þannig að það er tekið af hinum smæstu upphæðum jafnt og þeim sem stærri eru. Ég kalla það ekki frítekjumark þó að ónýttur persónufrádráttur gangi upp á móti þessum sköttum, enda eðli málsins samkvæmt þannig að það eru sjaldnast þeir sem eiga mikinn ónýttan persónufrádrátt sem greiða háar upphæðir í skatt af þessu tagi.

Hefði þarna verið valin sú leið að búa til einhvers konar frítekjumark held ég að mönnum hefði a.m.k. þótt þessi útgáfa skömminni skárri, snöggtum skárri en hún er. Að því leyti til er kannski mestur eðlismunur í þessu samhengi á milli formannafrv. svonefndu og þessarar útgáfu ríkisstjórnarinnar, að þar er gert ráð fyrir því að hlífa minni innstæðum við þessari skattlagningu þannig að menn geti átt inni á bók óverulegar upphæðir eins og fjölmargir gera, þ.e. venjulegt launafólk sem ekki er efnafólk í neinum skilningi talið en á minni háttar fjárhæðir inni á bók eða með öðrum hætti. Það er alveg sérstaklega ástæða til að hafa áhyggjur af því ef kerfið er þannig útfært að það virkar beinlínis letjandi gagnvart þessum litla en almenna sparnaði í þjóðfélaginu. Hvað er þá orðið um alla vini gamla fólksins og ekknanna sem oft hafa sprottið upp og ekki síst í Sjálfstfl.? Þegar Sjálfstfl. er í stjórnarandstöðu fyllist hann ævinlega slíkri ofurást á gamla fólkinu og ekkjunum að það eru haldnir mótmælafundir og blásið í herlúðra þessu fólki til stuðnings. Það hefur sérstaklega verið talað um það á undanförnum árum þegar Sjálfstfl. hefur verið að þvælast fyrir fjármagnstekjuskatti eða vaxtaskatti eða eignarskatti eða öðru slíku. Frægt er, herra forseti, þegar Sjálfstfl. uppgötvaði ekkjurnar í sambandi við stóreignaskattinn sem Sjálfstfl. taldi þjóðinni trú um að legðist alveg sérstaklega á ekkjur, ekki kannski beint munaðarlausa og börn, en á ekkjur. Svo kom það í ljós að ekkjurnar voru auðvitað helstu stóreignamenn landsins, flestir karlkyns, forstjórar og peningaeigendur. Það voru ekkjur Sjálfstfl. þegar betur var að gáð. Það birtist ágætur listi yfir þessar ekkjur sem voru yfirleitt virðulegir karlmenn á milli fertugs og sextugs með bindi og flestir ágætlega giftir þannig að þeir voru ekki einu sinni ekklar. Það voru stóreignaekkjur Sjálfstfl.

En Sjálfstfl. talaði mikið um það á árunum og með réttu að nokkru leyti að menn þyrftu að varast það í sambandi við fjármagnstekjuskatt að hann legðist á þessar litlu almennu upphæðir, á bækurnar sem gamla fólkið leggur eitthvað inn á til þess að eiga nokkrar krónur til þess að gefa barnabörnunum í afmælisgjöf og fermingargöf o.s.frv. Sjálfstfl. hugðist alveg sérstaklega standa vörð um þennan hóp að sögn og hér kemur afraksturinn í ljós, þ.e. flöt skattlagning allra innstæðna, líka þeirra minnstu þannig að það verða greiddir nokkrir aurar liggur mér við að segja, það sem tekur því að innheimta verður tekið af þessu fólki. En síðan er það þannig að upphæðir án endis skulu svo njóta þessarar skattlagningar án nokkurra þrepa eða aðgreiningar.

Auðvitað er það alveg hárrétt að hér er á ferðinni stórgjöf til hinna eiginlegu fjármagnseigenda í landinu, myndarleg sumargjöf svo ekki sé meira sagt vegna þess að þegar á heildina er litið er 10% vaxtaskatturinn smámál og óverulegur fórnarkostnaður fyrir þessa aðila borið saman við þá skattaparadís sem verið er að búa til hinum megin með lækkun skattlagningararðs og söluhagnaðar og ekki síður þó því svigrúmi sem búið er til í kerfinu í heild sinni gegnum möguleika fyrirtækjanna til að stórlækka skattgreiðslur sínar og auka skattfrjálsa útgreiðslu fjármuna úr rekstrinum verulega. Í reyndina mun þetta því verða þannig að lögaðilaformið verður farvegur fyrir fé yfir til einstaklinga á lágum sköttum í miklu ríkari mæli en áður hefur verið hægt. Þetta fullyrði ég, herra forseti.

Ég veit að vísu að hv. þm. Pétur Blöndal mun koma upp og segja okkur söguna af láninu, að þetta hafi verið hægt með krókaleiðum og kúnstum sem ég kann að vísu ekki enn, ég hef ekki náð að skilja, en felast að einhverju leyti í stórkostlegum pappírsæfingum þar sem eigandinn lánar fyrirtækinu og fær svo lánið endurgreitt o.s.frv., þ.e. þetta hafi allt meira og minna verið hægt áður. Kannski er það rétt. En hér er þó að minnsta kosti verið að búa til uppi á borðinu alveg hreina og klára leið, braut, breiðgötu fyrir fjármagnið úr rekstri fyrirtækjanna gegnum hlutabréf og arð yfir til einkaaðila á lágmarksskattlagningu, nánast skattfrjálst, 10%. Þetta gerist náttúrlega þannig, herra forseti, að arðgreiðslustofninn í öllum íslenskum fyrirtækjum er stóraukinn þannig að nú um næstu áramót verður eiginlega næstum að segja lögbundið, það er að vísu hætt við að hafa það skyldu vegna þess að menn töldu að það væri kannski ekki rétt, að skylda fyrirtækin til þess að gefa út að fullu jöfnunarbréf og allt það, en þannig var það hugsað fyrst. En nú er beinlínis mælt fyrir um það í lögunum að fyrirtækin skulu taka og uppfæra allar jöfnunarheimildir gagnvart sínu hlutafé þannig að það standi allt í botni um næstu áramót og myndar þar með mikið breiðari stofn til útgreiðslu arðs. Á móti kemur að vísu að frádráttur fyrirtækjanna, svigrúm fyrirtækjanna, eða frádráttarheimildin frá tekjum er lækkuð úr 10% í 7%. En það er eftir sem áður um stórkostlega aukningu að ræða (Gripið fram í: Þessi heimild er til staðar í dag.) og mun koma þannig út að þarna verður um paradís að ræða fyrir fyrirtækin.

Mér skilst reyndar, herra forseti, að það sé alveg séríslenskt fyrirbæri að fyrirtækin megi draga til viðbótar öllum rekstrarútgjöldum og afskriftum og öllu slíku þann hluta hagnaðar síns sem þau greiða út, frá tekjunum áður en þau greiða skatt til ríkisins, að þarna sé um alveg séríslenskt fyrirbæri að ræða og þekkist ekki annars staðar.

Það er augljóst mál og hefur margverið á það bent að spurningin um sjálfstætt starfandi aðila í rekstri og einyrkja kemur auðvitað upp og nú kemur að þessum skemmtilega kafla þegar hv. þm. Pétur Blöndal fer að segja okkur að þetta hafi allt verið hægt áður. En af einhverjum ástæðum er það svo að þeim fjölgar mjög hratt núna þessa dagana, fyrirtækjunum sem eru allt í einu komin með ehf. fyrir aftan. T.d. eru allt í einu virðulegar lögmannsstofur í bænum orðnar ehf. og ýmislegt slíkt. Hvað ætli menn séu að undirbúa þarna? Jú, menn eru auðvitað að undirbúa þessa nýju paradís. Mér er sagt að það fari líka fram a.m.k. á pappírnum stórfelldar hlutafjáraukningar núna í ýmsum litlum ehf.- fyrirtækjum því að það er um að gera að hafa stabbann myndarlegan sem má borga út á þegar þetta nýja góða skattfrelsi kemur. Menn færa því upp hlutaféð alveg eins og þeir mögulega geta, stofna ehf. og dóttur ehf. o.s.frv. og í öllum þessum rekstri einyrkja og minni hlutafélaga, fjölskyldufyrirtækja sem notalegur og fámennur hópur á sem auðvelt er að ná utan um, eru menn núna á fullri ferð að undirbúa þessa nýju framtíð með þessa pappíra í höndunum. Aðferðin er auðvitað sú að í staðinn fyrir að þurfa að vera með fjölskylduna að einhverju leyti á launum og svona vesen, þá verði bara búinn út myndarlegur stabbi af hlutafé og jöfnunargildi þess fært í botn og síðan verða greiddar út myndarlegar fjárhæðir í formi arðs til eigendanna, til sjálfs sín, til fjölskylduvina og vandamanna o.s.frv. (Gripið fram í.) og þar með fer þetta svona fram hjá hinu almenna tekjuskattskerfi og nýtur þessara sérstöku skattfríðinda.

Það er, herra forseti, eðlilegt að menn staldri við þetta og reynslan á auðvitað eftir að leiða í ljós hvernig þetta nákvæmlega kemur út. En það er engin spurning að það liggur í hlutarins eðli að þessi ólíku hlutföll hljóta að kalla á tilhneigingu í þessa veru. Þau hljóta að gera það. Það er dálítið sérkennilegt að þeir menn sem mest hamast gegn skattlagningu yfirleitt og vilja helst sem allra minnst hafa slíkt og helst enga skatta bara og leggja ríkið niður, nota mjög mikið einmitt þau rök að það megi helst ekki vera neinn mismunur á vegna þess að hann leiðir alltaf til skattaundanbragða. Svo er kúrfan fína, hvað heitir hún aftur, hv. þm.? (Gripið fram í: Leffer.) Já, Leffer-kúrfan og allt þetta, að þegar menn lendi upp úr henni þá fari þetta að snúast við. Menn hætti að fá inn skatta vegna þess að skattsvikin geri meira en að éta upp hækkaða prósentu. En hvar eru þessi rök þegar verið er að ræða hér um annars vegar 10% skattlagningu tekna með þessum hætti og hins vegar 42--47%? Þá heyri ég bara ekkert í þessum sérfræðingum. Þá er eins og menn óttist allt í einu ekki að þessi mismunun muni leiða til færslu og það muni verða tilhneiging í kerfinu til að láta arðinn eða tekjurnar koma fram svona. Af hverju á þetta ekki við núna? Ég spyr: Af hverju ekki? Hvað er að? Gilda þá ekki vísindin þegar þarf að verja niðurstöðu af þessu tagi? Mér sýnist svo ekki vera.

[10:30]

Margt fleira, herra forseti, er auðvitað stórfurðulegt í þessu máli og satt best að segja mönnum til lítils sóma. Ég ætla að nefna tvennt sem er nú kannski til marks um það hversu kaldrifjuð framganga ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans er í þessum efnum. Það er annars vegar sérstakur fjármagnstekjuskattur á elli- og örorkulífeyrisþega sem á að halda áfram og það er skattur á líknarfélög sem mér er tjáð að þekkist hvergi á byggðu bóli. Ísland muni komast í heimsmetabók Guinnes sem eina landið í heiminum sem skattleggur sérstaklega líknarstarfsemi ef þetta verður að veruleika. Þeir kannast ekki við það hjá Öryrkjabandalaginu eða Blindrafélaginu eða annars staðar að nokkurs staðar í umheiminum séu þeirra systurstofnanir skattlagðar erlendis. Þær njóta auðvitað algjörs skattfrelsis. Þegar spurt var að þessu í Bretlandi og Bandaríkjunum, skildu menn ekki spurninguna. Ha, charity? Taxes? Þeir bara skildu þetta ekki. Hvað eruð þið að fara? Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur, þetta getur ekki verið. Jú, það er þannig, sögðu menn, að það á að fara að leggja skatt hér á líknarfélög. Þá var svarið það að þeir hefðu aldrei heyrt um slíkt. Það þekkist hvergi, það er ekki til. Þeir eru að vísu hættir við það núna að skattleggja leigutekjur af íbúðum Öryrkjabandalagsins. En frv. var þannig í byrjun að samtök eins og Öryrkjabandalagið og Blindrafélagið sem eiga íbúðir og leigja þær út til félagsmanna sinna áttu að fá skatt á leigutekjurnar. Þannig var lagt upp með málið og það segir sína sögu um vinnubrögðin í þessu. En þó það sé lagfært hér í breytingartillögunum þá stendur eftir að þessi félög verða eins og aðrir að borga skatt af sínum fjármagnstekjum. Hitt er svo þessi sérstaki fjármagnstekjuskattur á aldraða sem er náttúrlega alveg dásamlegur og sérstaklega að það skuli vera Sjálfstfl., vinur og málsvari ekknanna og gamla fólksins og munaðarlausra og allra þeirra sem bágt eiga eins og kunnugt er. Sjálfstfl. hefur iðulega gengið fram með þannig kjörorðum. Það var einu sinni maður á mínum heimaslóðum sem bauð sig fram á meðan Norður-Þingeyjarsýsla var einmenningskjördæmi og hans kjörorð voru að hann væri í framboði fyrir ekkjur, munaðarlausa og alla þá sem bágt eiga. Mér dettur þetta stundum í hug þegar ég hlusta á Sjálfstfl. Hann er svo óskaplega góður við gamla fólkið og ekkjurnar. (Gripið fram í: Þegar hann er í stjórnarandstöðu.) Þegar hann er í stjórnarandstöðu. Svo er framkvæmdin á þessari miskunnsemi svona. Það er vaxtatekjuskattur á allar innstæður, hinar minnstu, bækurnar hjá gamla fólkinu, það er sérstakur fjármagnstekjuskattur á aldraða í því formi að helmingur fjármagnstekna þessa hóps skerðir þeirra tekjur í almannatryggingakerfinu og það er skattur á líknarfélög. Þessi þrenning er nú ágæt. Er það ekki? Það verður sennilega ástæða til að rifja hana upp næst þegar Sjálfstfl. skiptir um föt og fer í þennan galla, samfesting miskunnseminnar gagnvart öldruðum og ekkjum og öllum þeim sem bágt eiga, þessa þrenningu sem nú er hér skjalfest. Skattur á allar vaxtatekjur, minnstu innstæður á bókum gamla fólksins, sérstakur fjármagnstekjuskattur á aldraða og skattlagning líknarfélaga. Heilög þrenning Sjálfstfl.

Eitt mál enn, herra forseti, var auðvitað með ólíkindum í þessu sambandi og það var skatturinn eins og hann kom út gagnvart sveitarfélögunum. Frv. var þannig lagt fram að það átti að skerða tekjur sveitarfélaganna um hátt í 200 millj. kr. Þetta var þeim mun kostulegra þar sem ríkið hafði setið í samningaviðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga lon og don og legið í nákvæmum útreikningum á því upp á marga aukastafi hvað það mundi kosta fyrir sveitarfélögin að taka við grunnskólanum. Svo var þetta stillt af í svo fínni formúlu að það átti ekki að skakka aurum. En á sama tíma var verið að undirbúa stjfrv. sem átti að skerða tekjur sveitarfélaganna í gegnum þetta kerfi um hátt í 200 millj. kr. Það var ætlun meiri hlutans að láta þetta ganga svona allt í gegn hér og hafa svo áhyggjur af því einhvern tímann seinna hvernig með þetta yrði farið. Það tókst sem betur fer að draga hér út úr ríkisstjórninni í gær yfirlýsingu þar sem hún gaf skuldbindandi loforð, hæstv. ráðherrar, um að þeir mundu leiðrétta þetta gagnvart sveitarfélögunum. Ég krafðist þess í fyrradag að umræðum um tekjustofna sveitarfélaga yrði frestað til að fá þetta mál á hreint. Þótt enn standi málið þannig að það eigi að lögfesta kerfið upp á 150 millj. kr. tekjutap sveitarfélaganna, tel ég þessa yfirlýsingu alveg fullnægjandi og það ber að hafa í huga að nál. okkar í minni hluta efh.- og viðskn. er samið áður en niðurstaða fékkst í þetta mál. Ég bið menn því , herra forseti, að hafa í huga að það sem þar segir um útkomuna gagnvart sveitarfélögunum var samið og sett á blað áður en að tókst að særa þessa yfirlýsingu út úr ríkisstjórninni. Þarf ég þá ekki að hafa svo sem fleiri orð um það.

En aðeins aftur að skattalegu umhverfi fyrirtækjanna á Íslandi, herra forseti, sem m.a. er verið að hafa áhrif á með þessu máli. Staðreyndin er sú að það hafa gerst stórfelldari breytingar í skattalegu umhverfi fyrirtækja á Íslandi í tíð tveggja síðustu ríkisstjórna en nokkurn mann grunar. Og ég verð oft var við að það þarf að rifja þetta upp og fara yfir þetta til að menn muni eftir þessu. Það er staðreynd að Ísland er að verða einhver helsta lágskattaparadís fyrirtækjanna á byggðu bóli, a.m.k. í hinum vestræna heimi. Svo furðulegt sem það er, er samkvæmt samanburði sem unninn var af OECD og samanburði sem gerður var í Finnlandi fyrir tveimur til þremur árum útkoman að verða sú að Norðurlöndin sem slík, svo ótrúlegt sem það nú hljómar, eru lágskattaparadís fyrir fyrirtækin. Skattlagning fyrirtækjanna er almennt orðin vægari á Norðurlöndunum en annars staðar í Evrópu. Til dæmis eru launatengd gjöld fyrirtækjanna lág á Norðurlöndunum öfugt við það sem stundum hefur verið haldið fram. Nægir að bera niður t.d. í Þýskalandi til að sjá alveg gífurlegan mun. Enda eru auðvitað persónuskattar, skattar á einstaklinga, og neysluskattar, óbeinir skattar mjög háir á Norðurlöndunum. Norðurlöndin eru t.d. með hæsta virðisaukaskatt í heimi. Skattkerfið er bara því miður orðið þannig að það hvílir mjög þungt á herðum launamanna og það eru miklar tekjur teknar inn í gegnum óbeina skatta en fyrirtækin greiða orðið mjög óverulega til samneyslunnar. Þetta hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar varðandi Norðurlöndin þar sem menn hafa nú talið að áhrif svokallaðra jafnaðarmanna væru mikil og skattkerfi og aðrir slíkir hlutir drægju dám af því.

En aðeins betur um það hvað hefur síðan gerst á Íslandi í tíð tveggja síðustu frjálshyggjuríkisstjórna. Þær hafa sem kunnugt er fylgt mjög grimmri frjálshyggjustefnu í skattamálum eins og ýmsum öðrum málum. Meðreiðarsveinar íhaldsins, Alþfl. á síðasta kjörtímabili og Framsfl. á þessu, hafa meira og minna kyngt þessu möglunarlaust. Það sem gerðist snemma á síðasta kjörtímabili, herra forseti, var í fyrsta lagi það að það var fellt niður aðstöðugjald upp á 5.000 millj. kr. að stofni til eins og það stóð miðað við síðustu álagningu ársins áður en breytingarnar áttu sér stað. Ég man ekki nákvæmlega hvort það var 1990 eða 1991. Þar fuku 5 milljarðar. Og hvað varð um þessa skattbyrði? Hún var færð yfir í tekjuskatt og útsvar. Færð frá skattlagningu fyrirtækja yfir í skattlagningu á launamenn. En það var ekki látið þar við sitja heldur var í tveimur þrepum á sama tíma og í framhaldinu tekjuskattur fyrirtækjanna lækkaður úr 45% niður í 33%. Þar fuku miðað við afkomu fyrirtækjanna eins og hún er orðin í dag sjálfsagt á milli 1--2 milljarðar kr. út úr skattkerfi fyrirtækja.

Einhver óveruleg hækkun hefur að vísu orðið á tryggingagjaldi þó það hafi aðallega verið um samræmingaratriði að ræða. En skattbyrðin sem slík hefur fyrst og fremst flust yfir í almenna tekjuöflunarkerfið sem snýr að launamönnum, í tekjuskatt og útsvar og ýmiss konar þjónustugjöld sem hafa verið aukin á sama tíma. Þannig að ef aðrir þættir eru einangraðir út, er færslan þessi. Hún er frá fyrirtækjunum, frá viðskiptalífinu yfir í launamannaskatta eða gjöld sem launamenn greiða vegna þjónustu frá hinu opinbera, skólagjöld, komugjöld á heilsugæslustöðvar, hærri kostnað fyrir lyf, tannlækningu barna, o.s.frv. En fyrst og fremst hefur tekjuskatts- og útsvarsprósentan verið að hækka jafnt og þétt á þessum tíma. Nú er haldið áfram. Það er eins og þetta sé ekki nóg. Það er ekki eins og menn séu sáttir við að búa til hér þetta fína kerfi þar sem fyrirtækin borga af hreinum hagnaði sínum eftir að allir frádráttarliðir hafa verið nýttir mun lægri prósentu en launamenn af brúttólaunum sínum. Nei, það er haldið áfram og búið til enn þá meira svigrúm fyrir fyrirtækin til að greiða út úr rekstrinum svo til skattfrjálsan hagnað til eigenda sinna. Þetta, herra forseti, eru auðvitað algjör vatnaskil að mörgu leyti í skattalegri þróun á Íslandi. Það er alveg furðulegt að hver einasta breyting sem gerð hefur verið eða er til umræðu í þessari ríkisstjórn og hinni síðustu snýr að hreyfingu í þessa átt. Ef það þarf að afla einhvers staðar tekna eða menn eru að hafa áhyggjur af vanda ríkissjóðs er ævinlega borið niður í því að hækka tekjuskatt eða útsvar. Jafnvel hafa hugmyndir verið uppi um að hækka virðisaukaskatt eins og t.d. var ætlunin að gera, þ.e. að mæta útgjöldum vegna lægri vörugjalda núna með því að hækka virðisaukaskatt. Síðan var að vísu horfið frá því og hvar er þá borið niður? Það er borið niður í því að lækka endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna íbúarhúsnæðis, endurbóta eða vinnu á byggingarstað íbúðarhúsnæðis. Það er alltaf borið niður á sama stað. Vegna þess að þessir menn, þeir sem bera ábyrgð á og stjórna skútunni núna á þessum tveimur kjörtímabilum, hafa bara eina hugsun, eina sýn. Það er að létta álögum af fyrirtækjunum og færa þau yfir á launamenn. Það gengur allt í sömu átt. Ég held, herra forseti, að það sé búið að ganga hér mjög háskalega langt í þessum efnum, háskalega langt. Nú er það ekki vegna þess að það séu ekki ýmis rök fyrir því að það þurfi að búa þannig að atvinnulífinu að það dafni og það búi við þokkalega sanngjörn skilyrði í þessum efnum. En það verða að vera forsendur til þess og það verður að vera jafnvægi í því sem lagt er annars vegar á launamennina og hins vegar á aðra aðila í þjóðfélaginu. Annað er ekki sanngjarnt. Hver hefur þróunin verið á þessum tíma? Hvað hefur verið að gerast t.d. varðandi afkomu þessara tveggja meginhópa í þjóðfélaginu, fyrirtækjanna og launamannanna? Hvernig hefur skuldastaðan verið að þróast? Á sama tíma og Sjálfstfl. hefur staðið fyrir þessum breytingum með meðreiðarsveinum sínum, létt á fyrirtækjunum, þyngt á heimilunum, hefur þróunin samt sem áður verið sú að fyrirtækin hafa verið að greiða niður skuldir sínar en heimilin að auka þær alveg ískyggilega. Þannig að heimilin á Íslandi og almenningur eru að verða skuldsettari hér en víðast hvar annars staðar í heiminum. Þannig að ekki eru það rök fyrir því sérstaklega að halda áfram á þessari braut. Eða hefur Sjálfstfl. þá skoðun að þanþol gagnvart heimilunum sé endalaust? Að það sé hægt að gera hvort tveggja, þyngja á þeim skattana og horfa á skuldir þeirra aukast um tugi milljarða króna á hverju ári? Og það geti bara haldið áfram svona og svona og svona? Ég veit ekki hvert menn ætla í þessum efnum, herra forseti. Ég held að það verði að fara að koma þessum mönnum frá og fara í rækilega skoðun á skattkerfinu í heild og því sem þarna er að gerast. Við erum komin út á stórhættulega braut gagnvart þessari drápsskattbyrði á almenning. Við erum hér með mjög háa tekjuskattsprósentu. Við erum með næsthæsta virðisaukaskattstig í heimi og við erum með ákaflega tekjutengt kerfi sem veldur því að jaðar\-áhrif í skattkerfinu gagnvart einstaklingum eru ískyggileg. Og á ákaflega viðkvæmu tekjubili er það þannig eins og kunnugt er að fjölskyldurnar missa þrjár af hverjum fjórum krónum eða þar um bil sem þær eru að reyna að hafa inn með auknum launatekjum. Barnafjölskyldur sem skulda í íbúðarhúsnæði eru með jaðaráhrif á bilinu 65--80% á tekjubilinu 120--200 þús. kr.

[10:45]

Þetta er þannig. Þetta fína kerfi á sem sagt að halda áfram. Það er ekki hróflað við þessu. Það er ekki verið að gera breytingar til að lina þrautir þessa fólks heldur er tækifærið notað og gerðar stórkostlegar tilfærslur í skattkerfinu sem í reynd eru enn að auka svigrúm fyrirtækjanna og þeirra sem hagnast af fjármagnstekjum og hlutabréfaeign o.s.frv. Ég segi það því enn og aftur, herra forseti, að hefði hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar á Alþingi --- þrátt fyrir deilur um útfærslu þessarar skattlagningar varðandi vaxtatekjurnar sem slíkar og má ýmislegt um það segja og hefur verið mikið rætt og ég ætla ekkert að lengja þær umræður um mismunandi aðferðir í því sambandi, þessa nafnvaxtaflötu skattlagningarleið eða hitt að taka þetta eins og venjulegar tekjur í gegnum tekjuskattskerfið. Sú deila liggur fyrir og mismunandi frumvörp í þeim efnum --- en hefði þó ríkisstjórnin rambað á það að setja einhver þök, einhver takmörk inn gagnvart því hversu langt þessi skattlagning gangi, þá hefði þar að mínu mati verið um mikilvæga prinsippbreytingu að ræða. Og ég hefði viljað skoða það af fyllstu alvöru að taka þá þátt í því að koma á einhverju slíku kerfi vegna þess að mér er mikið í mun að menn komi þessum fjármagnstekjuskatti þó einhvern tímann á. Ég orðinn leiður á því að sjá Sjálfstfl. með mismunandi hækjur sér við hlið þvælast fyrir því máli kjörtímabil eftir kjörtímabil. Auðvitað vitum við að það er þeim þvert um geð að standa að þessu frv. núna þó að það sé stjfrv. og það er opinbert leyndarmál, herra forseti, að ýmsir í Sjálfstfl. mundu gráta þurrum tárum ef þetta mál dagaði uppi, hvort sem það yrðu krókdílatár sem féllu eða einhver önnur tár. Ég hef engan sérstakan áhuga á því að gefa Sjálfstfl. slíka afsökun hér og nú. En því miður er útfærslan meingölluð og það er þess vegna með miklum trega sem maður horfir á það að upphaf skattlagningar vaxtatekna sem hér er á dagskrá verði með þessum hætti.

Til að halda þessu til haga höfum við í minni hlutanum flutt breytingartillögu herra forseti, sem gengur í þá veru að setja inn þök gagnvart því svigrúmi sem er fyrir fólk að fá útgreiddan arð eða söluhagnað eða vaxtatekjur og að skattlagningin sé aðeins 10%. Við tökum ósköp einfaldlega upp þá breytingartillögu sem meiri hlutinn var með að viðbættu því að vaxtatekjurnar verði einnig teknar undir og þá gildi þessi þök gagnvart einstaklingum og hjónum sem breytingartillögur meiri hlutans leggja til að gildi eingöngu gagnvart söluhagnaði. Eins og ég segi, þá tel ég þessi mörk reyndar allt of rúm og vísa til þess sem ég áður sagði um það. En það er spurningin um grundvallaratriðið hér sem er mjög mikilvæg og ég er sannfærður um að það gæti skipt sköpum upp á framtíðina og framhaldið og almennan stuðning við þetta mál á síðari stigum ef þessi hugsun væri þarna til staðar því að mörkin má endurskoða og aðlaga að íslenskum veruleika ef þau eru einu sinni fyrir hendi.

Þess vegna held ég að það væru stórtíðindi og afar mikið framfaramál ef þessi breytingartillaga okkar í minni hlutanum næði fram að ganga. Málið mundi þá að verulegu leyti breyta um eðli þó að praktísk áhrif af þessari breytingu yrðu kannski ekki mjög mikil, ósköp einfaldlega vegna þess að mörkin eru rúm. Það verður kostulegt og gaman að fylgjast með því hvernig t.d. Framsfl. greiðir atkvæði um þessa tillögu. Liggur Framsfl. virkilega svo gjörsamlega flatur fyrir fótum íhaldsins í þessum málum að jafnvel tillaga af þessu tagi sem er náttúrlega sjálfsagt réttlætismál og lagar þetta mál til, að Framsfl. þori ekki að greiða henni atkvæði, sé gjörsamlega handjárnaður þar sem hann liggur flatur fyrir? Það væri gaman að heyra rök þeirra framsóknarmanna fyrir því t.d. að standa ekki að svona breytingum á málinu.

Við leggjum til í nefndaráliti okkar, herra forseti, að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar, þ.e. stjórnarfrumvörpunum, vegna þess sem hér hefur komið fram og verið rækilega rökstutt að því miður er þetta mál ekki nógu vel úr garði gert og ekki nógu vel unnið. Við teljum þess vegna, þó að við séum miklir kappsmenn um að þessi skattlagning komist á, að farsælla væri að vinna þetta mál betur yfir sumarið og leggja fyrir að hausti í upphafi næsta þings vandaðri og endurskoðaða útgáfu af þessum málum. Sá tími sem þar tapaðist eða öllu heldur tapaðist ekki heldur yrði nýttur til að gera þetta mál betra er vel þess virði að okkar mati. Það er í sjálfu sér ekki neitt úrslitamál varðandi framhaldið hvort lögfestingin yrði nú á vordögunum eða með haustinu og mikilvægt er að vanda til upphafsins og reyna að ná meiri sátt um það upphaf skattlagningar fjármagnstekna sem hér er á dagskrá.

Til að mynda gæti mjög komið til greina og skoðunar að mínu mati spurningin um að ná samstöðu um einhver þök eins og ég hef verið að ræða ef útfærsla sú sem stjórnarfrumvörpin byggja á yrði eftir sem áður ofan á. Ef ekki næðist nein samstaða um að haga skattlagningu fjármagnsteknanna með því að taka það inn í almenna tekjuskattskerfið og meðhöndla það eins og venjulegar tekjur, þá væri til vara sú útgáfa að mínu mati að hafa tiltekin mörk gagnvart upphæðum sem skattlögð væru flatt með 10% og færa það sem þar væri fyrir ofan, hvort sem heldur væri um að ræða vexti, arð, söluhagnað eða leigutekjur, inn í almenna tekjuskattskerfið og taka af því sambærilegar prósentur og þar eru. Það væri varaútfærsla á þessu máli sem mundi að mínu mati stórlaga það.

Herra forseti. Um þetta mál mætti margt fleira segja og satt best að segja hefði verið æskilegt að það væri á dagskrá fyrr á þingi þannig að tími gæfist til ítarlegri skoðanaskipta um það og betri og vandaðri skoðunar á því en gefist hefur. En ég tel að það sé komið að þeirri ögurstund í þessum málum að afgreiða þurfi einhvern veginn frá þinginu þessi efni þannig að spurningin um skattlagningu fjármagnstekna verði ekki að þvælast fyrir mönnum í mörg missiri eða ár í viðbót. Það er til vansa fyrir alla sem að málinu hafa komið á undanförnum árum í hvílíkri útideyfu þetta hefur lent og löngu tímabært að fara að koma þessu máli í höfn.