Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 11:04:34 (6888)

1996-05-31 11:04:34# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[11:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að ég ræði um þessi mál út frá minni lífssýn og er ekkert feiminn við það. Ég skammast mín bókstaflega ekki neitt fyrir það að ræða þetta út frá mínum félagslegu sjónarmiðum og mér er alveg nákvæmlega sama hvaða merkimiða andstæðingar mínar reyna stundum að setja á mig vegna þess. Ég er því alvanur, bæði hér á þingi frá andstæðingum mínum og líka jafnvel úr mínum eigin flokki að það sé reynt að hengja á mann alls konar merkimiða. Mér er skítsama um það. Ef ég færi rök fyrir máli mínu og tel að ég hafi á réttu að standa, er það það sem mig varðar. Og það má hv. þm. Pétur Blöndal eiga að það er einmitt oft gaman að eiga orðastað við hv. þm. vegna þess að hann ræðir málin feimnislaust út frá sínum sjónarhóli. Við erum harkalega ósammála iðulega, reyndar verulega oft, ég og hv. þm., þegar kemur að þessum þáttum. En við getum rætt málin með rökum af því að við reynum báðir að nálgast þetta heiðarlega út frá okkar forsendum.

Hv. þm. spyr: Er hagnaður fyrirtækjanna ekki góður af því að hann leiðir af sér fjárfestingu, nýjar verksmiðjur og nýja vinnu? Jú, ef hann fer í það. Ef bætt afkoma í atvinnulífinu flyst sjálfkrafa eða meira og minna öll yfir í hærra kaup og ný atvinnutækifæri þá er það gott. En það er ekki það sem í raun og veru er verið að undirbyggja með þessum frumvörpum hér, því miður, vegna þess að það er verið að opna farveg fyrir hagnaðinn út úr fyrirtækjunum. Ef um væri að ræða bætt skattalegt umhverfi fyrirtækjanna í formi t.d. frádráttar vegna nýsköpunar væri öðru til að dreifa. En svo er ekki það hér. Það er verið að búa til farveg í gegnum aukna möguleika fyrirtækjanna til svo til skattfrjálsra arðgreiðslna út úr fyrirtækjunum, út úr atvinnulífinu. Það eru skammtímaáhrif af þessum frumvörpum að hlutafé streymi nú inn í íslensk fyrirtæki. Það er vegna þess að það er verið að undirbúa framtíðina. Það er verið að undirbúa arðgreiðslustofninn sem síðan verður viðmiðun fyrir hagnaðinn út úr atvinnulífinu. Þannig má, því miður, vel færa sannfærandi rök fyrir því að þessi breyting geti haft þegar til lengri tíma er litið, öfug áhrif, að hagnaðurinn muni síðan fara út úr fyrirtækjunum í formi þessara rúmu heimilda til að borga út arð o.s.frv.