Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 12:19:01 (6895)

1996-05-31 12:19:01# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[12:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mergurinn málsins er sá að við þurfum tekjur. Það þarf tekjur til að standa undir samneyslunni, sameiginlegum þörfum, og það verður að afla þeirra einhvers staðar. Einhver verður að borga þær. Auðvitað er það í eðli sínu þannig að mönnum þykir best að hafa sem minnsta skatta á allt. Það er þannig. En við erum með halla á ríkissjóði. Það er verið að skera niður bráðnauðsynlega þjónustu og þar af leiðandi erum við ekki í þeim færum að við getum sagt: ,,Við verðum bara góðir við þig og góðir við þig og léttum af þér sköttum.`` Það er ekki þannig. Við höfum ekki stöðu til þess. Þvert á móti blasir það verkefni við okkur að afla viðbótartekna og/eða ná betri árangri í ríkisrekstrinum þannig að þessum hallarekstri linni. Það er það sem ég er að benda á. Við getum ekki rætt um skattlagningu fyrirtækja, hagnað fyrirtækja eða arðstekjur manna o.s.frv. án samhengis við skattbyrðina á launamenn og skattkerfið í heild. Við verðum að skoða þetta þannig. Það er ekki hægt að koma bara með jákvæðu hlutina á annarri hlið málsins og segja: ,,Það er svo gott að gera þetta fyrir fyrirtækin, draga fé inn í þau o.s.frv. og menn þurfa að geta haft góðan hagnað af því``, án þess að horfa á hina hliðina.

Við verðum líka að muna eftir Dagsbrúnarmanninum eða Sóknarkonunni eða bóndanum sem er ekkert í uppfinningabransanum, sem á engin hlutabréf, sem er ekkert í öllu þessu dóti heldur biður bara um það eitt að lifa af laununum sínum. Hann vill fá að ná endum saman en gerir það ekki í dag. Við getum ekki gleymt þeim þætti málsins. Þess vegna tel ég að það vanti á samræmingu þessara hluta, þ.e. að farið sé yfir skattkerfið í heild, skattbyrðin eða dreifingin skoðuð í öllu íslenska skattkerfinu og vegið og metið saman hvað er að breyttu breytanda hagstæðasta og besta útkoman fyrir þjóðfélagið í heild, auðvitað líka fyrir atvinnulífið og fyrirtækin. Það neitar því enginn maður að ýmislegt í þeirri skattlagningu á undanförnum árum var vitlaust. Ég er sammála hv. þm. um það. En það eru ekki rök fyrir því í mínum huga t.d. að lækka skattlagningu af nettóhagnaði fyrirtækja, þeirra fyrirtækja sem ganga vel eða þeirra eignamanna sem voru heppnir og fjárfestu í fyrirtækjum og hafa ekki tapað neinu hlutafé. Þeir geta borgað skatt þó að einhverjir aðrir hafi tapað hlutafé og það eru ekki rök í málinu að segja að vegna þess að það tapaðist eitthvað í fiskeldi, að þá eigi að létta sköttum af manni sem fjárfesti í Eimskip. Það eru ekki rök. Þannig er þetta ekki. Þetta er ekki einn hópur. Þetta er ekki einn aðili. Það er ekki bara einn einstaklingur sem hefur gróða af fjármagnstekjum á Íslandi. Þeir eru margir og það á að meðhöndla skattlagninguna í samræmi við það. Það er því langt frá því, herra forseti, að allt samhengi þessara hluta sé undir eins og vera skyldi.

Að vísu segir hv. þm.: ,,Það er ekki efni þessa frv.`` Það er út af fyrir sig rétt. En menn mega aldrei afgreiða breytingar í skattkerfinu einangrað vegna þess að þarna eru innbyrðis tengsl og víxlverkun sem menn verða að skoða.