Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 12:22:12 (6896)

1996-05-31 12:22:12# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[12:22]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að tekjur ríkissjóðs standi undir gjöldum. Það er mjög nauðsynlegt. Það getum við gert annaðhvort með því að hækka tekjurnar en þá held ég að við séum komin yfir mörkin. Við náum ekki meiri skatttekjum út úr þessu þjóðfélagi. Eða með því að auka hagræðingu í velferðarkerfinu og líta á það hvort einhvers staðar sé um að ræða oftryggingu eða ofnotkun á kerfinu. Þar hef ég horft sérstaklega til Atvinnuleysistryggingasjóðs þar sem ég hygg að verið sé að bruðla með milljarð eða tvo sem eru greiddir að óþörfu. Þ.e. eitthvað sem við viljum ekkert endilega tryggja, ofnotkun og misnotkun. Það mætti gera.

Varðandi Dagsbrúnarmanninn og þá aðila, þá er ég stöðugt að hugsa um hann vegna þess að mín lífssýn segir mér að ef fyrirtækin hafa hagnað og fjárfesta --- þá þurfa þau meiri mannskap --- þá eykst eftirspurnin eftir launafólki og þá hækka launin. Það er svo einfalt. Burt séð frá öllum kjarasamningum og öðru slíku þá er það alltaf framboð og eftirspurn sem ákveður launin. Það sem hefur gerst núna með atvinnuleysið undanfarið er skelfilegt. Launin hafa lækkað þrátt fyrir alla kjarasamninga niður í strípaða taxta. Menn hafa misst vinnuna og menn hafa tekið hverju sem er og það er að mínu mati alls ekkert æskilegt. Ég sé því þetta frv. sem þátt í því að gera atvinnulífið sterkt og að það þurfi góða og hæfa starfsmenn, mikið af þeim þannig að fólk fái mikið betri laun, þar á meðal Dagsbrúnarverkamaðurinn.