Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 12:26:30 (6898)

1996-05-31 12:26:30# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[12:26]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég gat þess svona í framhjáhlaupi að skortur á kröfu um arðsemi væri ástæðan fyrir því að menn leyfðu hvor sér að ráða óhæfara fólk, segjum karlmenn, á hærri launum en hæfara fólk, segjum konur þannig að skortur á arðsemiskröfu þýddi ójafnrétti milli fólks og þar á meðal karla og kvenna og mér finnst það rökrétt. Ég hef staðið í að ráða fólk. Ef ég vil græða á fólkinu þá ræð ég að sjálfsögðu þann sem er hæfastur og kostar mig minnst, að sjálfsögðu. Þannig mundi ég alltaf ráða hæfasta manninn. Og ef að kona býðst á lægri launum þá mundi ég ráða hana að sjálfsögðu. Ef allir gerðu það þá mundu launin hækka hjá konum. Ég varpa því þeirri spurningu fram hvort það sé ekki krafan um arðsemi sem menn hafa gleymt í baráttunni um jafnrétti karla og kvenna fyrir utan það að ég held að jafnrétti karla og kvenna líði fyrir það að menn horfa bara á karla og konur en ekki á fólk. Ef menn horfðu á fólk almennt, á jafnrétti fólks, þá væru menn ekki að horfa á afleiðingar vandans heldur á orsökina. Þannig að það að einblína á karla og konur leiðir sjónir manna frá raunverulegum vanda sem er misrétti fólks.

Um fæðingarorlofið er ég alveg sammála. Ég hef sagt það í ræðustól að ég vil að fæðingarorlofinu sé skipt á milli karla og kvenna til þess að það sé ekki íþyngjandi fyrir konur. Ég væri alveg til í það með hv. þm. að vinna að frv. um breytingu á fæðingarorlofinu þannig að karlar og konur stæðu jafnfætis gagnvart því.