Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 13:13:06 (6900)

1996-05-31 13:13:06# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, Frsm. 1. minni hluta SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[13:13]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Mér finnst í rauninni ástæða til þess að velta vöngum yfir tveim atriðum sem hljóta að verða býsna áleitin þegar við fjöllum um það frv. sem hér er til umræðu, frv. um stjórn fiskveiða, sem byggir á því samkomulagi sem sjútvrh. gerði við forustu smábátaeigenda. Í fyrsta lagi finnst mér það blasa við og kannski enn skýrar nú en áður að við höfum í sjálfu sér afskaplega óljós markmið þegar um er að ræða nýtingu þessarar mikilvægustu auðlindar okkar. Ég hygg að öll umræðan hér og öll umfjöllun um sjávarútvegsmál yrði til muna skýrari og þá auðskiljanlegri fyrir þjóðina ef þau markmið væru skýr. Mér er ekki ljóst hvort sá meiri hluti sem hér hefur sett fram frv. og síðan breytingartillögur lítur þannig á að það sé rétt að nýta auðlindina þannig að af henni sé hámarksafrakstur, að við gerum þetta með eins hagkvæmum hætti og unnt er, eða hvort sá meiri hluti lítur þannig á að það sé rétt að nýta þessa auðlind með þeim hætti að hún geti virkað sem eins konar félagsmálastofnun, það skipti ekki svo miklu máli hvort þjóðin hagnist af eða ekki, aðalatriðið sé að sem flestir komist að.

[13:15]

Það er svo, herra forseti, að á meðan þessi mál eru svo þokukennd hjá meiri hlutanum hlýtur umfjöllun um hvert einasta mál að snúast meira og minna um aukaatriði. Sömuleiðis sýnist mér að enn á ný blasi við að sá meiri hluti sem nú er hér á Alþingi er ekki með samkomulag um það hvort hér eigi að vera aflamarkskerfi við stjórn fiskveiða eða ekki. Hér er reglulega í gangi eins konar samkomulag um status quo. Það er gefið eftir á einum stað gegn framsókn á öðrum. Þá á ég við framsókn þessara tilteknu hugmynda. En ef við lítum bara á þetta frv., ég tala nú ekki um þegar maður horfir svo á fráhvarfið frá því sem var verið að fjalla um sl. vor, þá blasir það við að annars vegar er verið að staðfesta hér sóknarmark fyrir tiltekinn hluta flotans en í leiðinni er verið að gera kerfið einfaldara, að einfaldara aflamarkskerfi með því að afnema línutvöföldunina. Þannig má segja að þessar tvær skoðanir leikist nokkuð á. En það væri fróðlegt, herra forseti, að hér yrði markvissari umræða um nákvæmlega stjórn fiskveiða. Þá þyrfti auðvitað að vera ljóst fyrst hvaða markmið menn vilja setja sér í sambandi við nýtingu auðlindarinnar.

Í þriðja lagi, herra forseti, vil ég láta þess getið af því að nú er liðið fyrsta ár þessarar ríkisstjórnar, að það hefur komið mér nokkuð á óvart hversu mörg af málum hennar sem varða sjávarútveg hafa snúist um smábáta. Mér er fyllilega ljóst að vandi smábáta hefur verið ærinn en það leitar samt sem áður óneitanlega á að eitthvert misvægi sé nú í umræðunni. Að það sé svona obbolítið eins og góður maður segir að menn vilji endalaust breiða sig yfir tiltekna hópa á meðan aðrir eru skildir eftir dálítið á eigin vegum af því að drottinn bjargar þeim sem bjarga sér sjálfir. Mér finnst sem sagt að það sé örlítið ójafnvægi hér hvað varðar áherslur. Kannski er það bara pólitík þessarar ríkisstjórnar að setja smábátana í forgrunn og þá liggur það bara þannig fyrir.

En í þessu frv. sem nú er komið til 2. umr. með ákveðnum breytingartillögum er verið að koma til móts við þá gagnrýni sem var höfð uppi síðasta vor þegar menn lögðu til atlögu við banndagakerfið og menn lögðu til atlögu við stækkun smábátaflotans. Ég held að við getum flest verið sammála um að það hefði þurft að gerast fyrr og að það hafi verið til mikillar óþurftar að þessu kerfi var haldið opnu svona lengi vegna þess að sú mikla aflaaukning sem orðið hefur hjá smábátum og reynt er að bregðast við, stafar fyrst og fremst af fjölgun nýrra báta inn í kerfið. Og af því að menn hafa áhyggjur af þeim stöðum sem eiga mikið undir smábátaútgerð þá er það svo að þessi mikla fjölgun smábáta og aukning á afla hefur ekki komið þeim stöðum neitt sérstaklega til góða. Það má hins vegar ætla að skerðing og aðhald bitni ekki síður á þeim stöðum en öðrum. Þannig er það niðurstaða mín, herra forseti, að þetta fjárfestingarævintýri síðustu ára hafi í sjálfu sér ekki haft með þá að gera sem hafa lifað og ætla sér að lifa af smábátaútgerð. Því fjárfestingarævintýri er það. Það væri fróðlegt að taka það saman hversu margar milljónirnar eða milljarðar hafa fossað í gegn við allar þær fjárfestingar sem átt hafa sér stað í smábátum á undanförnum árum. Ég er ekki að segja að það séu sambærilegar tölur og við höfum horft upp á í öðrum ævintýrum síðustu ára þar sem vinsælt er að nefna loðdýrarækt eða fiskeldi en einhvers staðar á þeim slóðum verður þetta fjárfestingarævintýri þegar það verður gert upp. Ég vil endurtaka að mér þykir miður að menn skyldu hleypa hlutunum í þessa stöðu og hvetja þannig til þeirrar þróunar sem hefur orðið, af því ég óttast að hún bitni á þeim sem síst skyldi.

Hvað varðar þetta frv. sérstaklega og það samkomulag sem það byggir á þá vænti ég að menn átti sig á því að breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem leiða til flutnings á veiðiheimldum geta bæði haft áhrif á búsetuþróunina í landinu og samsetningu fiskveiðiflotans. Sú þróun sem hefur orðið varðandi fjölgun og síaukna hlutdeild krókabáta í heildarþorskaflanum er einmitt lýsandi dæmi um þetta. Þegar litið er til þeirrar þróunar kemur í ljós að hlutdeild krókabáta í heildarþorskaflanum hefur aukist gífurlega. Hún hefur margfaldast á undanförnum árum. Það eru ýmsar tölur nefndar til sönnunar þessari fullyrðingu. Í mínu nál. er ég með tölur sem ég fékk frá Fiskifélaginu sem varða smábáta á tilteknu árabili. Ég hef síðan séð enn aðrar tölur frá ýmsum hagsmunaaðilum. Allar leiða þær til sömu niðurstöðu. Hér hafa átt sér stað umtalsverðar breytingar. Breytingar sem í rauninni er verið að staðfesta og blessa með því frv. sem hér er flutt.

Hv. þm. eru sér væntanlega fullmeðvitaðir um þá hagsmunaárekstra sem eru í sjávarútvegi og sem hafa komið mjög greinilega upp á yfirborðið eftir framlagningu þessa frv. Ef menn lesa gögn sem nefndinni bárust þá sjá menn að það eru gífurlega mikil átök um þessa ákvörðun. Sjómannasamböndin eru á móti því sem hér er verið að gera, hvort sem það eru vélstjórar eða aðrir sjómenn. Útvegsmannafélögin allt í kringum landið eru á móti því sem hér er verið að gera. Vinnumálasamband samvinnufélaganna er á móti því sem hér er verið að gera og svo má áfram telja. Það eru gríðarleg átök. En eins og ég sagði, herra forseti, hv. þm. hljóta að átta sig á því að þau átök eru auðvitað vegna þess að tekist er á um mikil verðmæti. Ef við skoðum verðmæti þeirrar aflahlutdeildar í þorski sem smábátar hafa verð að fá vegna laga og reglugerða á undanförnum árum auk þess sem þeir hafa mátt veiða aðrar tegundir frjálst þá sést mjög vel hvaða hagsmunir eru á ferðinni. Ef við miðum við þá tölu sem ég fékk hjá Fiskifélaginu þar sem þeir segja mér að aflahlutdeild krókabáta hafi verið 5,6% 1991 mundi sú hlutdeild gefa 8.600 tonn í dag ef hlutdeildin hefði verið föst eins og aðrir hafa búið við en ekki 21.500 tonn eins og miðað er við sem gólf í þeirri hlutdeild sem menn eru hér að leggja til að lögfest verði eða 13,9%. Ef við skoðum mismuninn á þessum 8.600 tonnum sem hlutdeildin 1991 hefði gefið í ár ef kerfið hefði ekki verið opið, og þessum 21.500 tonnum sem nú er miðað við sem gólf, þá eru það tæplega 13.000 tonn. Ef við reiknum það á gangverði á varanlegum aflaheimildum í þorski, því hér er verið að úthluta varanlegum aflaheimildum að stórum hluta til, þá er hér um 6,5 milljarða að ræða.

Nefndarmenn í sjútvn. og aðrir hv. alþm. hljóta að spyrja sjálfa sig um réttmæti þess að afhenda með hverri ákvörðun sem tekin er um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða einstaklingum eða fyrirtækjum mikil verðmæti í formi veiðiheimilda sem þeir síðan geta komið í peninga strax daginn eftir ef þeim býður svo við að horfa. Þannig hefur þetta verið um langt árabil. Menn hafa misverðugir verið að fá úthlutað aflaheimildum si svona rétt sem þeir hafa síðan getað selt samdægurs, daginn eftir eða einhvern tímann seinna eftir atvikum og tekið þannig mikla peninga. Þetta, herra forseti, er eitt af því sem hefur farið óstjórnlega í taugarnar á þjóðinni og lái henni hver sem vill. Við erum að tala um það sem í lögunum um stjórn fiskveiða heitir sameiginleg auðlind og menn geta einfaldlega ekki séð réttlæti í því að þeim verðmætum sem felast í veiðiheimildum í þessari auðlind skuli úthlutað ókeypis á þennan hátt til aðila sem síðan geta selt þessar sömu veiðiheimildir strax daginn eftir og gert úr þeim mikla peninga, oft svo skiptir tugum milljóna. Þetta er eitt af því sem grefur smám saman undan því kerfi sem menn búa við að stærstum hluta, þ.e. aflamarkskerfinu, og þetta er áreiðanlega það sem verður þess banabiti ef menn bregðast ekki einhvern veginn við.

Ef litið er til einstakra ákvæða frv. þá er í 1. gr. þess, sem verður 2. gr. ef svo fer fram sem meiri hlutinn leggur til, gert ráð fyrir að mönnum verði gert kleift að endurnýja báta sína án skerðingar ef þeir verða fyrir sjótjóni þrátt fyrir þessar hertu endurnýjunarreglur sem settar voru síðasta vor.

1. gr., miðað við breytingartillögurnar hins vegar, miðar að því að þau tímamörk sem voru varðandi endurákvörðun leyfilegs heildarafla þorsks hverfi. Það held ég, herra forseti, að sé afar skynsamleg tillaga og byggi þar ekki hvað síst á þeirri reynslu sem ég fékk af ákvörðun og því írafári sem varð í kringum hana núna 15. apríl þegar menn pressuðu mjög á ráðherra að breyta þeim ákvörðunum sem áður höfðu verið teknar varðandi leyfilegan heildarafla.

Ég held að það sé mjög gott að þetta ákvæði fari út og þessi pressa er tekin af. Ég hef skilið það svo að einmitt þorskur sem er langlíf skepna sé tegund sem menn þurfa ekki að vera að skipta um skoðun hvað varðar leyfilegan heildarafla ótt og títt heldur geti menn sett sér langtímamarkmið a.m.k. til árs í senn hvað varðar einmitt þessa fisktegund.

Eins og ég gat um áðan, herra forseti, þá er ákveðið að hafa áfram sóknarkerfi fyrir hluta flotans. Þar sem sú ákvörðun liggur fyrir þá verð ég að segja að mér finnst það til bóta að róðrardagakerfi skuli þá komið á. Það kerfi sem menn bjuggu við áður, banndagakerfið, var í rauninni ónýtt. Síðasta vor var mjög hvatt til þess að stjórnin kæmi hiklaust á róðrardagakerfi. Af meintum tæknilegum ástæðum var það ekki hægt fyrir ári síðan. Nú er það hægt og það er vel. Það er vel að menn geti þá ráðið því sjálfir hvenær þeir nýta sína róðrardaga. Mér finnst líka jákvætt, herra forseti, að menn skuli geta valið aftur um kerfi, þ.e. hvort þeir vilja vera á þorskaflahámarki eða kjósa róðrardaga. Og mér finnst líka jákvætt að það skuli greint á milli þess hvort menn ætla að róa bæði með línu og handfærum eða einungis með handfærum vegna þess að mér finnst mikilvægt að menn geri greinarmun á veiðigetu þessara veiðarfæra. Þannig að fyrst menn kjósa að vera með sóknarmark á hluta flotans eru þessi ákvæði þó til bóta innan þess ramma.

[13:30]

Það kom í ljós sl. vor þegar menn gátu valið á milli þorskaflahámarks og viðbótarbanndaga að mun fleiri völdu þorskaflahámarkið en búist var við. Mér finnst mjög líklegt að enn fleiri muni nú þegar kostur gefst á endurvali velja þorskaflahámarkið og það marka ég af því að mér sýnist frv. og aðrar þær ráðstafanir sem menn eru hér að tala um hníga allt í þá átt að þorskaflahámarkshópurinn muni áfram koma vel út úr þeim ráðstöfunum sem verið er að gera. Eins og áður hefur komið fram er þetta eini hópurinn sem fær úr Seljavallasjóðnum svokallaða. Hann situr einn að 500 lestunum sem eru til ráðstöfunar hjá Byggðastofnun. Það var ákveðinn áhugi fyrir því að það yrði skoðað að aðrir sem hafa farið illa út úr stjórnkerfi fiskveiða án þess að eiga sér mikla björg, þ.e. smábátar á aflamarkskerfi, fengju e.t.v. að njóta þessara 500 lesta sem þarna á að ráðstafa með tilteknum hætti. Það varð þó ekki niðurstaðan, þorskaflahámarksbátarnir sitja áfram að þessum 500 lestum einir. Ef þetta frv. verður að lögum mun það líka verða svo með þennan hóp báta að þessir aðilar geta framselt sitt þorskaflahámark um leið og þeir skila inn sínu veiðileyfi og þeir geta einnig fengið flutt til sín aflahámark úr hinu kerfinu, þ.e. það er búið að opna dyr á milli kerfanna með þeim hætti að það má flytja úr aflamarkskerfinu yfir til þorskaflahámarksbátanna. Reyndar er það bara innan ársins en þarna er vissulega verið að opna dyrnar, ég segi ekki upp á gátt en menn koma löppinni á milli. Það verður fróðlegt að sjá og fylgjast með hvaða breytingum lögin um stjórn fiskveiða eiga eftir að taka á næstu árum ef þetta ákvæði verður gert að lögum. Vegna þess að ég er nokkuð viss um það, herra forseti, að menn munu ekki láta við það sitja að einungis verði hægt að flytja í aðra áttina og það með þessum takmörkunum. Mér sýnist að sú hreyfing sem hefur verið á lögunum um stjórn fikveiða og snýr að smábátunum hafi verið það mikil að ég á erfitt með að sjá að hér verði látið staðar numið. Auðvitað mun myndast ákveðinn þrýstingur á frekari opnun á milli kerfanna og að veiðiheimildir sem flytjist á milli geti verið varanlegar. Ég hygg að það gæti t.d. orðið svo að það yrði verðmunur á aflaheimildum eftir því í hvoru kerfinu er verið að versla með þær eða milli kerfa og sá verðmunur, þeir hagsmunir sem lægju í því, yrði ugglaust helsti drifkrafturinn í því að menn færu í það að beita þeim fæti sem þeir eru búnir að koma á milli stafs og hurðar í það að galopna dyrnar. Það væri raunar fróðlegt að heyra frá meiri hlutanum hvernig hann sér þessa þróun fyrir sér. Láta menn sig virkilega dreyma um að það sé hægt að láta staðar numið hér?

Ég talaði áðan, herra forseti, um að við þyrftum að vera nokkuð klár á því hvaða markmið við vildum hafa með nýtingu auðlindarinnar. Og ekki þá síður hinu að við skoðuðum mjög gaumgæfilega hvaða stjórnkerfi veiðanna við vildum hafa með tilliti til þess markmiðs. Okkur er auðvitað ljóst að stjórnkerfið ræður fiskveiðiarðinum að miklu leyti og það er mikilvægt fyrir okkur sem nýtum auðlindina sem undirstöðu velferðar og búsetu að það sé vandað vel til verka þegar ákvarðað er hvaða stjórnkerfi er notað. Þær breytingar sem ráðist er í mega ekki verða til að rýra lífskjör þjóðarinnar. Við yfirferð nefndarinnar á frv. og því sem fram kom hjá þeim sem voru með umsögn um frv. eða komu á fund nefndarinnar kom ekkert fram sem styður þá stefnu sem fylgt er í frv. Þvert á móti sýnir reynslan að bátar á aflahámarki eða bátar á aflamarki gera mun meira úr hverju þorsktonni sem þeim er úthlutað heldur en þeir bátar sem eru á sóknarmarki.

Herra forseti. Með nál. mínu eru tvö súlurit til að undirstrika þetta. Annars vegar er á bls. 4 súlurit þar sem gerður er samanburður eftir útgerðarformi á því hversu duglegir aðilar eru að ná sér í aukaafla og þá sjá menn að það er geysilega mikill munur á bátum eftir því hvort það eru krókabátar eða aflahámarksbátar eða aflamarksbátar. Sömuleiðis kemur í ljós ef menn líta á súlurit á bls. 5 þar sem heildarverðmæti eru skoðuð að öllum öðrum tekst mun betur að auka verðmæti út úr hverju þorsktonni en krókabátum. Með þessar upplýsingar ásamt og með því að menn eru almennt sammála um að það sé ákveðin óhagkvæmni í því að vera með fleiri en eitt stjórnkerfi fyrir fiskveiðarnar hljóta menn að þurfa að rökstyðja enn betur en gert hefur verið þær ákvarðanir sem hér á að taka varðandi staðfestingu þess að svo stór hluti smábátaflotans sé á sóknarmarki. Það eru alla vega engin hagkvæmnirök sem liggja þar að baki. Menn óttast jafnframt, eins og margoft kom fram og margoft hefur komið fram, að nákvæmlega það hvernig þessir hlutir eru skildir eftir nú skilji enn einu sinni eftir gat í þessu kerfi.

Það hlýtur að vera áleitin spurning af hverju ekki er brugðist við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á sókn krókabátanna með því að setja alla báta á aflahámark. Mér finnst að menn ættu að skoða slíka hugmynd og jafnvel þá að setja bann við framsali á milli flokka ef menn vilja viðhalda því útgerðarmunstri sem nú er. Ef útgerðarmunstrið, þ.e. að svo stór hluti aflans er tekinn með smábátum, er mönnum sérstakt kappsmál ætti að skoða hvort ekki er hægt að gera það með hagkvæmari hætti. Eins og ég sagði áðan, herra forseti, eru öll rök sem benda til þess að ef allir bátar væru á aflahámarki væri um mun hagkvæmari veiðar að ræða en nú er. Og ég endurtek að mér finnst að ef menn vilja viðhalda því útgerðarmunstri að vera með svo stóran flota smábáta til að taka þetta stóran hluta af þorskaflanum gætu menn lokað á milli flokkanna og þannig viðhaldið útgerðarmunstrinu, ef það er meiri hlutanum ákveðið kappsmál.

Hér kemur nú inn frá meiri hluta sjútvn. breytingartillaga um afnám línutvöföldunar. Mér finnst í sjálfu sér jákvætt að afnema línutvöföldunina til að einfalda það stjórnkerfi veiðanna sem við búum við. Mér finnst hins vegar gagnrýnivert hvernig staðið er að því. Það er miðað við tvö bestu af þremur síðustu fiskveiðiárum og þetta leiðir til þess, herra forseti, að úthlutun viðbótaraflahlutdeildar á grundvelli þessarar reynslu þýðir að þau skip sem hafa verið hörðust í línuveiðunum á undanförnum þrem árum, eða jafnvel tveimur af þessum þremur, fá nú til viðbótar því aflamarki sem þau höfðu 60% viðbótaraflahlutdeild af því sem þau veiddu aukalega á þessum viðmiðunarárum. Mér finnst í sjálfu sér alveg til umhugsunar þegar verið er að úthluta aflahlutdeild að menn skoði eða líti til reynslu og hafi það alla vega að hluta til sem leiðarljós. En auðvitað vildi ég helst, eins og margoft hefur komið fram, að ekki væri verið að úthluta þessum veiðiheimildum ókeypis. Mér finnst menn satt að segja fara með býsna mikilli ofrausn af stað hér. Það er verið að auka hlutdeild viðkomandi skipa umtalsvert. Þannig má ætla, herra forseti, að stór hópur skipa eða útgerða fái veiðiheimildir upp á tugi milljóna króna. Og að þessu sinni án nokkurra kvaða. Þetta var þó þannig að menn urðu að taka þennan afla á línu yfir tiltekna mánuði. Nú eru engar kvaðir, hvorki um veiðarfæri né tímabil. Menn fá bara aukna hlutdeild upp á 60% af þeim viðbótarafla sem þeir tóku út á þetta ákvæði á tveimur bestu af þremur síðustu fiskveiðiárum. Ég get alveg séð það fyrir mér, herra forseti, ég vildi reyndar sjá slíka aukningu þorskafla fyrir mér, en ég get alveg séð það fyrir mér hvað þessa báta varðar sérstaklega að innan ekki langs tíma verði þessi aflahlutdeild orðin að þorsktonnum sem telja mun fleiri tonn en þau sem upphaflega lögðu grundvöllinn að þessari auknu aflahlutdeild. Ég hlýt að setja spurningarmerki við þetta og ég átta mig ekki alveg á því af hverju þetta þarf að vera svona rausnarlegt. Við erum ekki að tala um skip endilega sem hafa verið á línuveiðum alla tíð eða eru hefðbundnir línuveiðarar. Við erum ekkert síður að tala um skip sem skelltu sér í þessar veiðar bara á undanförnum árum. Þau voru stórtæk á þessu á þeim tíma og fá nú rausnarlegar veiðiheimildir að launum án þess að þeim fylgi nokkrar kvaðir.

Ég vil aðeins geta þess til að menn geti áttað sig á því hvaða fjárhagslegir hagsmunir hér geta verið á ferðinni að kg af varanlegum þorskkvóta hefur verið þetta í kringum 500 kr. á kvótamarkaði. Svo getur hver reiknað sem vill vegna þess að auðvitað strax daginn eftir að þessi lög hafa verið samþykkt, eða daginn eftir að þau taka gildi réttara sagt hvað varðar þetta ákvæði, geta menn farið og selt þessa aflahlutdeild.

Ég vil þess vegna, herra forseti, enn á ný fara yfir það að bæði þeim sem sitja í hv. sjútvn. og sömuleiðis hv. alþm. hlýtur að vera það ljóst þegar þeir eru að taka ákvarðanir sem þessar að það er verið að færa til gífurlega fjármuni, tugi milljóna jafnvel, og bæði ég og ýmsir fleiri hljóta að setja stórt spurningarmerki við það réttlæti sem í því getur falist. Það hefur a.m.k. ekki enn verið skýrt þannig fyrir mér að ég fái skilið hvernig menn geta náð sáttum við samvisku sína við ráðslag af þessu tagi.

Það kemur fram í lok míns nál., herra forseti, að ég styð þetta frv. ekki í heild. En þar eru stöku atriði, einstakar tillögur sem eru til bóta sem eru tæknilegar og ég þær mun ég styðja.

Frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins er auðvitað fylgifiskur hins fyrra. Í þeim umræðum sem áttu sér stað þegar þessi frv. voru lögð fram gagnrýndi ég þann flýti sem mér finnst vera hvað það varðar að breyta lögunum um stjórn fiskveiða án þess í rauninni að þau ákvæði til breytinga á lögunum um Þróunarsjóð sem síðast voru sett á þingi fengju að hafa nokkur áhrif. Mér finnst sem sagt að menn hafi farið hér fram með breytingar á lögunum um Þróunarsjóð síðast þegar það var gert og síðan aldrei gefið þeim í rauninni séns á að vinna og eru nú komnir enn af stað með breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða sem taka að mínu mati út að verulegu leyti þá beitu sem gat verið í lögunum um Þróunarsjóðinn og átti að laða menn til þess að úrelda sína báta og þar með að fækka þeim. Mér er ljóst að bátum hefur ekki fjölgað en ég held að það frv. sem hér liggur fyrir geri það að verkum að menn muni sannarlega hugsa sig um áður en þeir skoða það að nýta sér þau ákvæði sem Þróunarsjóðurinn kemur til með að bjóða upp á, ef þetta frv. verður að lögum.