Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 13:49:27 (6902)

1996-05-31 13:49:27# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, Frsm. 2. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[13:49]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Frv. þetta til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða er að stofni til eins og kunnugt er samkomulag það sem hæstv. sjútvrh. gerði við Landssamband smábátaeigenda nú á útmánuðum. Það er óhjákvæmilegt að fara örfáum orðum um þetta samkomulag og aðdraganda þess vegna þess að það markar í raun og veru mjög hina pólitísku stöðu málsins eins og það hefur verið til meðferðar hér á þingi.

Þetta samkomulag á sér aðdraganda í landsfundi Landssambands smábátaeigenda á sl. hausti þar sem hæstv. sjútvrh. mætti og bauð upp á viðræður um tiltekin atriði í sambandi við stjórnkerfi fiskveiða sem að smábátunum snýr. Í kjölfarið komust á viðræður sem leiddu síðan að lokum til þessa samkomulags.

Nú er það svo að fá mál varðandi stjórnkerfi fiskveiða hafa verið meira til umræðu á undanförnum árum, eða síðasta einn og hálfan áratug má segja, en einmitt staða minnstu skipanna í flotanum. Mætti auðvitað ætla út frá því að þetta væri sá hluti útgerðarinnar sem menn væru sammála um að skipti langmestu máli í landinu miðað við þá athygli og orku sem í þennan þátt málsins hefur farið.

Hér var síðast á vorþinginu fyrir liðlega ári til umfjöllunar og allnokkurra átaka einmitt frv. til laga um breytingu á sömu lögum og varðaði sérstaklega málefni smábátanna. Þá sögðum við stjórnarandstæðingar að sú lögfesting sem þar var gerð mundi engan veginn ganga upp og það væri augljóst mál að menn fengju þetta í andlitið aftur og það yrði væntanlega til umfjöllunar hér strax á næsta þingi sem raun er orðin á. Auðvitað er þetta frv. og niðurstaða sjútvrh. fyrst og fremst staðfesting á því að frágangur málsins hér á sl. vori gekk ekki upp, hvorki pólitískt eða efnislega. Enda treystu menn sér ekki til að framkvæma málið á þeim grundvelli sem þó var hér lögfestur. Við stjórnarandstæðingar lögðum þá að okkar mati til miklu heilsteyptari breytingar á þessu fyrirkomulagi. Ég er sannfærður um að hefði verið farið að okkar tillögum þá, hefðu menn ekki þurft að vera með málið í þeim farvegi sem það er núna. Á lokastigi þessara viðræðna við Landssamband smábátaeigenda og reyndar mestan part þeirra var það svo að hæstv. sjútvrh. gekk í raun og veru án samráðs við aðra aðila, hvort heldur eru önnur hagsmunasamtök í sjávarútvegi svo ekki sé nú talað um Alþingi eða sjútvn. Alþingis, frá þessu samkomulagi. Það er þess vegna augljóst og einfalt mál að hin pólitíska ábyrgð þessarar niðurstöðu er hæstv. sjútvrh. og meiri hlutans sem með honum stendur í því að koma því hér til framkvæmda á Alþingi. Málið varð fljótlega ákaflega umdeilt, svo ekki sé meira sagt, þegar efnisatriði þessa samkomulags urðu ljós og harkalegar ályktanir hafa verið samþykktar vítt um land af hálfu útvegsmanna, sjómannasamtakanna og fleiri aðila þar sem þessari niðurstöðu er mjög mótmælt.

Nú er það svo, herra forseti, að um það hefur ekki verið deilt að nauðsynlegt væri að ganga með einhverjum hætti frá stjórnkerfi fiskveiða hvað varðar þessi minnstu skip í flotanum þannig að um það gæti orðið einhver friður og einhver framtíðarlausn sem þar væri verið að lögfesta. En það hefur vafist ákaflega fyrir mönnum, svo ekki sé meira sagt. Er af því löng saga sem ekki verður öll rakin hér. Það er að mínu mati aðalágalli þessarar niðurstöðu að þótt í henni felist ótvírætt veruleg úrbót fyrir hluta smábátaflotans, þ.e. þann hluta sem stundar krókaveiðar, þó ekki nema hluta hans, eru aðrir skildir eftir óbættir hjá garði. Þar á ég auðvitað við að þótt hér sé gengið þannig frá málum að sá pottur sem búinn var til upp á 21.500 tonn til handa krókaveiðiflotanum sé nú settur inn í hlutdeildarkerfið er á engan hátt tekið á vanda aflamarksbáta, hvorki af þessari stærð né annarri. Það er ljóst að á grundvelli þess vals sem fram fer í sumar, og mun auðvitað fyrst og fremst ráðast á grundvelli aflareynslu bátanna hvort þeir velja aflahámarksleiðina eða halda áfram í krókaveiðum án aflahámarks, mun verða til lítill floti sem enn verður í þeirri stöðu að yfir honum vofir stórfelldur niðurskurður veiðimöguleika að afliðnu komandi fiskveiðiári. Það er ljóst. Nú veit maður ekki í dag hvort þeir bátar verða 150 eða 300 eða eitthvað af þeirri stærðargráðu en þarna verður samt til floti sem hefur að vísu fastan róðrardagafjölda á næsta fiskveiðiári, 1996--1997, en að því afloknu er ljóst að hann á í vændum stórfellda fækkun róðrardaga. Þannig að enn skilja menn eftir ófrágenginn enda þessa máls sem er alveg borðleggjandi að strax þegar líður á næsta fiskveiðiár mun skapa mikinn þrýsting á að sá hluti fái einhverja úrlausn. Málið er enn einu sinni að fara í hring. Það væri mikið pólitískt óraunsæi og mikill barnaskapur að ætla að meðferð þess verði eitthvað ólík því sem verið hefur á undanförnum árum. Eða hvers vegna skyldu pólitískar aðstæður verða þannig þegar langt verður liðið á næsta fiskveiðiár að á sama tíma og veiðiheimildir eru þá að aukast hjá öðrum hlutum flotans snúi menn við blaðinu og láti þennan afmarkaða hóp sæta stórfelldum takmörkunum milli fiskveiðiára? Reynslan hefur ekki sýnt að pólitískar forsendur teiknuðu til slíks. Þannig að þarna er því miður, herra forseti, ekki verið að ganga frá málinu með þeim varanlega hætti sem æskilegast hefði verið. En sérstaklega held ég að það hrópi í himininn við þessar aðstæður nú sú útkoma sem aflamarkssmábátarnir hafa fengið út úr þessu kerfi. Það er fjöldinn af dæmum, það þekkja þeir sem þekkja til í einhverjum verstöðvum við landið þar sem gerðir eru út smábátar, um tiltölulega jafnsetta menn sem höfðu kannski verið að færa að landi svipaðan afla af þorski á sínum smábátum árin fyrir 1990, en voru svo settir í þá aðstöðu að þeir urðu að velja aflamark eða krókaleyfi. Menn höfðu satt best að segja afar óljósar forsendur fyrir því vali. Menn áttu engan annan kost. Þeim var stillt upp við vegg og á tiltekinni dagsetningu skyldi þeir velja. Hvað hefur síðan gerst? Þeir sem völdu aflamarkið og töldu sig kannski þokkalega setta með þær veiðiheimildir sem þeir höfðu þá hafa sætt niðurskurði að fullu eða svo til að frádregnum jöfnunaraðgerðum. Hinir hafa allan tímann haft möguleika á að stórbæta stöðu sína og hafa núna náð að mynda aflareynslu sem í mörgum tilvikum er tvöföld, þreföld eða fjórföld sú sem aflamarksbátarnir búa við. Þetta leiðir til þess að t.d. í verstöð, við getum sagt að hún heiti Ólafsfjörður og þar hafi verið tveir karlar, Jón og Gunnar, sem báðir höfðu veitt svona 20--30 tonn á sínar trillur árin fyrir 1990. Annar valdi aflamark en hinn hélt áfram á sóknardögum. Hann gat jafnvel endurnýjað sinn bát eða fengið sér annan afkastameiri, veitt tugi tonna umfram hinn á árunum eftir 1990. Á sama tíma og Jón sem aflamarkið valdi er kannski kominn niður í 9 tonn þá er hinn kominn með aflahámarksreynslu núna upp á 70--100 tonn. Þessi dæmi eru mýmörg. Þau blasa við í verstöðvunum hringinn í kringum landið. Mér er til efs, herra forseti, að það hafi í annan tíma vegna stjórnvaldsaðgerða myndast hrikalegri mismunun milli áður jafnsettra aðila, hvort sem er í tilliti atvinnurekstrar eða hvað laun og afkomu snertir. Þetta misrétti er enn fest í sessi án þess að reynt sé að taka á því með þessu frv. hér. Ég spái því að ef þessi saga verður einhvern tímann skrifuð og yfir hana farið muni þetta þykja einhver ljótasti bletturinn á stjórnvaldsframkvæmdum í mér liggur við að segja samanlagðri atvinnusögu. Þó veit ég það nú ekki. Ef við færum aftur á öldina þar á undan teldu menn sig kannski finna ýmislegt sem væri býsna bágborið og stæðist illa jafnræðisreglur og mannréttindaákvæði eins og þau eru túlkuð í dag. En að þessi ósköp skuli hafa gerst hér í stjórnkerfinu hjá okkur Íslendingum á ofanverðri 20. öldinni er auðvitað alveg með ólíkindum. Því miður, herra forseti, er þessi saga ærið vörðuð mismunun af þessu tagi. Ekki vegna þess að stjórnvöld ætli sér það í upphafi heldur vegna þess að afleiðingar af því kerfi sem menn setja á hafa orðið slíkar.

[14:00]

Svo er enn eitt í þessu, herra forseti. Það er ósköp einfaldlega sú niðurstaða sem hér er orðin gagnvart krókaveiðihópnum sem slíkum að það samkomulag sem gert var í fyrra eða sú niðurstaða sem þá varð að taka tiltekið magn veiðiheimilda og segja: Við búum til pott fyrir þennan hóp og hann skiptir honum svo einhvern veginn á milli sín eða slæst um hann. Hann er upp á 21.000--21.500 tonn. Þetta var af mönnum þá túlkað sem endanleg niðurstaða gagnvart þessum hópi þótt að vísu kæmu strax upp deilur um það hvort þessi pottur skyldi síðan aukinn í hlutfalli við aukningu veiðiheimilda eða ekki. Það virtust vera nokkuð misvísandi sjónarmið uppi í því efni. En sú leið sem hér er valin er ekki aðeins sú að segja að þessi pottur skuli koma inn í aflahlutdeildarkerfið, heldur skal hann gera það að fullu. Og hlutdeild krókahópsins í vaxandi veiðiheimildum á næstu árum skal vera 100%. Það er ekki bara það sem er gert heldur er líka sagt: Við setjum hann inn núna. Við tökum 21.500 tonn og breytum því yfir í aflahlutdeild, miðað við hvað? Miðað við lægsta úthlutað aflamark í þorski í sögunni, 155.000 tonn. Það þýðir að þetta magn verður að heilum 13,9%. Herra forseti, þótt ég hafi gjarnan á undanförnum árum verið í þeim hópi hér á þingi og í umræðum um þessi mál sem hefur viljað úrlausn fyrir hönd smábótahópsins segi ég nú: Fyrr má nú aldeilis gagn gera en að fara svona vasklega í þetta.

Ég veit ekki hversu vel menn hafa áttað sig á því hversu gífurlega mikilvægir og stórir hagsmunir ráðast af upphafspunktinum í þessu máli, þ.e. viðmiðuninni sem er tekin. Ég ætla aðeins að fara yfir tölur í því sambandi máli mínu til skýringar. Sú staðreynd að þetta er gert núna þýðir eins og áður sagði að 21.500 tonnin deilt með 155.000 tonna úthlutun í þorski gefa 13,9%. En ef við tækjum nú þó ekki væru nema þorskveiðiheimildirnar eins og þær verða á næsta fiskveiðiári samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, 186.000 tonn. Hvað gerist þá? Þá lækkar þessi hlutdeild, 21.500 tonn, niður í 11,6%. Þá sjá menn strax hvað er að gerast. Upphafspunkturinn ræður alveg úrslitum um það. Hann færir til þúsundir tonna í gegnum aflahlutdeildarkerfið vegna þess að það er verið að færa þessa viðmiðun inn í sjálft aflahlutdeildarkerfið sem er hlutfallskerfi. Segjum að við færum í þetta þannig að við segðum: Við skulum taka einhvern meðaltalsjafnstöðuafla í þorski yfir þriggja ára tímabil. Og fyrir tilviljun væru það 200.000 tonn. Þá eru 21.500 tonnin komin niður í 10,8%. Ef það væri þannig sett inn og látið telja einn á móti einum er það talsvert önnur nálgun í málinu og annar frágangur en hér er. Og ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast nokkuð þá aðferð sem hér er valin. Ég hefði sjálfur aldrei getað axlað pólitíska ábyrgð af því að standa svona að þessu. Það verð ég að segja alveg eins og er. Hér er um svo mikla og viðkvæma og vandasama hagsmuni að ræða af því að hér er við tilfærslu á milli aðila að eiga að menn þurfa að vanda sig alveg sérstaklega gagnvart öllum viðmiðunum og því að velja sér upphafspunkt o.s.frv.

Nákvæmlega sama á við um annað mál sem ég kem hér betur að síðar og er það með hvaða hætti línutvöföldunarreynslan er sett inn í hlutdeildarkerfi veiðiheimildanna. Þar skiptir einnig upphafspunkturinn og hlutföllin, skiptaprósentan eða hlutföllin, afar miklu máli. Þar hafa menn rambað á þá niðurstöðu að skipin skuli fá 60% af línutvöföldunarreynslu sinni miðað við tvö bestu ár af þremur síðustu. Hvað ætla menn að gera við þetta? Menn ætla að setja það inn í aflahlutdeildarkerfið miðað við 155.000 tonna afla, miðað við kvótann á yfirstandandi fiskveiðiári sem er að verða búið, hvorki miðað við næsta ár né einhvern meðaltalsjafnstöðuafla eða annað því um líkt. Hvaða nákvæmnisvísindi liggja hér að baki, herra forseti, hvort heldur er viðmiðunin, árafjöldinn, prósentan eða hlutfallið? Hvaða nákvæmnisvísindi eru það? Engin. Það er sagt við okkur: Ja, við veljum 60% af því að í gamla daga fengu menn að taka 60% úr sóknarmarkinu yfir í aflamarkið. Það eru algjörlega ósambærilegir hlutir á tímum þar sem veiðiheimildirnar voru með allt öðrum hætti, mun meiri í þorski og reyndar á niðurleið. Þannig nýttist fortíðarreynslan mönnum mjög vel og færði þeim í raun og veru stærri hlut inn í minnkandi veiðiheimildir, öfugt við það sem nú er að gerast.

Herra forseti. Þetta eru hlutir sem ég verð að segja að ég er ærið hugsi yfir. Í sjútvn. báðum við um ýmsa útreikninga til að menn hefðu einhvern tölulegan grunn til að standa á gagnvart þessari ákvarðanatöku. Ég get því miður ekki sagt og mér þykir það nokkuð sárt fyrir hönd þeirrar ágætu nefndar að það hafi verið mikið með þær upplýsingar gert eða að ég hafi tilfinningu fyrir því að lendingin nú byggi á efnislegum rökstuddum grunni af því tagi. Ég get því miður ekki sagt það.

Þetta, herra forseti, eru hlutir sem ég veit ekki hversu margir hafa áhuga á nema þá þeir fáu sem eiga beinna hagsmuna að gæta. Gott og vel. En það verður að segjast eins og er að út frá stjórnsýsluþáttum þessa máls og spurningunni um vinnubrögð og annað því um líkt þegar kemur að jafngríðarlegum hagsmunamálum og hér eiga í hlut og verðmætaúthlutun er maður ærið hugsi varðandi þau vinnubrögð sem stjórnvöld ástunda í þessum efnum, hvernig þau vanda verk sín o.s.frv. Það er ekki eins og hér sé um einhver minni háttar dægurmál að ræða og litlu máli skipti hvernig þau séu til lykta leidd.

Herra forseti. Varðandi þann þátt málsins sem snýr að lagfæringunni til krókabátanna og stöðu þess í samhengi við útkomu annarra í þessu kerfi er mín meginniðurstaða þessi: Þarna er á ferðinni mjög mikilvæg úrbót fyrir hluta krókaveiðiflotans, fyrst og fremst þann hluta sem hefur allgóða aflareynslu frá undanförnum árum og mun velja aflahámarksleiðina. Það liggur við að segja megi að sá hluti hópsins sé hér að fá farmiða á fyrsta farrými. Ég held að það sé ekki of djúpt í árinni tekið. Út á það að þeirra háa aflareynsla sem hið opna kerfi á undanförnum árum gaf þeim færi á að mynda er nú sett inn í aflahlutdeildarkerfið, miðað við auðvitað hagstæðasta upphafspunkt sem hægt er að velja, sögulegt lágmark í þorskveiðiheimildum og þessi hluti er þar með kominn með sína stöðu vel trygga. Aflahámarkið er millifæranlegt innan hópsins, menn geta jafnvel bætt stöðu sína með því að leigja til sín aflamark frá aflamarksskipunum en ekki öfugt. Það stæði síst á mér að neita því að það er rúmlega prýðilega gert við þennan hluta hópsins. Er ég þó þeirrar skoðunar, eins og áður hefur fram komið, að það hafi þurft að koma málum á hreint. Ég sé ekki eftir því þó staða þessa hluta útgerðarinnar sé sæmilega lífvænleg og bjargleg á næstu árum. Það var að sjálfsögðu þarft og nauðsynlegt. En spurningin hlýtur að vera: Frá hverjum er þetta þá tekið og hvernig og hvað um aðra? Ég held að eftir liggi sú óvissa sem sá hluti krókaveiðiflotans sem mun velja róðrardagana býr við á næstu árum. En miklu verst er þó sú staðreynd að það er ekkert gert fyrir þann hluta smábátanna sem hefur sannanlega farið langverst úr úr kerfinu undanfarin ár, smábáta á aflamarki. Gleymda flotann. Óhreinu börnin hennar Evu í þessu kerfi. Sá hluti er áfram gleymdur og það var ekki viðleitni til að lagfæra hans stöðu.

Ég lagði til í sjútvn. að þó ekki væri nema eitt atriði yrði sérstaklega tekið og skoðað gagnvart þeim hópi og það væri að taka 500 tonninn, Seljavallapottinn svonefnda, og færa hann yfir í jöfnun gagnvart þessum hluta smábátaflotans. En á það var því miður ekki fallist. Hann skal áfram notaður til viðbótar ofan á aflareynslu aflahámarkshlutans sem er þó sýnilega að fá hér miklu betri úrlausn en aðrir. Hvers konar efnisleg rök ætla menn að færa fram fyrir því? Hver ætlar að taka að sér að verja það ástand hérna á eftir af hálfu stjórnarliða? Hver ætlar að koma og segja að það sé rétt að eiga þar pott í sjóði til að bæta kannski 10 tonnum ofan á krókabát, aflahámarksbát, sem hefur á annað hundrað tonn í reynslu. En á sama tíma er í sama byggðarlagi aflamarksbátur með kannski 10--20 tonn sem fær ekkert. Hver ætlar að koma af hv. þm., herra forseti, hér á eftir og standa fyrir málsvörn í þeim efnum? Tek ég þá skýrt fram að ég er ekki að sakast við Byggðastofnun sem á ekki annars úrkosti en úrhluta þessum potti á grundvelli gildandi laga og er með bundnar hendur hvað það snertir að hið arfavitlausa ákvæði, ákvæði til bráðabirgða II ef ég man rétt, er þannig úr garði gert að það bindur ráðstöfun þessa potts við aflahámarkshlutann. Hafa að mínu mati sjaldan verið sett vitlausari ákvæði í lög og er þá langt til jafnað. Ég hefði talið, herra forseti, að með hliðsjón af þeirri niðurstöðu, hvað sem um hana má svo segja að öðru leyti gagnvart krókabátunum, hefðu menn átt að taka aðra þætti sem í þessu kerfi eru og tengjast útkomu smábáta og bátahópsins sérstaklega og skoða þá. Þá er ég að tala um að hið þrefalda jöfnunarkerfi sem í gangi er hefði allt saman verið tekið og stokkað upp, 12.000 tonnin samkvæmt 9. gr., 500.000 tonnin, hvort tveggja er miðað við óslægðan afla samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I, og 500 tonnin, Seljavallapotturinn, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II, átti allt að taka upp nú í ljósi breyttra aðstæðna. Bæði breyttra aðstæðna gagnvart þessu samkomulagi við smábátahópinn en líka breyttra aðstæðna vegna breytinga í úthlutun aflamarks. Allt þetta átti að stokka saman í eitt samræmt jöfnunarkerfi þar sem kannski 12--15 þús. tonn hefðu verið til ráðstöfunar til jöfnunar með tilteknum reglum gagnvart þessum hluta aflamarksskipanna, smábátunum og bátunum og öðrum aflamarksskipum sem sannanlega hafa mætt mestri skerðingu í úthlutun veiðiheimilda undanfarin ár og nýta þetta þannig að sem best kæmi út gagnvart því að vega upp á móti skerðingunni. Þar er staða minni skipanna verri en þeirra stóru. Um það þýðir ekki að deila vegna þess að þau hafa minni möguleika til að bæta sér upp samdrátt í bolfiski með veiðum á öðrum tegundum eða á fjarlægum miðum. Trillur fara ekki í Smuguna. Þær fara ekki á Reykjaneshrygg, þær fara ekki á Flæmska hattinn. Hvað sem vinir mínir í stórútgerðinni annars segja þá eru þetta efnislegar staðreyndir í málinu sem menn eiga að horfast í augu við. Reynslan hefur líka sýnt að stærri skipin hafa haft fleiri úrræði til að bjarga sér. Það er bátaflotinn, smábátarnir og hefðbundnu vertíðarbátarnir sem hafa þarna langerfiðasta stöðu.

Síðan hefði átt að mínu mati að ganga þannig frá þessum jöfnunarpotti að hann verkaði sem fleygur og dæi út með vaxandi veiðiheimildum. Þannig að við einhver tiltekin mörk eða í þrepum hyrfi þessi útjöfnunarfunksjón úr kerfinu. Þegar þorskveiðiheimildirnar væru komnar í 200--250 eða 300 þús. tonn þá fleyguðust þessir jöfnunarpottar út og hyrfu á endanum. Nema menn vildu vekja þá upp á móti eða með nýjum hætti ef til umtalsverðrar skerðingar kæmi í öðrum tegundum sem er í sjálfu sér sjálfstætt mál.

Þessi frágangur á málinu eins og hann er núna er mjög groddalegur og satt best að segja ekki efnislegur á nokkurn hátt. Í fyrsta lagi getur ráðstöfun þessara 12.000 tonna heimildar í 9. gr. verið tilviljunarkennd. Þar geta geðþóttaákvarðanir nánast komið til sögu og 5.000 tonnin eru á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða sem endar á fiskveiðiárinu 1998--1999. Hvaða speki er það? Hvers vegna skulu þetta vera nákvæmlega 5.000 tonn allan tímann akkúrat til 1999 en fara svo ofan í núll? Það er ekki mjög efnisleg uppsetning á málinu. Það sama má segja um 500 tonnin. Hér er auðvitað á ferðinni frágangur á þessum málum sem sannar betur en nokkuð annað að menn eru hér ekki með vel uppbyggða og efnislega rökstudda útfærslu á þessum hlutum, því fer víðs fjarri. Bæði hvað útkomuna snertir gagnvart einstökum þolendum í kerfinu og líka gagnvart hlutum eins og þessum, þ.e. að jöfnunin er þarna ekki sett í samhengi við neinar breytur eins og úthlutaðar veiðiheimildir eða annað því um líkt.

[14:15]

Sem sagt, herra forseti, ég held að það hefði getað skipt miklu máli og gert þetta mun þolanlegra fyrir alla aðila ef um svona útfærslu hefði verið að ræða.

Að allra síðustu vil ég svo segja varðandi tengingu 21 þús. tonna pottsins inn í aflahlutdeildarkerfið sem er samkvæmt frv. 1:1 eða 100% án nokkurra takmarkana, án tillits til þess hversu mikið þorskveiðiheimildir kunna að aukast á komandi árum eða hversu mikla aflareynslu það getur þýtt á einstaka smábáta, enda er niðurstaðan sú að einstöku bátar geta verið komnir með á þriðja hundrað tonn ef þorskveiðiheimildirnar aukast tiltekið innan kannski fárra ára. Þá gætum við verið með þá stöðu að 5,9 tonna bátur væri með á þriðja hundrað tonn í þorskaflahámark og reglur til að sækja frjálst í aðrar tegundir. Menn skulu átta sig á því að þetta felur líka það í sér á sama tíma og aflamarksbátar eru með hverfandi reynslu, nokkra tugi tonna eða eitthvað því um líkt. Er það niðurstaða sem mönnum finnst réttlætanleg í einhverju tilliti? Er það? Er út frá bara öllum almennum sanngirnissjónarmiðum einhver botn í slíku, einhver glóra í slíku? Ég segi nei. Þar af leiðandi hefði ég talið að út frá þessari útkomu hefðu menn átt annað tveggja að skoða, þ.e. að hlutdeildin væri í þrepum og minnkaði með vaxandi veiðiheimildum þannig að potturinn tæki á sig aukningu í hlutföllunum 1:1 kannski upp í 200 þúsund tonn. Síðan fengi potturinn 0,75% af hlutdeild í viðbót þar á eftir upp í t.d. 250 þús. tonn, 0,5% á bilinu 250--300 þús. tonn og síðan kannski 0,25% eftir það. Þá hefði þetta þrepast þannig niður að ákveðin þök hefðu komið inn á aukninguna hjá smábátunum. Eða hitt sem að mörgu leyti væri efnislega miklu skynsamlegri regla, að það væri einfaldlega sett þak á hvern einstakan bát við einhver hófleg mörk þannig að enginn einstakur smábátur fengi þó meiri veiðiheimildir í þorski með frelsi til að sækja aðrar tegundir en svona 150 tonn. Finnst mönnum einhver ástæða til þess þegar verið er að takmarka þetta á annað borð að það sé ekki hægt að setja efnislegar reglur af því tagi? Ég sé ekki að það sé mikið að vanbúnaði miðað við það hvernig menn treysta sér til þess að ganga að öðrum í þessu sambandi.

Það hafa líka verið nefndar hugmyndir um að slíkt þak, þorskaflahámark, tæki mið af stærð viðkomandi skipa. Það vefst ekki fyrir mönnum þegar verið er að úthluta kvóta í loðnu að láta burðargetu skipanna vega 50% og hitt er á grundvelli jafnt á skip. Það er ekki mikið verið að gefa fyrir veiðireynslu þá eða slíka hluti. Nei. Heldur er lengd sinnum breidd sinnum dýpt á skipunum, hún vigtar 50% en það eru náttúrlega mjög sérkennileg vísindi og valda því að burðargeta skipanna er ekki einu sinni notuð heldur rúmmálið á þennan hátt. (Gripið fram í: Er nú það?) Það fer nefnilega ekki alveg saman, hv. þm. Staðreyndin er sú að það færir talsvert til. Fyrir einhverja undarlega tilviljun færir það t.d. til ákveðinna skipa sem eru staðsett á vissum stað á landinu miðað við þá úthlutun sem ég fór að skoða um daginn. En önnur með allt upp í tvöfalda burðargetu á við skipin, þau fá jafnt við þau. Hvers vegna mætti þá ekki hugsa sér þetta þannig að þakið á hvern smábát í þorskaflahámarki væri t.d. 2 eða 2,5 tonn á hvert brúttótonn í skipinu. Það væri ekkert ósanngjarnt. Er það? Ef við segjum 2 tonn þá gæti 3 tonna trillan fengið 20--25 tonn þannig að hún gæti fengið 60 tonn eða 75 tonn eða eitthvað þannig og 6 tonna báturinn þá tvöfalt. Ekkert af þessu tagi er hér á ferðinni, ekki neitt.

Nú er það svo að þeir sem harðastir hafa verið talsmenn kvótakerfis á undanförnum árum hafa auðvitað viljað fyrst og fremst eina og aðeins eina leið í öllum þessum efnum og það er að koma öllu í kvóta. Það læðist að mér sá grunur að þessi hrossalega niðurstaða í málinu hér sé af hálfu einhverra í hjarta sínu réttlætt með því að það sé þó verið að koma þessu inn í kvótann og kosti þá það sem kosta vill og að menn séu að kaupa niðurstöðuna því verði. Þeir ná að vísu ekki alveg utan um málið, en langleiðina þó með því að útfæra þetta þannig að mjög stór hluti krókaveiðiflotans telji sig þvingaðan til þess að velja aflahámarksleiðina og þá sé þetta að verða alveg hverfandi stærð sem eftir er í einhverju öðru frelsi.

Niðurstaðan, herra forseti, er auðvitað alveg ótrúleg gagnvart stjórnkerfi fiskveiða hvað smábáta undir 6 tonn varðar. Það er ekki verið að einfalda hlutina mikið, er það? Nei, það er verið að búa til fjórða lagið í stjórnkerfi fiskveiða fyrir þennan minnsta hluta flotans. Það er ferns konar stjórnkerfi við lýði fyrir trillur undir 6 tonnum eða verður þegar þetta verður orðið að lögum og komið til framkvæmda, ferns konar kerfi. Það dugar ekkert minna til fyrir utan allar hinar aðgerðirnar, allar almennar friðunaraðgerðir sem taka til allra, veiðistopp og bönn, hrygningarstopp og hvað það nú er. En ferns konar kerfi þarf til að stjórna sókn smábátanna undir 6 tonnum. Það eru aflamarksbátarnir. Það er aflahámarkshópurinn. Það er sá hluti krókaveiðiflotans sem velur að geta veitt bæði með handfærum og línu og það er svo handfærahópurinn. Þá er þetta komið í grófum dráttum og reyni svo hvaða áhugamaður sem er að skilja þetta til fulls. Því miður, herra forseti, er hér ekki á ferðinni nein heildstæð stefnumörkun eða einföldun sem að mínu mati hefði átt og þurft að koma til.

Varðandi breytingartillögur meiri hlutans þá vil ég örlítið gera grein fyrir viðhorfum mínum til þeirra og taka þá fyrst fyrir 1. tölul. sem er um að sú dagsetning, 15. apríl, sem bundið hefur hendur sjútvrh. hingað til innan hvers fiskveiðiárs til að endurskoða veiðiheimildir í þorski, falli brott. Hér er að stofni til ákvæði sem við fluttum í frumvarpsformi, ég og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, að vísu með nokkuð annarri útfærslu, sem sagt þeirri að bakka þessari dagsetningu aftur til 1. júní. Með þessari breytingartillögu er í raun og veru verið að koma til móts við þetta sjónarmið og okkar frv. fær þannig tiltekna afgreiðslu og ég vil þakka fyrir það að undir þessi sjónarmið er tekið með þessum hætti. Ég held að þrátt fyrir allt sé öllum fyrir bestu og þá ekki síst hæstv. sjútvrh. sem með framkvæmdina fer að losna við þessa dagsetningu. Hún hefur skapað vangaveltur og óróleika a.m.k. að undanförnu þegar menn hafa verið farnir að gera sér vonir um einhverja aukningu í veiðiheimildum auk þess sem hún er feiknalega asnalega valin eða sett, með hliðsjón af t.d. fiskveiðiráðgjöfinni. Á þessum tíma, 15. apríl, yfirleitt ekki búið að vinna úr togararallinu og Hafrannsóknastofnun er ekki tilbúin með ráðgjöf sína fyrir næsta ár þannig að það er beinlínis ankannalegt að hafa dagsetningu af þessu tagi í lögunum og mikið mun eðlilegra að hafa hana annaðhvort síðar eða bara alls ekki. Það er að vísu á það bent að þessi dagsetning hafi á sínum tíma verið hugsuð til þess að sá hluti flotans, t.d. vertíðarbátarnir sem taka megnið eða jafnvel obbann af sínum veiðiheimildum á fyrri hluta ársins, yrði ekki látinn gjalda þess ef veiðiheimildir yrðu auknar á síðari hlutanum. En með þeim geymsluheimildum og öðrum möguleikum sem eru til tilfærslu í kerfinu, þá held ég að sú röksemd haldi tæplega lengur og að það sé miklum mun skynsamlegra að hafa þetta eins og er með aðrar tegundir þannig að ég styð að sjálfsögðu þennan lið breytingartillagnanna.

2. liðurinn á breytingartillöguskjalinu, á þskj. 1093, tengist afnámi línutvöföldunarinnar og því er ég andvígur eins og hér er lagt til og geri grein fyrir því síðar.

3. tölul. lýtur að 1. gr. frv., þeirri sem fjallar um að heimilt sé að undanþiggja báta sem koma í stað annarra sem dæmdir hafa verið óbætandi vegna sjótjóns, hinni stífu úreldingarkröfu, þ.e. 200% úreldingarkröfunni. Þetta tel ég sjálfsagt réttlætismál og sömuleiðis þá breytingartillögu sem hér er um að þetta ákvæði öðlist gildi nú þegar. Að sjálfsögðu úr því að menn ætla að gera þessa breytingu á annað borð voru engin rök til þess að láta menn bíða fram á haust til að mega nýta sér þennan möguleika. Hér er um að ræða sárafá tilvik, væntanlega tvö sem beinlínis falla hér undir enn sem komið er og að sjálfsögðu rétt að hafa gildistökuna þá samtímis eins og í nokkrum öðrum tilvikum, t.d. um tilfærslumöguleika og fleira. Það þarf ekki að segja að að sjálfsögðu er rétt að taka sjóstangveiðimótin þarna út undan eins og gert er í 4. tölul. Það var harla hlægilegt að Fiskistofa var á liðnu sumri að eyða orku sinni í það að elta ólar við einhverja nokkra titti sem komu í land á sjóstangveiðimótum og er náttúrlega eftirlitskerfið komið út í algerar ógöngur og þvælu þegar svo er komið. Ég held að markmiðið hafi aldrei verið það að leggja af sjóstangveiðimót með fiskveiðistjórnuninni. Hér er sem sagt lagt til að hvort sem heldur róðrardaga eða afla snertir, þá sé hægt að horfa eðlilega til slíks.

Þá kemur að 5. tölulið breytingartillagnanna og það er afnám svonefndrar línutvöföldunar. Þetta mál er búið að vera talsvert til umræðu undanfarin ár og það eitt og sér hefur leitt af sér það ástand að menn hafa verið í kapphlaupi undanfarin ár á grundvelli væntanlegs kvóta sem mundi koma á þetta að lokum og þar af leiðandi keppst við að hafa afla sinn sem allra mestan á línutvöföldunartímabilinu til þess að þeirra viðmiðun yrði sem hagstæðust þegar kvótinn kæmi. Auðvitað þarf að ganga frá þessu máli. Það er ljóst. Það er ekki hægt að hafa þetta eins og þetta hefur verið, þ.e. árlega spekúlasjón um það hvort kvóti komi næsta ár, þar næsta o.s.frv. En það er hægt að gera á fleiri vegu en þann sem hér er lagður til. Það er t.d. hægt að gefa það út endanlega að þessu verði ekki breytt og taka um það endanlega ákvörðun. Þar með þýðir ekkert fyrir menn að sanda í kapphlaupi til þess að ávinna sér aflareynslu út á hugsanlegan kvóta síðar. En það er líka hægt að gera þetta þannig t.d. að afmarka og loka þessum potti þannig að fleiri geti ekki bæst við. Það hefur iðulega verið gert við sambærilegar aðstæður í fiskveiðistjórnunarkerfinu að afmarka einhvern veginn þann hóp sem hefði rétt til þess að sækja sjó á grundvelli tiltekinna reglna. En það hefur ekki mátt opna á slíkt varðandi þessa línutvöföldun.

Í þriðja lagi hefði auðvitað mátt hugsa sér margar aðrar útfærslur á því að færa þessa aflareynslu þá að einhverjum hluta til yfir í aflahlutdeildarkerfið. Það er geysilega vandasamt mál. Það er stórpólitísk ákvörðun sem færir til mikla hagsmuni, nákvæmlega hvernig það er gert. Því miður, herra forseti, verð ég að segja alveg eins og er að mér finnst sú ákvörðun ekki á nokkurn hátt þannig undirbyggð að trúverðugt sé.

Frá ráðuneytinu komu hugmyndirnar fyrst í þá veru, þegar ráðuneytið óskaði eftir því að sjútvn. skoðaði þetta mál, að helmingur aflareynslunnar á tilteknu tímabili yrði tekinn yfir í aflahlutdeildarkerfið. Niðurstaða meiri hluta sjútvn. er sú að leggja til að 60% af hlutfallslegum afla í línutvöföldunarútgerðinni á þremur síðustu árum verði færð yfir og hvert skip taki til viðmiðunar tvö bestu ár af þremur. Þetta þýðir á mannamáli, herra forseti, sem ég hef reynt að færa þetta yfir í, að um 7.200 tonn ef ég hef reiknað rétt, verða í þessum potti. Það gefur um 4,6% aflahlutdeild, miðað við hvað? Jú, miðað við 155 þús. tonna úthlutun. Og þá er aftur komið að því vandasama við þetta mál, að menn þurfa að leggja það niður fyrir sig hvernig upphafspunkturinn er valinn og hvaða prósenta af aflareynslunni á undanförnum árum er þarna tekin. Og það eru eins og ég segi, herra forseti, að mínu mati ekki mikil nákvæmnisvísindi á bak við það. Alveg eins og ég reiknaði áðan út hvernig 21.500 tonn mundu lækka hlutfallslega ef farið væri t.d. yfir í úthlutunina samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir næsta ár, þá mundi sama tala lækka úr 4,6% niður í 3,9 fyrir línuskipin. Þetta segir allt sem segja þarf um það hversu næmt kerfið er og miklir hagsmunir færast til miðað við upphafspunktinn sem valinn er eða þá skiptaprósentuna í þessu tilviki. Og ég held að ég verði að segja, herra forseti, líkt og ég sagði um útkomuna fyrir þann hluta krókaveiðiflotans sem hefur góða aflareynslu frá undanförnum árum og er líklegur til að velja aflahámarksleiðina, að ég tel að hér sé verið að búa til hálfgert fyrsta farrými fyrir þann hluta línuskipanna sem hafa haft mikla aflareynslu allra síðustu árin og fá 60% af henni sett inn í aflahlutdeildarkerfið miðað við þennan lága og hagstæða upphafspunkt, 155 þús. tonna þorskkvóta.

[14:30]

Þá er annað eftir í málinu sem er viðmiðunartíminn sem valinn er og er afar vandasamt mál svo ekki sé meira sagt að festa niður. Það er t.d. ljóst á grundvelli útreikninga sem ég óskaði eftir að sjútvn. fengi til þess að átta sig aðeins á tölulegum bakgrunni þessa máls að það á sér stað mikil tilfærsla innan hópsins eftir því hvort valið er þriggja eða fimm ára tímabil, mikil tilfærsla. Þannig er það t.d. að stóru afkastamiklu verksmiðjuskipin, útileguskipin með beitningarvélum um borð hafa á allra síðustu árunum, sérstaklega á tveimur síðustu vertíðum, verið að auka hlut sinn mjög hratt og það hefur að sama skapi gengið á hlut hefðbundinnar landróðralínuútgerðar. Þetta hefur m.a. gerst vegna þess að aðstæður á miðunum eru slíkar að aðstaða útileguskipanna er miklu betri en hinna. Og það lýsir sér einfaldlega í því að útileguskipin eru úti kannski viku eða jafnvel lengri tíma, þau sem fyrst og fremst frysta aflann um borð og þau leggja línuna á bestu staðina. Þegar landróðraskipin fara heim með línuna til að beita og landa eru miðin tóm og útileguskipin geta valið sér bestu staðina. Svo koma hinir út og verða að leggja á þær reytur sem eftir eru. Bara þessar praktísku aðstæður á miðunum hafa að sögn kunnugra þýtt að aðstaða landróðrahlutans til útgerðarinnar hefur stórversnað, en hinir hafa að sama skapi haft yfirburði. Svo geta menn spurt: Eru þetta ekki bara þróun, aðstæður og staðreyndir sem menn verða að beygja sig fyrir? En þá kemur að þessu: Til hvers var línutvöföldun tekin upp á sínum tíma? Hver var hugsunin á bak við það? Hvað vakti fyrir mönnum? Eigum við ekki aðeins að rifja það upp áður en við ákveðum að enda þessa sögu svona? Það sem vakti fyrir mönnum var kannski í fyrsta lagi að sporna gegn því að það drægi úr þessari útgerð. Menn sögðu: Línuútgerðin er mikilvæg, henni fylgir mikil atvinna í landi. Það kemur mjög gott hráefni að landi úr línuútgerðinni. Um það var ekki deilt. Í þriðja lagi sögðu menn: Það er gott að hvetja til þess að þessi útgerð sé stunduð á þessum árstíma. Það eykur framboðið á hráefni yfir þennan erfiðasta tíma ársins, bæði til vinnslu og til útflutnings á ferskum flökum í flugi o.s.frv. Allar þessar röksemdir eru í sjálfu sér enn fyrir hendi og hafa ekkert breyst. Það má á hinn bóginn segja að sú staðreynd að vaxandi hluti þessa línutvöföldunarpotts er nýttur af stórum útileguskipum og jafnvel verksmiðjuskipum sem alls ekki leggja upp afla til vinnslu í landi hafi breytt nokkru um þetta. En þá er spurning frekar í mínum huga: Áttu þau skip þá nokkurn tíma að vera inni í þessu kerfi eða ættu þau ekki að fara út en hin að halda áfram? Því ekki að athuga það? Segja þá sem svo: Allt í lagi, gott og vel. Útileguskip með beitningu um borð sem ekki láta beita orðið í landi, ekki leggja hráefnið upp til vinnslu þannig að ekki eiga við allar þessar hefðbundnu röksemdir, þau geta þá tekið pokann sinn, farið með þessi 50% eða eitthvað út úr pottinum yfir í aflamarkskerfið, enda er að mörgu leyti miklu eðlilegra að það gildi gagnvart þeim. En hin geta haldið áfram.

Það hefur verið í tísku að láta menn velja, ekki satt. Smábátamenn hafa þurft að velja trekk í trekk um örlög sín á undanförnum árum, stillt upp við vegg eða með byssuna í hrygginn og sagt: Veldu nú, góði, krókaleyfi eða aflamark. Og því mátti þá ekki alveg eins láta þennan hóp velja? Og segja: Við lokum pottinum og þeir sem vilja halda áfram að sækja á þessum tíma á grundvelli línutvöföldunar geta það. Þeir sem vilja fara geta farið. Það var ein leið. Ég sé ekki að það hafi ekki mátt hugleiða hana hér eins og í öðrum tilvikum.

En það er ekkert af þessu skoðað heldur er í raun og veru valin það sem ég hlýt að kalla hrossalækningu, þ.e. að skella þessu inn í aflamarkskerfið með þessum hætti.

Ef litið er á það í tölum, herra forseti, hvaða máli það t.d. skiptir hvort valið er þriggja ára tímabil eða fimm ára tímabil til viðmiðunar, er ekki víst að allir hafi áttað sig á því hvað verið er að færa til. Það þýðir t.d. að nokkur stærstu útileguskipin og þau sem mest hafa aflað að undanförnu koma 20--35 tonnum betur út ef tekin eru bara þrjú síðustu ár heldur en ef tekin eru fimm ár. Það þýðir beinlínis að í aflahlutdeild munar það 0,03--5% á því skipinu sem hæst er, sem mest hefur aflað undanfarin ár, farið á annað þúsund tonn á línutvöföldunartímabilinu sl. 1--2 ár, Tjaldur I. frá Rifi. En hvað þýðir þetta hinum megin að taka bara þrjú ár í staðinn fyrir fimm ár? Það þýðir í fyrsta lagi að hellingur af bátum sem stunduðu línuútgerð og voru í hefðbundinni línuútgerð fram undir síðustu ár detta út, fá ekki eitt einasta kg af því að menn velja bara þrjú ár en ekki fimm eða lengra tímabil. Þá verðum við að svara þeirri spurningu: Finnst okkur það réttlátt? Er það sanngjörn útkoma? Menn segja fullum fetum að þeir hafi í raun og veru hrakist út úr þessari útgerð af því að það var þannig að þeim þrengt á litlum línubátum sem ekki höfðu roð við stóru skipunum í þessari sókn. Og önnur skip sem látið hafa undan síga í þessari útgerð og eru algerlega á hinum endanum tapa upp undir 30 tonnum á því að valin eru þrjú ár en ekki fimm. Til dæmis báturinn Hafdís SF 75, sem hefur verið með umtalsverða línuútgerð undanfarin ár eða var á fyrri árum, tapar öllum sínum 27 tonnum við það að þessi aðferð er valin. Og ég spyr: Hafa menn hreina samvisku gagnvart því að draga mörkin svona? Segja bara þrjú ár og láta örlög manna, líf og dauða, ráðast af einhverri slíkri reglu. Einhverjir hefðu sagt að sanngjarnast hefði verið að taka allt línutvöföldunartímabilið allt og segja: Við skulum þá bera gera þetta dæmi upp í heild sinni frá byrjun og færa yfir í almenna kerfið reynsluna yfir allt það tímabil sem þetta hefur verið við lýði, gera þetta upp með einhverjum hætti og finna þar einhver sanngjörn hlutföll og reglur. Og ég hallast að því að að mörgu leyti hefði það verið kannski réttlátasta aðferðin, a.m.k. að velja þarna allmikið lengra tímabil og fleiri ár þannig að tekin væru þrjú bestu af fimm eða þrjú bestu af sex, fimm bestu af átta eða allt tímabilið eða eitthvað fram eftir þeim götunum. Ég man ekki í smáatriðum hvað þetta er orðin löng saga.

Herra forseti. Á þskj. 1132 leggja hv. þm. Tómas Ingi Olrich og hv. þm. Árni Johnsen fram breytingartillögur við frv. sem eru allrar athygli verðar að mínu mati. Ekki síst vegna þess að þarna eru á ferðinni tveir hv. stjórnarsinnar. Ég vildi óska þess að þessar hugmyndir hefðu fengið að koma til skoðunar í sjútvn. og ég vildi óska þess að yfirleitt hefði verið gefið svigrúm til þess að skoða efnislega breytingar á þessu máli í sjútvn. En það er alveg óhjákvæmilegt að upplýsa að þau skilaboð voru borin inn í sjútvn. að meiri hlutinn og hæstv. sjútvrh. í broddi fylkingar teldu sig ekki vera í stöðu til þess að opna upp skoðun á neinum breytingum á málinu. Um væri að ræða samkomulag sem ætti að afgreiða óbreytt og þar með var náttúrlega snöggur endir bundinn á vinnu í sjútvn. að því að skapa einhverja samstöðu um breytingar á málinu. Pólitískar aðstæður málsins voru slíkar að hér var á ferðinni samkomulag sem ríkisstjórnin ætlaði með meiri hluta sínum, mestöllum a.m.k., að afgreiða óbreytt í gegnum þingið þannig að hvorki hugmyndir af þessu tagi né þær sem ég hef verið að lýsa í ýmsa veru náðu því að komast til almennrar, efnislegrar skoðunar í sjútvn.

Ég vil segja um breytingartillögur hv. þm. að ég er að vísu þeirrar skoðunar eins og fram hefur komið að tenging pottsins inn í hlutdeildarkerfið ætti að vera með nokkrum öðrum hætti en hér er gerð tillaga um, en hugsunin er sambærileg og mjög í þá veru sem ég hef með sjálfum mér verið að skoða og velta fyrir mér. Ég er þeirrar skoðunar að einhver nálgun af þessu tagi væri affarasælust og mun líklegri til að skapa þokkalegan frið um þetta mál í greininni allri.

Herra forseti. Ég held að það sé þá ekki margt eftir í sjálfu sér sem ég þarf að gera grein fyrir í mínu máli. Í áliti 2. minni hluta sem ég er að mæla fyrir kemur það fram að við munum styðja þær breytingartillagnanna við þetta mál sem og þær greinar frv. sem við teljum þrátt fyrir allt að séu til réttrar áttar, en með þeim fyrirvörum og í ljósi þeirra sjónarmiða sem ég hef að framan gert grein fyrir. Sérstaklega vil ég árétta að síðustu að við teljum að hér sé ekki á ferðinni sú heildstæða stefnumörkun eða nálgun í þessu máli sem átt hefði að vera. Það er auðvitað ekki von að stjórnkerfi fiskveiða í einu landi verði annað en óskapnaður þegar það tekur breytingum í endalausum smáskammtalækningum. Það er verið að afgreiða einn bút á þessu árinu og annan bút á því næsta. Það er verið að redda þessu fyrir horn og hinu fyrir horn og útkoman verður auðvitað sú sem við sitjum uppi með, ferns konar stjórnkerfi fiskveiða undir 6 tonnum, þrefalt jöfnunarkerfi, þrír jöfnunarpottar svo að dæmi séu tekin og annað því um líkt. Í þessu máli er sem sagt langt frá því að verið sé að taka á ýmsum öðrum tengdum hlutum í stjórnkerfi fiskveiða eða í málefnum sjávarútvegsins sem hefði þurft að taka til skoðunar samhliða. Ég nefni þar t.d. úreldingarreglugerðarverkið allt sem er auðvitað komið í þvílíkar argar ógöngur að engu tali tekur. Það er hindrun á alla þróun í íslenskum sjávarútvegi í dag, myndar þröskuld sem öll endurnýjun í flotanum verður að yfirstíga í hverju einstöku tilviki. Hver einasta rúmlest í endurnýjun í fiskiskipi kostar nú upp undir hundrað þús. kall þannig að það kostar hundruð milljóna að endurnýja stærstu skipin. Það er ekki tekið á úrkastsvandamálunum, það er ekki tekið á leigubraskinu, það er ekki verið að móta inn í fiskveiðistefnuna umhverfissjónarmið eða áherslur í sambandi við vistvænar umgengnisvenjur um auðlindina sem þó er orðin rík þörf að taka á dagskrá íslenskra sjávarútvegsmála, þó ekki væri nema vegna líklegra áhrifa þessara þátta á markaðsmál sjávarútvegsins á komandi árum. Það er dapurlegt í ljósi þess að þegar þau sjónarmið umhverfismála sem þessu tengjast eru með beinum hætti farin að hafa áhrif á stöðu sjávarvöru á heimsmarkaði er ekki annað á dagskrá en slaka til í þeim efnum, samanber nýtingarkröfurnar á verksmiðjuskipin. Það er ekki beinlínis verið að teikna þar í rétta átt, er það?

Það er ekki verið að taka hér með einum eða neinum hætti á málafylgju hæstv. sjútvrh. á þessum vetri á stöðu fiskvinnslunnar og er þó þar við ærinn vanda að etja, taprekstur og miklar þrengingar og þróun sem að mörgu leyti er mjög ískyggileg og menn ættu að vera að skoða. Það er því ekki hægt að gefa þessum málum, herra forseti, þá einkunn að hér sé verið að ganga frá einhverri framsækinni stefnumörkun, að það sé verið að taka á hlutunum með heildstæðum hætti eða að hægt sé að segja að hér sé vel ígrunduð og efnislega rökstudd niðurstaða á ferðinni. Þar með er ekki sagt að allt sem hér er á ferðinni sé slæmt. Það er alls ekki svo. Margt af þessu er þó til réttrar áttar. En það vantar mikið upp á að um fullnægjandi niðurstöðu eða ánægjulega niðurstöðu sé í öllu tilliti að ræða.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð.