Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 16:13:04 (6924)

1996-05-31 16:13:04# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[16:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við í minni hlutanum höfum valið að flytja aðeins eina brtt. við þetta frv. og hún kemur hér til atkvæða. Sú tillaga felur það í sér að sett verði þak á hámark þessara tekna hvort sem heldur eru vaxtatekjur, arður eða hagnaður af sölu hlutabréfa sem skattlagðar eru með einungis 10% skatti og tekjur umfram þessi mörk skuli meðhöndlast sem venjulegar launatekjur og skattleggjast í almenna tekjuskattskerfinu.

Í frv. eða öllu heldur breytingartillögum meiri hlutans er sambærileg tillaga á ferð en hún tekur eingöngu til skattalegrar meðferðar söluhagnaðar. Við teljum að með því að gera þá grundvallarbreytingu á málinu sem hér er lögð til væri á því mun skárri svipur út frá þeim sjónarmiðum sem við höfum talað fyrir og satt best að segja undarlegt ef menn geta ekki sæst á, miðað við þau rúmu mörk sem hér eru lögð til, að útfærsla af þessu tagi sé samþykkt. Ég greiði þessu að sjálfsögðu atkvæði, herra forseti, enda skynsamlegt.