Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 16:14:36 (6925)

1996-05-31 16:14:36# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, VE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[16:14]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Ég styð að sjálfsögðu þessa brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. sem kveður á um það að setja þak á þann söluhagnað sem hægt er að skattleggja í 10% þrepinu. Ég vek athygli á því að ef arður og vaxtatekjur hefðu líka verið látnar taka til þessa dags hefði komið upp sú staða að skatthlutfallið hefði nánast nálgast eignaupptöku. Ég vek athygli á því að 10% nafnvaxtaskattur þýðir við mjög lágt verðbólgustig almennt kannski 20--30% skattlagningu á raunvexti. Þegar skattaprósenta á slíka nafnvexti er komin upp í 40--50% er raunvaxtaskattlagningin í ýmsum tilvikum komin yfir 100% og í algengum verðbólgutölum milli 80 og 90%. Því tel ég að það sé alveg ófært að leggja á slíkan eignaupptökuskatt.