Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 16:26:50 (6931)

1996-05-31 16:26:50# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, utanrrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[16:26]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég er mjög undrandi á því að heyra greinargerð stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Það lá alveg ljóst fyrir þegar ekki tókst samkomulag um það í fyrri ríkisstjórn að leggja á fjármagnstekjuskatt, að þá var leitað eftir þverpólitísku samstarfi og það tókst og öll stjórnarandstaðan tók þátt í því. Að vísu var Framsfl. tregastur til þess samstarfs á þeim tíma. Það skrifuðu allir flokkar undir samkomulag og það lá alveg ljóst fyrir að ef ætti að taka upp fjármagnstekjuskatt, þá yrði að samræma þennan skatt þannig að ég tel að menn séu að hlaupa frá þessu.

Það sem er sagt nú um jöfnunarhlutabréf er ekki rétt. Þessar heimildir eru fyrir hendi og það stenst ekki stjórnarskrána að taka þær í burtu. Þess vegna er hér engin nýjung og sú greinargerð sem er flutt af stjórnarandstöðinni að því er þetta mál varðar er því röng og byggð á misskilningi.