Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 16:39:46 (6932)

1996-05-31 16:39:46# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[16:39]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Af því að ég sá bregða fyrir í salnum áðan hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, þá minntist ég þess að einn af forfeðrum hans, Ari sýslumaður í Ögri, hrakti í brottu úr Vestfjarðakjördæmi fyrir mörg hundruð árum Jón lærða Guðmundsson og þegar hann var látinn réttlæta það á Þingvöllum, þá sagðist hann hafa gert það vegna þess að Jón lærði væri réttrækur af Vestfjörðum fyrir buldur og mas og vondar ræður. Langar ræður, herra forseti, eru vondar ræður og þess vegna ætla ég að reyna að vera stuttorður í dag.

Það er svo, herra forseti, að ég kemst ekki hjá því að gera athugasemdir við ræður tveggja hv. þingmanna sem hér töluðu fyrr í dag, hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég hef jafnan haft mikið dálæti á ræðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hann er einkennileg blanda af stjórnmálamanni sem er hvorki harðsvíraður sósíalisti né forstokkaður framsóknarmaður heldur er hann sprottinn úr sérkennilegum jarðvegi íslenskrar félagshyggju sem löngum var talin til Grímseyjarkommúnisma og tveir fyrrv. þingmenn Alþb. gerðu frægan, Jónas Árnason og Stefán Jónsson, og báðir stórkostlegir þingmenn. Þeir voru Grímseyjarkommúnistar og löngum var hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni talið það til tekna að vera Grímseyjarkommúnisti. (SJS: Og er enn.) Ég hef eiginlega talið hann í þeim hópi og má hann vera vel sæmdur af því. Aðall Grímseyjarkommúnistanna og þeirra tveggja fyrrv. þingmanna sem ég drap á áðan, var að þeir mæltu mjög fyrir auknum hlut smábátaeigenda. Nú vil ég að sjálfsögðu taka það fram að hv. þm. sagði það alveg skýrt í sinni ræðu að hann styður þær breytingar sem hér er verið að gera á lögum um stjórn fiskveiða og færa þeim aukinn hlut. Það kemur líka fram í áliti hv. þm. En eigi að síður fannst mér hann veitast allt of harkalega að hæstv. sjútvrh. og stjórnarmeirihlutanum í sínu máli. Mér fannst hann líka fara með röksemdir sem ekki voru réttar.

Við stjórnarandstæðingar getum ekki verið að saka stjórnarliðana fyrir brot á kosningaloforðum og koma síðan þegar þeir efna þessi loforð og ásaka þá eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fyrir skort á framsýni. Hv. þm. tók fjölmörg dæmi sem hann sagði að ekki væri tekið á í þessu frv. Það er auðvitað alveg hárrétt hjá hv. þm. En við verðum samt sem áður að meta það að hér er verið að efna loforð sem a.m.k. sumir gáfu fyrir kosningar og hér er verið að efna mjög skilyrðislausa yfirlýsingu sem kom fram hjá talsmanni meiri hlutans í sjútvn., hv. þm. Árna R. Árnasyni, á síðasta vori. Þar var því lýst yfir, herra forseti, að stjórnarmeirihlutinn mundi beita sér fyrir því að tengja þann pott sem krókaleyfishafar fá að veiða úr, við væntanlega aukningu og sveiflur á heildarkvóta úr þorski. Ég og aðrir í stjórnarandstöðunni höfum gengið hart eftir því, m.a. hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, hvort ekki verði við þetta staðið. Nú hafa menn staðið við það og þess vegna segi ég að ég fagna því og verð að segja það að mér finnst ekki hægt að koma og skammast yfir því eða finna að því að ekki sé tekið á fleiri hlutum en þessum, vegna þess að það var aldrei yfirlýstur tilgangur frv. að gera annað en taka á þessu. Ég lýsi fullum stuðningi við þetta frv. að flestu leyti. Ég tek það fram að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sem ekki er hér í dag hefur fyrirvara við frv. Það er ekki vegna þess að hann geri efnislega fyrirvara við einhverjar greinar frv. heldur eru það ýmis atriði sem hann vildi gjarnan sjá öðruvísi og kýs að hafa frjálsar hendur til þess einhvern tíma síðar, e.t.v. á næsta þingi að koma með breytingartillögur um það.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi það sérstaklega að það væri ríflega framreitt af hálfu hæstv. sjútvrh. að binda hlutfallið, krókapottinn, við núverandi heildarkvóta, þ.e. 155 þús. tonn. Hann taldi að strax hefði málið litið öðruvísi út ef þetta hefði verið geymt fram á næsta fiskveiðiár vegna þess að þá er búið að auka heildarkvótann upp í 185 þús. tonn og þá hefði hlutdeildin strax orðið minni sem krókabátar fá. Ég er andstæðrar skoðunar. Ég tel að þetta sé mjög vel til fundið hjá stjórnarmeirihlutanum og hæstv. sjútvrh. Mér finnst að Alþb. sem hefur aftur og aftur haft uppi mjög jákvæðan og málefnalegan og vel rökstuddan málflutning einmitt fyrir því að auka hlut krókabáta, eigi ekki að tala svona. Það er ekki í stíl við þá ágætu hefð Grímseyjarkommúnistanna sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tilheyrir og er vel sæmdur af.

[16:45]

Svo er það annað mál, herra forseti, að hér hafa tveir stjórnarliðar, hv. þm. Tómas Ingi Olrich og hv. þm. Árni Johnsen, lagt fram tillögur sem ganga í mjög verulegum atriðum frá tillögum stjórnarmeirihlutans. Ég ætla ekki að fjalla meira um málflutning hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar en hann hafði þau orð um þá tillögu að hún hefði betur verið fram komin, hún væri athyglisverð og hann hefði gjarnan viljað geta rætt hana í hv. sjútvn. Ég er honum algerlega andstæðrar skoðunar. Ég tel slæmt að þessi tillaga er fram komin. Ég er á móti henni. Það eina góða við hana er hversu seint hún er fram komin. Það tókst ekki að ræða hana og spilla þessu máli í sjútvn. með henni. Það verð ég að segja svo öllu sé til haga haldið og ég tel að það sem í henni kemur fram sé ekki rétt. Ég er af pólitískum ástæðum annarrar skoðunar eins og margoft hefur komið fram.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir kemur úr flokki Þjóðvaka sem hefur haft mjög skeleggar skoðanir á sjávarútvegsmálum og ekki síst á málefnum krókaleyfishafa. Ég hef grandlesið nefndarálit 1. minni hluta sjútvn. sem hv. þm. er höfundur að og stendur ein að. Ég hegg eftir því að í nefndarálitinu kemur fram að 1. minni hlutinn styðji hvorki frv. í heild né breytingartillögur sem meiri hlutinn ber fram, en muni greiða einstökum greinum frv. sem teljast til bóta atkvæði.

Nú verð ég að viðurkenna, herra forseti, að ég hlýddi ekki nægilega rækilega á mál hv. þm. til þess að gera mér grein fyrir því hvort hv. þm. styður meginatriði frv. sem ég tel vera tengingu krókapottsins við þróun heildarkvótans. En ég sætti mig ekki að öllu leyti við ýmislegt sem kemur fram í þessu nefndaráliti. Ég sætti mig ekki við það að sjá aukningu krókabáta vera kallaða fjárfestingarævintýri síðustu ára. Og ég felli mig alls ekki við, herra forseti, að þær rannsóknir sem ég hef lagst yfir í stefnuskrá Þjóðvaka sem var samþykkt á landsfundi árið 1995 ganga í allt aðra átt en mál hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Ég vil, herra forseti, leyfa mér að lesa ályktun um sjávarútvegsmál sem var samþykkt á landsfundinum. Þar segir, með leyfi forseta: (SvanJ: Hún var ekki samþykkt á landsfundinum.) Nú kemur það fram sem ég vissi ekki, herra forseti, af því að ég hef ekki fylgst svo rækilega með þróun Þjóðvaka að þessi ályktun hafi ekki verið samþykkt. Við skulum þá láta það vera, herra forseti, að lesa hana. En eigi að síður voru samþykkt 10 áhersluatriði Þjóðvaka við stjórnarmyndun félagshyggjuaflanna eftir kosningar og þar segir, m.a.: ,,Efla smábátaútgerðina.`` Í blaði sem Þjóðvaki gaf út segir líka, með leyfi forseta:

,,Rekstrargrundvöllur smábátaútgerðar verði betur tryggð\-ur og efldur skilningur á vistvænum veiðiaðferðum.`` Á öðrum stað í ályktun sem a.m.k. var lögð fram á landsfundi Þjóðvaka, vel má vera að hún hafi þó ekki verið samþykkt, segir líka að það þurfi að tryggja betur rekstrargrundvöll smábátaútgerðarinnar.

Herra forseti. Ég dreg þetta hérna fram vegna þess að mér sýnist að í þeim plöggum sem liggja fyrir hendi frá Þjóðvaka sé mun skilyrðislausari og tvímælalausari stuðningur við eflingu smábáta og krókaleyfishafa í landinu heldur en kemur fram í máli talsmanns Þjóðvaka. Mér þykir slæmt ef ég þarf að taka upp þann hátt sem ég hef stundum við hv. þm. Framsfl. að rifja upp kosningaloforð þeirra og það sem stendur í stefnuskránni. En ég er þeirrar skoðunar að það sé með engu móti hægt að segja annað en að það frv. sem hér liggur fyrir efli krókabátana í landinu og að því leyti til sé það í takt við a.m.k. þann anda sem kom fram í stefnuskrá og ýmsum yfirlýsingum frá Þjóðvaka. Ég segi þetta hér, herra forseti, vegna þess að afstaða hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur var ekki vilhöll smábátum og ekki í anda þess sem Þjóðvaki sagði áður.

Herra forseti. Varðandi þetta frv. vil ég segja að ég styð það að öllu leyti. Ég er ánægður með þá brtt. þar sem meiri hlutinn hefur gert að sinni tillögu sem kom fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og Steingrími J. Sigfússyni. Þar var lagt til að fella burt úr lögunum um stjórn fiskveiða að svigrúm hæstv. sjútvrh. til þess að breyta úthlutun þorskkvóta væri takmarkað við 15. apríl. Ég hef, eins og margoft hefur komið fram, lagst alfarið gegn þessu ákvæði laganna, mælt fyrir því bæði á þessu þingi og í fyrra að þetta verði fellt brott. Hæstv. sjútvrh. hefur stundum þegar hans eigin flokksmenn hafa verið að reyna að klóra honum og heimta að hann breytti úthlutun þorskkvóta skotið sér á bak við það eins og sl. vor að það væri ekki heimild til þess vegna þessa ákvæðis. Nú er það farið. Einn hv. þm. sem ræddi í dag fagnaði þessu m.a. með þeim orðum að þá mundi linna upphlaupum hv. stjórnarliða þegar þeir fara að hæstv. ráðherra og óska eftir því að hann úthluti auknum þorskkvóta. Eg sé það ekki, herra forseti. Ég sé einfaldlega að þetta gefi mönnum eins og hv. þm. Hjálmari Árnasyni og hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni færi á því að vera að upphlaupum sínum allt árið. En auðvitað verður að segja mönnum eins og hv. þm. Hjálmari Árnasyni til hróss að smám saman mjakast í átt til uppfyllingar þeirra loforða sem þeir sendu frá sér í ótrúlega stríðum straumum fyrir síðustu kosningar. Það er hins vegar langur vegur frá því að búið sé að uppfylla það sem hv. þingmenn Framsfl. á Reykjanesi héldu fram í kosningabaráttunni. Hv. þm. Hjálmar Árnason og Siv Friðleifsdóttir voru t.d. þeirrar skoðunar og létu það út frá sér ganga að þau mundu beita sér fyrir því að togaraflotinn mundi einungis fá að veiða 15% af heildarþorskkvótanum. Það er langt í land með það, en eigi að síður er þessi breyting jákvæð og það ber að meta.

Ég vil síðan líka, herra forseti, geta þess að ég tek undir tillögu sem hér er að finna um afnám línutvöföldunarinnar. Það er í svipuðum anda og ég lagði til sjálfur á síðasta vorþingi. Nú hefur stjórnarmeirihlutinn gert þessa tillögu að sinni. Ég tel það skynsamlegt. Einnig að þessu leyti finnst mér sem hérna hafi verið mjög gengið til bóta gatan fram á veg.

Ég tel að það sé líka stjórnarmeirihlutanum til hróss að hafa ekki látið bugast undan gríðarlegum árásum og atlögum sem útgerðarmenn víðs vegar um landið hafa haft uppi síðustu vikur og mánuði, sýndu það og sönnuðu að þeir eru sennilega meðal öflugustu þrýstihópa í þjóðfélaginu. Auðvitað má rekja til þeirrar atlögu þá staðreynd að hér liggur fyrir tillagan frá hv. þm. Tómasi Inga Olrich og Árna Johnsen. En ég vona að stjórnarmeirihlutinn muni ekki leyfa sér þann munað, jafnvel þeir sem þar hafa efasemdir, að styðja það. Auðvitað er það svo að innan allra flokka hafa verið skiptar skoðanir um stjórn fiskveiða. Ég tala ekki fyrir óskiptan flokk í þessu máli. Ég hygg að jafnvel í mínum þingflokki muni koma stuðningur við þá tillögu tvímenninganna sem ég nefndi hér áðan.

Það sem ég vildi gjarnan hafa séð öðruvísi, herra forseti, er í sjálfu sér smávægilegt miðað við þær miklu breytingar sem hér liggja fyrir. Nú er það þannig að það er búið að breyta kerfinu svo að það er annars vegar róðrardagakerfi og hins vegar kjósa menn sér þorskaflahámark. Það er rétt sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sagði fyrr í dag að þeir voru furðu margir sem kusu þorskaflahámarkið. Ætli þeir hafi ekki verið á fimmta hundrað og þeim mun sennilega fjölgað þegar kemur að möguleikum til endurvals innan skamms. Þá eru eftir u.þ.b. 680 eða tæplega 700 bátar sem eru á hinu eiginlega sóknarmarki. Þeir hafa ekki mikið til skiptanna. Þeir hafa eitthvað í kringum 7000 tonn og það er ansi lítið, að meðaltali 10 tonn á bát. Ég held að það sé ekki farsælt að vera að reyna að þrengja að þeim. En mér sýnist að það sé verið að reyna að þrengja sem flestum bátum yfir á þorskaflahámarkið og ég óttast og er reyndar sannfærður um að það munu koma fram óskir um það í hópi þeirra sem hafa kosið sér þorskaflahámark að það verði framseljanlegt og að lokum verði fullt framsal líka á þeim hálfgildingskvóta sem þar er kominn á. Ég tel að það hafi verið afskaplega erfitt að standa gegn því. Og þar með tel ég raunverulega að það séu fram undan veruleg kaflaskil á næstu árum í þróun smábátaútgerðar og sérstaklega krókaleyfisbáta á Íslandi. Þessi breyting með þorskaflahámarkinu og síðan breytingar á lögunum um úreldingar báta gera það að verkum að þeim mun því miður fækka. Ég segi því miður vegna þess að ég tel að í þessari smábátaútgerð felist arðsöm og hagkvæm byggðastefna, byggðastefna sem er mér að skapi og eflir smáar byggðir landsins. Ég tel þess vegna að það sé nauðsynlegt í framtíðinni að huga vel að þeim bátum sem ekki kusu þorskaflahámarkið. Ég sé t.d. að í lögunum eins og þau verða væntanlega samþykkt núna er verið að reyna að þrýsta bátum frekar úr róðrardagakerfinu. Það er reyndar tvískipt. Annars vegar eru þeir sem eru á handfærum og hins vegar þeir sem eru bæði á handfærum og línu og þar er líka verið að sauma að línubátunum. Ég ætla ekkert að dæma um hvort það er slæmt eða vont. En ég er hins vegar, herra forseti, óánægður með það að ég tek eftir því að á vissan hátt er gert upp á milli annars vegar þeirra báta sem eru með þorskaflahámark og hins vegar þeirra sem eru á róðrardögum að því leyti til að utankvótategundir hafa mismunandi vægi í afla þeirra. Þeir sem eru á þorskaflahámarkinu hafa auðvitað ekkert hámark á utankvótategundum og geta sótt í þær eins og þeir vilja. En þeir sem hafa kannski haft umtalsverðan hluta af sínum afla af utankvótategundum en eru á róðrardögum geta ekki sótt í slíkar tegundir jafnvel á dögum og á stöðum þar sem er alveg klárt að það er hreinn afli utankvótategunda án þess að það sé líka inni í dögunum, að það teljist til daga. Mér þykir það slæmt.

Ég hefði gjarnan viljað sjá breytingar á því, herra forseti. Ég lýsti því yfir við 1. umr. En ég geri mér grein fyrir því að hér er um viðkvæmt mál að ræða. Hæstv. ríkisstjórn sem leggur þetta mál fram var í kröppum dansi og ef menn hefðu farið að koma með miklar breytingartillögur hefði það getað sett þetta mál allt upp í loft. Það er þess vegna sem menn hafa stillt sig um það. Ég mun þess vegna styðja þetta frv. undanbragðalaust þótt ég hefði viljað sjá einhverjar breytingar á einstökum atriðum. Þær eru allar veigalitlar hjá þeirri miklu breytingu sem felst í tengingunni á milli krókapottsins annars vegar og heildarþorskaflans hins vegar.

Herra forseti. Ég er í hópi þeirra sem hafa haft vissar efasemdir um aflamarkskerfið. Ég hef séð á því annmarka og auðvitað má enn sjá á því annmarka. Það er alveg klárt að aflamarkskerfið hvetur til þess við vissar aðstæður að afla sé hent og það er auðvitað mjög slæmt. Ég hef engar patentlausnir á því hvernig hægt er að setja undir þann leka. En ég hafði efasemdir og í upphafi verulegar efasemdir um að aflamarkskerfið hefði líka vísindalegan verndarávinning í för með sér sem hæstv. sjútvrh. og ýmsir aðrir héldu fram. En ég tel að menn verði að horfast í augu við staðreyndir og það er sífellt að koma betri og betri reynsla á aflamarkskerfið. Ég tel að á síðustu 18 mánuðum höfum við séð að kerfið ber árangur. Það er alveg ljóst að það verndar þorskstofninn í hafinu. Hann er núna í vexti. Það er að nokkru marki og sennilega verulegu marki vegna þess að það hefur verið gott árferði í sjónum. En ég velkist ekki lengur í vafa um það, herra forseti, að aflamarkskerfið hefur sannað sig sem verndarkerfi og það er auðvitað afskaplega mikilvægt.

Þeir eru til sem halda því fram, þá er ég sérstaklega að vísa til þeirra sem hafa tekið undir röksemdir útgerðarmannanna sem hafa verið að reyna að þrýsta á stjórnvöld um að falla frá þeim fyrirheitum sem felast í þessu frv., að kerfið, núverandi stjórnkerfi, haldi ekki alveg og það sé sérstaklega sá partur þess sem lýtur að smábátum sem sé stjórnlaus, þar sé gat. En ég tel að eftir að búið er að samþykkja frv. sem hér liggur fyrir sé búið að treysta aflamarkskerfið verulega. Það er ekki fullkomið og menn munu aldrei finna upp fullkomið kerfi fyrir stjórn fiskveiða. Það er aldrei hægt að finna upp fullkomið kerfi fyrir stjórn fiskveiða. En það er alveg ljóst að kerfið er betra en áður, þ.e. hið innra rökgengi þess er betra en áður, það er sjálfu sér samkvæmara og það er alveg ljóst að það eru minni holur í því en áður. Ég þori ekki að fullyrða að það sé algerlega án gata en þau eru miklu minni en áður.

Það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir þessu, ekki síst þeir sem hafa tekið undir röksemdir útgerðarmanna um að þetta frv. muni rýra gildi þess heildarkerfis sem við búum við við stjórn fiskveiða. Því er þveröfugt farið. Þetta frv. styrkir heildarkerfið.