Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:01:35 (6933)

1996-05-31 17:01:35# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, Frsm. 1. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:01]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég harma að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hlustaði ekki betur á ræðu mína áðan eða tengdi hana við annað það sem hann hefur verið að lesa sér til um. Það er alveg rétt sem hv. þm. segir að það er mikill fjöldi báta á sóknarmarki og ekki mikið til skiptanna og þessum bátum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum. Það er það sem ég á við þegar ég tala um fjárfestingarævintýri. Þetta fjárfestingarævintýri hefur ekki orðið til þess að styrkja rekstrargrundvöll smábátaútgerðar, ekki einu sinni þar sem hún er þó mikilvægur þáttur í atvinnulífi. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því og þess gat ég í ræðu minni áðan.

Öll þessi fjölgun á bátum sem síðan eru ekki verkefni fyrir, hefur heldur ekki styrkt smábátaútgerðina. Þess vegna hlýt ég að harma að þetta ævintýri skyldi fara í gang, að það skyldi eiga sér stað og að við skulum nú þurfa að vera að fást við afleiðingar þess. Ef menn hefðu fyrr tekið á þessu hefðum við hugsanlega verið með styrkari smábátaútgerð í landinu en raun ber vitni. Ég vænti að þetta hafi aðeins skýrt afstöðu mína til málsins.