Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:04:37 (6935)

1996-05-31 17:04:37# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, Frsm. 1. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:04]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Ég er handviss um það, herra forseti, að það er hægt að finna ýmislegt í einstökum ályktunum bæði Þjóðvaka og annarra flokka sem rímar ekki við allt það sem hefur verið sagt á Alþingi í vetur. Og þar sem ég vil frekar að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé að vitna í rétta pappíra, þá er það svo að það plagg sem hann var að veifa er stefnuskrá Þjóðvaka þar sem fjallað er um sjávarútvegsmál á bls. 5 og 6. Hitt sem hann vitnaði í var sérstök ályktun gerð af ákveðnu tilefni.

Nú má vel vera að það sé svo í öllum flokkum að þingmenn fari nákvæmlega eftir þeim ályktunum sem gerðar hafa verið, jafnvel árum eftir að aðstæður hafa breyst. Ég hygg þó að svo sé ekki. Þess vegna hef ég kosið, herra forseti, að halda mig við stefnuskrána. Og ef ég les stefnuskrána, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, er málflutningur minn í fullu samræmi við það sem þar stendur. Það er það plagg sem ég byggi á og það er það plagg sem ég hélt að væri fyrst og fremst byggt á í þeim málflutningi sem stjórnmálaflokkar hafa uppi á hv. Alþingi. Ekki einstaka ályktunum sem kunna að vera gerðar heldur stefnuskrá flokksins.