Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:10:31 (6938)

1996-05-31 17:10:31# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, StB
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:10]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Hér hafa farið fram ágætar umræður um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, fróðlegar um margt og ekki síst þær ágætu umræður um hugmyndafræði Grímseyjarkommúnista. Hv. 15. þm. Reykv. sem nú gengur úr salnum kemur ótt og títt og jafnan mjög skemmtilega með tilvitnanir ýmsar úr fylgsnum fyrri alda. En það sem mér finnst standa upp úr í umræðunni af hálfu stjórnarandstöðunnar er að nú vildu að mér heyrist flestir ef ekki allir Lilju kveðið hafa, og finnst mér það mjög ánægjulegt. Það er út af fyrir sig ánægjuleg niðurstaða þegar við fjöllum um það nefndarálit og þær breytingartillögur meiri hluta hv. sjútvn. sem við þurfum að taka afstöðu til í dag.

Þótt ég fylli ekki þann flokk sem kenndur er við Grímsey, fjarri því, þann ágæta stað, get ég sagt það við þessa umræðu að ég er bærilega sáttur við frv. með þeim breytingum sem meiri hluti hv. sjútvn. hefur lagt til að verði gerðar á því.

Nú er til þess að líta að við myndun ríkisstjórnarinnar var reynt að leita samkomulags um mikilvægar breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða. Það tókst að verulegu leyti en það sem sneri að smábátunum var sett að nokkru á ís og er nú komið hér frá ríkisstjórninni í formi breytinga á lögunum og svo aftur breytingartillögur hv. sjútvn. Ég held að sú niðurstaða sem hér er fengin, þótt hún sé vissulega umdeild, sé sá kostur sem er ásættanlegur. En auðvitað er það þannig að hér á hinu háa Alþingi verðum við þingmenn að líta yfir sviðið allt. Við verðum að líta á alla útgerðarflokka og sjávarútveginn í heild þegar við tökum afstöðu. Við getum ekki að mínu mati, ég hef a.m.k. ekki tamið mér þann málflutning, lagst í sérstakan víking fyrir einn hóp á kostnað annarra. En ég tel að það frv. sem hæstv. sjútvrh. mælti fyrir á sínum tíma og hv. sjútvn. hefur fjallað um gangi þann veg að ásættanlegt er.

Það sem ég ætlaði hins vegar sérstaklega að ræða til viðbótar því að lýsa afstöðu minni til þessara breytingartillagna var línutvöföldunin svokallaða, afnám hennar. En áður vildi ég aðeins nefna það, vegna brtt. sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Tómasi Inga Olrich og Árna Johnsen, að ég hefði talið að sú hugmynd sem þar býr að baki hefði verið að ýmsu leyti ákjósanleg leið til þess að milda þessar breytingar sem gerðar eru. Hins vegar er það svo að samkomulag hefur náðst innan meiri hluta sjútvn., samkomulag hefur náðst á milli stjórnarflokkanna og samkomulag hefur náðst við Landssamband smábátaútgerða. Þess vegna get ég ekki stutt þá tillögu. Ég legg mjög mikið upp úr þeirri niðurstöðu og því samkomulagi sem hefur náðst, en vil segja að ég hefði talið að það hefði þurft e.t.v. að fara þá leið eða einhverja svipaða leið og hv. þm. Tómas Ingi Olrich leggur til. Ekkert er óbreytanlegt en ég legg ekki til að það verði gert nú.

[17:15]

Hvað varðar línutvöföldunina þá hef ég verið meðal þeirra sem hafa lagt áherslu á að styrkja línuútgerð. Ég tel að ekki fari milli mála að línuútgerðin hafi verið mikilvæg fyrir mörg byggðarlög og þetta sé fyrir minni báta mikilvægur útgerðarkostur og það hafi sannað sig að mörg byggðarlög hafa átt mjög mikið undir línuútgerðinni. Þess vegna hef ég talið að það ætti að leggja áherslu á hana. Nú hafa hins vegar málin þróast þannig að ég tel að staðan sé á þann veg að það sé eðlilegt að fara þá leið sem sjútvn. leggur til, þ.e. að línutvöföldunin verði lögð af og hluti, 60% af aflareynslu línubátanna, verði færður inn í aflaheimildir þeirra.

Auðvitað er viss hætta á því að það dragi úr línuveiðum. Það væri miður. En ég trúi því að þeir sem hafa stundað línuútgerðina við landið muni flestir halda því áfram. Ástæðan fyrir því að ég felst á þessa breytingu núna er sú að ég horfi til þess að stóru línuskipin, vélabátarnir svokölluðu, mundu éta upp pottinn frá litlu bátunum. Þess vegna tel ég að nú sé ekki eftir neinu að bíða með það að gera þessa breytingu og skapa þar með festu í þessu áður en þessi öflugu skip éta litlu bátana út á gaddinn ef svo mætti segja.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég vil endurtaka það að ég styð þær breytingar sem hér eru lagðar fram. Ég tel að þær séu við okkar aðstæður í dag ásættanlegar. En auðvitað er það þannig að það þarf áfram að líta til þess að gera breytingar á lögum um stjórn fiskveiða þó það sé mikilvægt að stöðugleiki ríki þar. Við þingmenn þurfum því að vera á verði og gera þær breytingar sem við teljum að sé nauðsynlegt að gera í tímans ráðs miðað við breyttar aðstæður.