Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:27:03 (6943)

1996-05-31 17:27:03# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, TIO
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:27]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom við 1. umr. um frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða þá taldi ég að þetta mál væri þannig vaxið að ekki væri hægt að sætta sig við það. Eins og það kemur nú frá hv. sjútvn. af hálfu meiri hlutans hefur það ekki breyst til batnaðar að því leyti er þau atriði varðar sem ég gangrýndi við 1. umr. málsins.

Að sjálfsögðu eru helstu annmarkar málsins fólgnir í því annars vegar að enn er skilið eftir gat, þ.e. gat sóknardagabátanna og engar tryggingar eru fyrir því að þessi galli reynist ekki jafnalvarlegur og fyrri göt sem í lögum um stjórn fiskveiða hafa fundist.

Að vísu er að finna í nál. meiri hluta sjútvn. setningu sem á að skilja sem áminningu til þess aðila sem samdi um þetta frv. við hæstv. sjútvrh. Með leyfi virðulegs forseta, ætla ég að lesa þetta ákvæði.

,,Það frv. sem hér um ræðir byggist á samkomulagi milli Landssambands smábátaeigenda og sjávarútvegsráðherra. Meiri hluti nefndarinnar leggur því áherslu á að ákvæði frv. verði lögfest á þessu þingi. Meiri hlutinn gengur út frá því að Landssamband smábátaeigenda sjái til þess að þeir sem gera út krókabáta standi við samkomulagið, enda er með þessu móti komið mjög til móts við smábátaeigendur. Þá vill meiri hlutinn taka skýrt fram að ekki verða gerðar frekari breytingar á þeim reglum sem gilda um sóknardaga eftir lögfestingu þessa frv.``

Að sjálfsögðu, virðulegi forseti, túlkar þessi hluti nál. áhyggjur meiri hluta sjútvn. af því að Landssamband smábátaeigenda muni ekki standa við þetta samkomulag. Það er verið að vara þetta landssamband við að því verði mætt af mikilli hörku af hálfu löggjafans ef ekki verði staðið við þetta samkomulag. Að sjálfsögðu er ekki að undra þó menn vilji slá slíka varnagla vegna þess að nú þegar eru farnar að heyrast úr röðum smábátaeigenda og forvígismanna þeirra yfirlýsingar um að það þurfi að gera verulegar breytingar á stöðu smábátanna og þeirra samtök muni vinna að því að koma þeim fram.

[17:30]

Ef við tökum einnig tillit til þess hvernig reynslan hefur verið af löggjöf um þessi efni þá hefur það sýnt sig að sú löggjöf hefur alls ekki staðist. Það er ekki svo að það hafi verið allt opið í lögunum um stjórn fiskveiða eins og hér hefur verið þrástagast á. Það er ekki svo. Það voru ákveðin ákvæði sem áttu að tryggja að krókabátarnir færu ekki fram úr sínum afla. Þeim ákvæðum var breytt þegar það kom í ljós að krókabátarnir höfðu veitt miklu meira en reiknað var með að þeir mundu gera. Menn heyktust á að framkvæma lögin. Þetta vita smábátaeigendur. Þeir vita að löggjafinn hefur heykst á þessu. Þær vísbendingar sem smábátaeigendur hafa fengið í viðskiptum sínum við þingið eru þess eðlis að þeir mega gera ráð fyrir því að barátta þeirra muni leiða til árangurs í framtíðinni eins og hingað til.

Sá sem hér stendur er 1. flm. að breytingartillögu við frv. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða ásamt hv. þm. Árna Johnsen. Þessi breytingartillaga hefur þann tilgang fyrst og fremst að ná þríþættu markmiði. Í fyrsta lagi að þeir sem mest hafa aukið afla sinn á sama tíma og heildaraflinn hefur verið minnkaður og kvóti stórlega verið skertur fái skerta hlutdeild í aukningu heildarþorskafla á bilinu 155.000 lestir til 250.000 lestir. En eftir það verði hlutdeild þessara báta, þ.e. krókaleyfisbátanna, óskert.

Í öðru lagi er tilgangur breytingartillögunnar sá að þeir sem hafa orðið að þola mesta skerðingu, þ.e. aflamarksbátar undir 10 brúttólestum, fái hlutfallslega meiri aukningu aflaheimildanna uns 250.000 lesta þorskafli hefur verið heimilaður.

Í þriðja lagi er tilgangur þessarar breytingartillögu að hlutur aflamarksskipa í aukningu frá 155.000 lesta heildarþorskafla allt til 250.000 lesta afla verði meiri en frv. gerir ráð fyrir.

Það er sérstök ástæða til að gera breytingar á frv. í þessa veru vegna þess að það standa engin rök til þess og það er heldur ekki hægt að réttlæta það á neinn hátt að krókabátarnir, hvort sem um er að ræða sóknardagakerfið eða aflahámarkskerfið, að þessir bátar sem hafa verið að ná til sín mestum afla á kostnað annarra skipa, öðlist sömu hlutdeild í aukningunni í framtíðinni og þau skip sem hafa verið að tapa mestu. Það er ástæða til að gera þar á breytingar og skerða þessa hlutdeild þó ég gangi í þessari breytingartillögu til móts við óskir þeirra sem vilja að krókaleyfisbátarnir fái einhverja hlutdeild í aukningunni. Á sama hátt er full ástæða til þess að auka hraðar veiðiheimildir þeirra báta sem hafa orðið að þola mesta skerðingu en það eru aflamarksbátarnir undir 10 brúttólestum. Því er gerð tillaga til þess að á bilinu 155.000 lestir til 250.000 lestir sé sérstök aukning færð þessum bátum, 25% aukning, þ.e. þeir fái hlutinn 1,25 á þessu bili. Þetta hlutfall hefði að sjálfsögðu getað verið meira og er sjálfsagt erfitt að finna eitthvað sem væri hægt að kalla réttlætanleg eða eðlileg mörk. En þessi tillaga er sett nú fram engu að síður til athugunar. Ég tel að hún gangi til móts við þá stöðu sem uppi er fyrir þessi skip. Tillagan í heild leiðir svo til þess að aflamarksskipin sem eru stærri en 10 brúttólestir fá hærra hlutfall af heildarafla á bilinu 155.000 til 250.000 tonn. Kemur það til móts við stöðu þessa hluta flotans.

Þessi tillaga er því þannig úr garði gerð að hún ætti að geta örlítið dregið úr þeirri ósanngirni sem er að finna í frv. Hún ýtir einnig undir það að bátar á sóknardagakerfi sæki frekar í aflahámarkskerfið því hún ívilnar þeim sem sækja í það kerfi.

Hér hefur hv. 4. þm. Norðurl. e., sem lýsti í sjálfu sér alveg réttilega göllunum sem á frv. eru og á afgreiðslu málsins frá sjútvn., minnst á að það væri hægt að fara ýmsar aðrar leiðir til þess koma til móts við þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin. Það er alveg rétt að það er hægt að fara ýmsar aðrar leiðir til að skerða hlutdeild þeirra sem mest hafa tekið til sín í aflaaukningunni á undanförnum árum. Þessar tillögur sem hér eru hafa hins vegar þann kost að þær koma til móts við þessa tvo flokka útgerðar, þ.e. kvótabáta undir 10 brúttólestum og svo almennt kvótaskipaflotann. Þær koma til móts við þennan flota strax og veita honum meiri hlutdeild í aukningunni á ákveðnu bili nú þegar aflinn verður aukinn en síðan verður jöfnuður settur á eftir 250.000 tonn.

Við megum ekki gleyma því að þegar lögin voru sett árið 1990 var gert ráð fyrir því að þeir sem færu á krókaleyfi yrðu háðir mjög miklum takmörkunum. Mönnum bauðst á þeim tíma sá valkostur að vera á krókaveiðum með þeim miklu takmörkunum sem sett voru í lögin ellegar þá að velja aflamark á þeim tíma. Til glöggvunar þingmönnum hef ég sett hér fram í greinargerð sem ég hef dreift í þinginu dæmi um krókaleyfisbát sem hefur staðið frammi fyrir því á fiskveiðiárinu 1990--1991 að velja milli krókaleyfiskerfis og aflamarks. Báturinn sem þarna er um að ræða valdi krókaleyfið og fylgdi síðan þeirri stefnu sem krókaleyfisbátarnir gerðu almennt, þ.e. veiddi langt umfram það sem löggjafinn hafði gert ráð fyrir að heimilað yrði og komst upp í 141 tonn. Á fiskveiðiárinu 1994--1995 veiddi þessi bátur 138 tonn. Samkvæmt þeim reglum sem nú eru lagðar til þá fengi hann kvóta upp á 80 tonn. Hefði þessi bátur hins vegar fylgt ábendingum stjórnvalda sem hvöttu menn til þess að fara í aflamark þá hefði hann fengið í upphafi 14 tonn og væri nú kominn niður í 6 tonn. Auðvitað er þessi floti hinn gleymdi floti sem hér hefur verið rætt um. Frv. í þeirri mynd sem það er nú þegar það kemur frá hæstv. sjútvn. gerir ekki neitt til að bæta hlut þessa flota sérstaklega. Það er ástæða til að gera það. Í þeim tilgangi er þessi breytingartillaga sett fram. Það er alveg ljóst að Alþingi verður að taka upp þessi mál síðar ef breytingartillagan verður felld. Það er óhjákvæmilegt. Nái málið fram að ganga í þeirri mynd sem það er nú þá er um að ræða ófrágengið mál, óleystan vanda sem þingið hlýtur að taka á síðar meir.

Ég vil einnig taka fram að mér finnst nokkuð sérkennilega unnið þegar það er talið vera þessu máli til styrktar að þrýstihópur út í bæ hafi lýst því yfir við þingmenn að hann muni standa við þetta samkomulag, hann muni sætta sig við þetta samkomulag. Mér er ekki kunnugt um að hér sé unnið eftir þeim reglum að menn spyrji aðila úti í bæ hvort farið verði eftir lögunum eða ekki. Það er mjög sérkennilegt ef menn ætla að taka upp þann vinnuhátt hér á Alþingi að alþingismenn eða ráðherrar þurfi að snúa sér til þrýstihópa úti í bæ og spyrja þá að því hvort þeir ætli af miskunn sinni og náð að fara eftir lögunum. Og ef þeir lýsa því yfir að þeir vilji ekki fara eftir lögunum þá hætta menn við lagasetninguna. Ég vil vara við þessum skrefum. Ég held að þau séu ekki sæmandi Alþingi og ég vil undirstrika að ég tel að sá háttur sem hafður hefur verið á við tilurð þessa máls og aðdragandann allan er ekki viðunandi svo ekki sé farið um það sterkari orðum.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, virðulegi forseti. Ég held að greinargerðin sem sett er fram með þessari breytingartillögu skýri sig að mestu leyti sjálf. Ég lýsi því hér með yfir að ég tel að það sé nauðsynlegt vegna eðlis málsins að fyrsti hluti breytingartillögunnar, tölul. 1, verði borinn upp í einu lagi. Það er óhjákvæmilegt efnis málsins vegna. Það er ekki hægt að bera þessa tillögu þannig upp við þingið að greidd verði atkvæði um efnisatriði 1. tölul. breytingartillögunnar hvert og eitt. Það verður að greiða atkvæði um þetta í einu lagi, 1. tölul. Síðan er hægt að greiða atkvæði um 2. tölul. sér. En miðað við efni tillögunnar þá óska ég eftir því mjög eindregið við hæstv. forseta að þannig verði að málinu staðið þegar það kemur hér til atkvæða.