Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:42:37 (6944)

1996-05-31 17:42:37# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:42]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur mjög komið fram í umræðunni um þessi mál að mörgum er til efs að þetta frv. sem byggir á samkomulagi milli sjútvrn. og smábáta fái staðist í framtíðinni. Menn hafa dregið upp miklar hryllingsmyndir af því og vilja meina að ákveðnir þrýstihópar muni strax sprengja það aftur. Ég veit um þennan ótta og ég veit um að margir efast um þetta. Ég vil þó segja það hér og nú fyrir mitt leyti að þegar verið er að festa í lög þessi 13,9% til smábátanna og það fest að 13,9% skuli ganga bæði upp og niður eftir því sem aflaheimildir aukast eða minnka þá get ég ekki séð, ég get að vísu ekki fullyrt um framtíðina en ég get ekki með nokkru móti séð hver ætti að hafa það afl á hinu háa Alþingi í framtíðinni að breyta því. Mér er alveg óskiljanlegt hvernig það ætti að vera. Ég tel því að hér sé verið að kveða upp úr með ákveðna sátt. Hvort hún sé nákvæmlega réttlát eða ekki get ég ekki sagt um enda ætla ég hvorki mér né öðrum að vera handhafar einhvers réttlætis. En menn verða að minnast þess í sambandi við það sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich sagði hér áðan að þeir menn sem hafa ,,aukið mest afla sinn á kostnað annarra``, að það var löggjöfin sjálf sem leyfði alveg frá upphafi kvótakerfisins þar til í fyrravor að skipum af þessari stærð mætti fjölga. Það var leyft og þeir komu löglega inn í landið þannig að þeir sem voru hér fyrir þeir hafa sannarlega orðið fyrir mjög mikilli skerðingu. En það var aukningin í afkastagetunni í þessari stærð, hjá þessum smábátum sem hefur orsakað þessi vandræði. Þannig er sú saga.