Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:48:48 (6948)

1996-05-31 17:48:48# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:48]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Fyrir um það bil ári var mikil spenna hér í lofti í þingsölum og utan þinghússins þegar krókakarlar í hundraðatali streymdu af landinu öllu til að fylgja eftir brýnu hagsmunamáli sínu. Þá var staðan sú að fyrir lá að banndagakerfið gerði það að verkum að ef ekki yrði breytt fengju þeir, ef ég man rétt, liðlega 20 daga til að stunda atvinnu sína. Ljóst var að þar varð að verða á einhver breyting og mjög snarpar umræður urðu innan þingsins og utan. Niðurstaðan var sú að Alþingi samþykkti lög og þar var m.a. gert samkomulag innbyrðis milli stjórnarflokka um að hæstv. sjútvrh. hefði mjög náið samráð við Landssamband smábátaeigenda um útfærsluna. Því var haldið fram í þingsölum að áður en langt um liði kæmi til þess að breyta þyrfti lögunum og það hefur komið á daginn enda hefur hæstv. sjútvrh. haft mjög náið og gott samráð við Landssamband smábátaeigenda og frv. sem hér liggur fyrir er niðurstaða af því samkomulagi. Því ber að fagna.

Eins og hefur komið fram í ræðum manna þá eru skoðanir afskaplega skiptar og sýnist sitt hverjum og hafa nánast flestir lausnir á því hvernig eigi að leysa vanda sjávarútvegs og fiskveiða. Sá er hér stendur hefur rætt við fjölmarga sjómenn og er óhætt að segja að hver og einn þeirra býr yfir lausn, mér liggur við að segja töfralausn, á því hvernig beri að leysa þennan vanda. En lausnirnar eru ólíkar og lausnirnar eru nánast jafnmargar og mennirnir eru margir og síðan skipast þeir niður í hagsmunasamtök. Auðvitað snýst þetta um hagsmuni, mikla og ólíka hagsmuni. Það má ljóst vera að hvert það skref sem stigið er til breytinga á sjávarútvegsmálum mun særa einhvern. Í hverju skrefi finnst einhverjum vera stigið yfir sig og það skref mun særa. Þannig hafa viðbrögð við breytingum í sjávarútvegi ávallt verið og þannig munu þau ugglaust ávallt verða.

Hér er verið að ræða sérstaklega um frv. sem byggir á áðurnefndu samkomulagi milli hæstv. sjútvrh. og Landssambands smábátaeigenda. Þar ber að hafa í huga að sú fjölgun smábáta sem átt hefur sér stað á undanförnum árum er á ábyrgð Alþingis. Hagsmunasamtök, einnig Landssamband smábátaeigenda, vöruðu á sínum tíma við þessari fjölgun og þeirri sprengihættu sem væri fólgin í því sem menn kölluðu óeðlilega fjölgun. Þrátt fyrir það var lítið aðhafst af hálfu löggjafans. Þar af leiðandi ber löggjafinn ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er. Ég tel að samkomulagið taki einmitt mið af því að með því sé hæstv. sjútvrh. og þá um leið þingið að axla þá ábyrgð sem löggjafarsamkoman ber. Að sjálfsögðu eru ýmsir þættir jákvæðir í frv. en mér finnst miklu máli skipta að nú er skilgreint nokkuð nákvæmlega og með meiri nákvæmni en áður hefur verið hverjir falla undir hinn svonefnda krókapott. Nú er búið að greina á milli einstakra veiðarfæra, þ.e. að þeir sem kjósa að stunda færaveiðar eingöngu hafi skilgreiningu til þess og þeir sem kjósi að veiða á færi og línu geti það en þessu tvennu verði ekki blandað saman. Það tel ég gífurlega mikinn ávinning og mikinn kost. En að auki er opnað fyrir ýmsar leiðir sem hafa fram til þessa valdið vandræðum og nægir þar að nefna sl. sumar þegar hvorki meira né minna en þrír bílaleigubílar þurftu að fara með starfsmenn Fiskistofu til að fylgjast með ólöglegu athæfi strangt til tekið sem var sjóstangaveiðimót í Ólafsvík. Nú er opnað fyrir þetta sem og hrognkelsaveiðar. Það er dreginn af allur vafi með þær. Einnig þá bátaeigendur sem kjósa að stunda veiðar í plóg og veiðar á botndýrum.

Síðast en ekki síst er mikilsvert að þeim sem kjósa að stunda smábátaútgerð, þ.e. áhugafólk sem kýs að skjótast út á sinni trillu til að veiða sér í soðið, er það heimilt. Við getum sagt þeir sem kjósa sér þetta sem rómantískan lífstíl í tómstundum geta stundað slíkt áhugamál í friði. Það er að sjálfsögðu jákvætt. Síðan er verið að festa hlutdeild þessa flota í 13,9% af heildarpottinum. Ýmsir sjá ofsjónum yfir því. Það er skiljanlegt eins og áður var nefnt því hér er um ólíka hagsmuni að ræða.

Komið hefur fram í þingræðu að hlutdeild smábátaeigenda hafi vaxið frá 1991 úr 5,6% upp í 13,9% núna. Á móti má benda á tölur sem Landssamband smábátaeigenda hefur teflt fram og heldur því fram að raunaukning sé í rauninni ekki nema liðlega 1%. Munar þar miklu eins og ávallt þegar menn byrja æfingar í talnaleikfimi. Ég tel að það sé nokkuð til í þeirri röksemd sem smábátaeigendur hafa bent á að við þurfum að skoða veiðiflota okkar í heild sinni óháð því hvort hann stundar veiðar sínar innan efnahagslögsögu eða utan hennar. Það má ljóst vera að smábátaeigendur eiga þess ekki kost að stunda veiðar á Flæmska hatti eða í Smugunni og þannig má áfram telja. Miðað við þann afla sem úthafsveiðifloti okkar hefur verið að færa inn fá fulltrúar Landssamband smábátaeigenda þá niðurstöðu að aukningin, raunaukningin, miðað við heildarafla íslenska flotans sé ekki nema rúmlega 1%.

Stórt atriði er að Alþingi ber ábyrgð á þeim mikla fjölda smábátaeigenda sem nú er í flotanum. Ýmsir óttast eins og hér hefur komið fram hið svonefnda gat og sprengihættuna sem er í núv. frv. og því sem byggir á samkomulagi hæstv. sjútvrh. við Landssamband smábátaeigenda. Hins vegar hefur minna verið gert úr þeim takmörkunum sem settar eru inn í frv. m.a. til að stoppa upp í hið meinta gat. Þar nefni ég í fyrsta lagi að nú þegar hafa afkastamestu sjómennirnir þegar valið sig inn í aflamark. Þeir gerðu það sl. sumar eins og fram kom. Í annan stað er skerðingarstuðull fyrir þá sem stunda línu 1,9 yfir sumarmánuðina og 1,3 yfir vetrarmánuðina. Sú skerðing er veruleg og hefur ekki verið bent nógu skýrt á í umræðunni hér. Þá má líka ljóst vera að þeir sem stunda eingöngu færaveiðar eru mun háðari veðri og vindum en þeir sem stunda línuveiðar. Þá nefni ég líka takmarkanir á balafjölda, 12 eða 20 eftir því hvort einn eða tveir stunda veiðarnar eða eru á bát. Ég nefni líka að með framsali í pottinn og með framsali innbyrðis milli báta í pottinum mun það leiða til þess, og fyrir því hef ég heimildir frá ýmsum krókakörlum sem þessar veiðar stunda nú og hafa gert um árabil, mun hreyfingin vera í þá átt að velja sig inn í aflamarkið. Í því felst að sjálfsögðu ákveðin takmörkun. En aðaltakmörkunin er í því sem hér hefur komið skýrt fram og kemur mjög glögglega fram í nál. að um er að ræða frv. sem byggir á samkomulagi við smábátamenn. Það er í fyrsta sinn sem ríkir gagnkvæm sátt milli stjórnvalda og smábátaeigenda. Það heyrir maður í mjög vaxandi mæli meðal smábátamanna að þeir skynja þá ábyrgð sem þeir bera til jafns við stjórnvöld að nú verði að standa við samkomulagið. Það er ekki rétt sem hér hefur komið fram og kom m.a. fram hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Tómasi Inga Olrich, að menn hafi staðið við samkomulag fram til þessa. Það er heldur ekki rétt að tala um krókakarla sem einhvern lobbíhóp út í bæ, hér er um að ræða afkomu þúsunda einstaklinga. Þessi lög sem snerta smábátasjómenn hafa ekki haldið, m.a. vegna þess að þau hafa ekki verið gerð í sátt. Að það ríki sátt á milli stjórnvalda og þessara aðila tel ég vera meginatriði fyrir því að lögin muni halda.

Ég vil þá nefna að auki það sem er afskaplega mikilsvert að með þessu frv. fer fram útför hinna illræmdu banndaga sem settir voru á á sínum tíma en reyndust ekki duga og voru illa þokkaðir meðal sjómanna. Nú eru teknir upp hinir eiginlegu róðrardagar þar sem sjómenn sjálfir ákveða hvernær er róið í stað þess að ákveða brælu með margra mánaða fyrirvara á kontórum í Reykjavík. Þá er mikilsvert að hinn illræmdi viðsnúningur er afnuminn og hver dagur telst 24 klst. Með öðrum orðum þá er tekið út viðkvæmt ákvæði sem var sett sl. vor sem var þannig að ef menn reru út og lentu í brælu og urðu að snúa til hafnar átti dagurinn að teljast með. Ég minni á réttlætismál, sem hefur ekki verið nefnt nógu skýrt í umræðunni, sem felst í því að verði sjómaður svo ólánssamur að missa bát sinn þurfi hann ekki tvöföldun, neyðarrétturinn er eiginlega látinn gilda sem og það ákvæði sem snertir Þróunarsjóðinn að verði skip fyrir verulegum skemmdum, svo sem nýleg dæmi sanna, þannig að menn nái ekki að veiða 50% af kvóta sínum hafi menn sex mánuði til að koma fleyi sínu í lag aftur. Þetta er mikilsvert atriði og er vitað að ýmsir hafa beðið eftir þessu vegna neyðarástands sem ríkt hefur.

Að lokum varðandi krókaþáttinn, smábátahlutann af frv., legg ég áherslu á það og ítreka að hér er niðurstaða sem er fengin í sátt við þá og það er sú sátt sem þarf að halda. Ég trúi því og treysti að allir muni sýna viðeigandi festu og þar af leiðandi muni ákvæðin halda.

Víkur þá að línutvöföldun sem stendur nú til að leggja af. Eins og með smábáta er það afskaplega umdeilt. Nauðsynlegt er fyrir okkur að hafa í huga hver markmiðin með línutvöföldun voru á sínum tíma. Þau voru m.a. að gefa línubátum kost á að útvega gott og ferskt hráefni. En markmiðin voru líka þau að styrkja atvinnu í landi í tengslum við línubátana, t.d. fyrir beitningarfólki. Þróunin hefur hins vegar orðið í aðra átt eins og hefur reyndar komið fram. Vinnan er að færast í vaxandi mæli út á sjó þar sem vélbeiting er notuð. Vélbeitingarskipin koma sér fyrir á bestu miðum og ná langsamlega stærstum hluta aflans. Þannig eru dæmi um aflahæstu skipin sem munu hafa náð 1.100--1.200 tonnum á einni vertíð. Það er einmitt þar sem má segja að markmiðin með línutvöfölduninni upphaflega séu brostin. Þess vegna koma upp þær raddir og kemur það frv. sem er svo afgreitt út úr sjútvn., a.m.k. af meiri hluta, að afnema þessa línutvöföldun. Rökin eru með öðrum orðum fyrir hendi. En þá kemur vandinn: Hvernig á að skipta? Þá eins og vænta má eru hagsmunir miklir en þó er vert að minna á að ekki eru allir sammála því að afnema línutvöföldun. Ég bendi t.d. á fulltrúa frá fiskmörkuðum og ég bendi á ýmsa úr fiskvinnslunni sem telja að með afnámi línutvöföldunar muni línufiskur hverfa m.a. til ferskfiskútflutnings. Síðan kemur að því að deila línutvöföldun og niðurstaðan hefur orðið sú að 60% af pottinum skuli renna til þeirra sem hafa stundað línuveiðar tvö bestu af síðustu þremur árum. Á það hefur réttilega verið bent að ýmsir frumkvöðlar í línutvöföldun, sem stunduðu línutvöföldun jafnvel á fimm fyrstu árunum, en telja sig hafa hrökklast burt að með þessu muni þeir ekki njóta góðs af skiptingu þessara 60%. Ég skal líka gera þá játningu að ég teldi í marga staði eðlilegra að skipta þessu til helminga, 50% til þeirra sem stundað hafa línutvöföldun og 50% renni inn í hinn almenna pott. Niðurstaðan varð þó þessi og við hana verður að una. En þó má færa rök fyrir 60% því þar er þó komið til móts m.a. við þá sem vilja ekki leggja línutvöföldun af að línubátar fá þó stærri hlutdeild í hlut sinn.

Í framhaldi af þessu vil ég víkja örfáum orðum að hinum gleymda flota sem enn einu sinni kemur á dagskrá og virðist vera nokkuð óljóst hvað menn eiga við. Mér finnst ítrekað hafa komið fram að þegar rætt er um hinn gleymda flota vilji menn einungis ræða um aflamarksbáta undir 6 brúttólestum. Ég held að það sé rétt að ítreka það enn einu sinni að hinn gleymdi floti er í mínum huga þeir aflamarksbátar, sem hér um ræðir, en einnig hinir hefðbundnu vertíðarbátar og minni ísfisktogarar. Það er sá floti sem hefur orðið fyrir langsamlega mestri skerðingu með því að þorskaflinn hefur minnkað um allt að 200.000 tonn. En með þeim aðgerðum sem er nú verið að grípa til, þar á meðal afnámi línutvöföldunar, aukningu í þorskveiðiheimildum um 31.000 tonn og það er ekki lítið magn sem og með úthafsveiðifrv., sem verður rætt í næstu viku, er verið að grípa til aðgerða og rétt að nefna það einu sinni, sem munu fyrst og síðast styrkja þennan gleymda flota, vertíðarbáta og ísfisktogara. Um er að ræða með þessum 40% af línutvöföldun, 5.000 jöfnunarpotti og 12.000 tonna og 31.000 tonna aukningu vegna stækkandi þorskkvóta í heild sinni með skerðingu úthafsveiðiskipa, þeirra sem eiga heimildir innan íslenskrar lögsögu en munu fá heimildir utan lögsögunnar, að úthafsveiðiskipin munu þurfa að skila hluta af veiðiheimildum sínum innan lögsögunnar. Að auki hefur hv. þm. Stefán Guðmundsson bent á að í þeim útgerðum, sem eru þó nokkrar hér á landi, sem hafa hvort tveggja í sinni eigu úthafsveiðiskip og vertíðarbáta og ísfisktogara, að með sókn úthafsveiðiskipanna geta þessar sömu útgerðir fært aflaheimildir yfir á vertíðarbáta sína og ísfisktogara. Allt helst þetta í hendur og málin verða að skoðast í heild. Með þessum hætti er í rauninni verið að tala um telst mér til u.þ.b. 50.000 tonna pott sem mun fyrst og fremst koma þeim til góða sem hafa orðið fyrir mestum þorskskerðingum. Það er það jákvæðasta sem er að gerast að þorskkvótinn er að aukast og með þeim frv. sem hafa verið til umræðu munu þetta vera um 50.000 tonn sem kemur hlutfallslega mest í hlut þessa gleymda flota. Menn vita að það munaði um 5.000 tonna jöfnunarpottinn hjá vertíðarbátum. Nú erum við að tala um samanlagðan pott sem gæti hugsanlega numið allt að 50.000 lestum eða tífalt meiri. Ég trúi að hinn gleymdi floti muni vera að styrkjast og vonandi enn frekar á því fiskveiðiári sem kemur þar á eftir því allar forsendur benda til þess að við séum á leið út úr hinu sögulega lágmarki.

Herra forseti. Að lokum er vert að hafa í huga að það stenst ekki að hæstv. sjútvrh. þurfi að ákveða aflaaukningu, kvótaaukningu, fyrir 15. apríl og hljóta menn því að fagna afnámi þeirrar dagsetningar. Við sjáum hvað er að gerast núna á þessu hlýja og góða vori þar sem hitastig sjávar hefur ekki verið jafnhátt í 12 ár. Sem áhugamaður mikill um laxveiði fæ ég þær fregnir að lax nú sé þegar byrjaður að ganga í veiðiárnar og það kemur að sjálfsögðu til af því að nú eru skilyrði betri en oft áður. Hið sama gildir auðvitað um náttúruna að þar eru breytileg skilyrði og þess vegna er órökrétt að vera með fasta dagsetningu inni, 15. apríl, og því eðlilegt að afnema hana.

Herra forseti. Í ræðum manna hefur komið fram að það frv. sem hér er til umræðu er ekki endanlegt. Undir það sjónarmið skal ég taka. Ég trúi því að aldrei verði hægt að standa að endanlegri lagasetningu um jafnflókin mál og fiskveiðar og sjávarútvegur eru. Það eru svo margir óvissuþættir sem þar koma inn. Það eru svo margs konar hagsmunir og lítil breyting á hitastigi, seltustigi, hafstraumum o.s.frv. sem getur haft svo afdrifaríkar afleiðingar á fiskveiðistofna okkar að við hljótum að þurfa að bregðast við því. Þess vegna munum við aldrei ná hinni endanlegu stöðu í stjórnun fiskveiða okkar. En ég vonast til að þetta frv. megi renna hratt og vel í gegnum þingið.