Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 18:28:20 (6951)

1996-05-31 18:28:20# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, Frsm. meiri hluta VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[18:28]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum og nál. vegna tveggja frv. Annað er frv. til laga um breytingu á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum. Hitt er frv. til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Efh.- og viðskn. sendi þetta mál til umsagnar ýmissa aðila og fékk síðan umsagnir frá þeim. Nokkrir komu á fund nefndarinnar og gerð er grein fyrir þessu í nál. á þskj. 1089.

Með lagafrumvarpi þessu eru lagðar til verulegar breytingar á álagningu vörugjalds. Tilgangur frv. er að koma til móts við þær athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur gert við lög nr. 97/1987, um vörugjald. Stofnunin telur lögin brjóta gegn 14. gr. EES-samningsins að tvennu leyti. Annars vegar með því að greiðslufrestur vörugjalds er mismunandi eftir því hvort um er að ræða innfluttar vörur eða innlendar framleiðsluvörur þar sem greiða ber gjald af innfluttum vörum við tollafgreiðslu en ekki fyrr en við sölu innlendra framleiðsluvara. Hins vegar með því að mismunandi gjaldstofn er fyrir innfluttar vörur og innlendar framleiðsluvörur þar sem 25% áætlað heildsöluálag er lagt á tollverð innfluttra vara að viðbættum tollum en ekki er um sambærilegt álag á innlendar framleiðsluvörur að ræða.

[18:30]

Meiri hluti nefndarinnar flytur breytingartillögur í tíu liðum við þetta frv., þ.e. frv. um vörugjald, en hins vegar gerir meiri hluti nefndarinnar engar tillögur til breytinga á frv. um virðisaukaskatt. Ég mun nú gera grein fyrir þessum breytingartillögum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til.

Í 1. lið breytingartillagnanna er gerð breyting á 3. gr. Þessi tillaga er fyrst og fremst tæknilegs eðlis og varðar skráningu á gjaldskyldum aðilum.

Í 2. lið breytingartillagnanna er lagt til að á eftir 3. gr. komi ný grein sem fjallar um skráningu aðila: Aðilar sem flytja inn eða kaupa innan lands gjaldskyldar vörur til heildsölu geta fengið sérstaka skráningu hjá skattstjóra og fjallað er um þau skilyrði sem því fylgir. Enn fremur er innlendum framleiðendum ætlað að skrá sig.

Í 3. lið breytingartillagnanna er tæknileg breyting varðandi reglur sem ríkisskattstjóri þarf að gefa út um mat á verði á vörum sem seldar eru milli skyldra aðila.

Í 4. lið breytingartillagnanna er breyting á 6. gr. þar sem gert er ráð fyrir að tollstjórar skuli reikna vörugjald af gjaldskyldum vörum sem aðilar, aðrir en þeir sem skráðir hafa verið skv. 5. gr., flytja til landsins.

Í 5. lið er gerð breytingartillaga við 7. gr. þannig að það koma inn fjórar nýjar málsgreinar í stað 2. og 3. efnismgr. Þar er gert ráð fyrir því að innflytjendur sem flytja vörur til landsins til endursölu, aðrir en þeir sem jafnframt eru skráðir skv. 5. gr., skuli eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs vörugjald af gjaldskyldum vörum sem voru tollafgreiddar á uppgjörstímabilinu. Aðilar, sem flytja gjaldskylda vöru til landsins til eigin nota, skulu greiða vörugjald við tollafgreiðslu.

Innlendir framleiðendur skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótvilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs vörugjald af gjaldskyldum vörum sem voru seldar eða afhentar á tímabilinu. Þó skal ekki greiða vörugjald af vörum sem voru seldar án vörugjalds til skráðra aðila skv. 5. gr.

Aðilar, sem skráðir eru skv. 5. gr., skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs vörugjald af þeim vörum sem þeir hafa keypt eða fengið tollafgreiddar á tímabilinu eða voru til staðar í birgðum í upphafi uppgjörstímabils en eru ekki til staðar í birgðum við lok uppgjörstímabils samkvæmt birgðabókhaldi. Þó skal hvorki greiða vörugjald af þeim vörum sem vörugjald hefur þegar verið greitt af né af vörum sem voru seldar án vörugjalds til annarra skráðra aðila skv. 5 gr.

Gjaldskyldir aðilar skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils skila vörugjaldsskýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður vegna vara sem greiða ber vörugjald af á uppgjörstímabilinu. Jafnframt skal tilgreina í skýrslunni sölu á gjaldskyldum vörum án vörugjalds til aðila sem eru skráðir skv. 5. gr. Skattstjóri skal áætla vörugjald af viðskiptum þeirra aðila sem ekki skila skýrslu innan tilskilins tíma, senda enga skýrslu eða ef skýrslu eða fylgigögnum er ábótavant. Skattstjóri skal tilkynna innheimtumanni og gjaldskyldum aðila um áætlanir og leiðréttingar sem gerðar hafa verið.

Hæstv. forseti. Þetta er meginbreytingin sem meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerð verði á frv. Ég hygg að með þeirri breytingu sem hér um ræðir sé staðið þannig að málum við innheimtu þessa gjalds að það stríði ekki með neinum hætti gegn EES-samningnum. Eftir stendur að sjálfsögðu hins vegar spurningin um þá mismunun sem í gjaldinu felst sem að mínu áliti er á afar hæpnum forsendum, svo ekki sé meira sagt. Sú mismunun er hins vegar spurning um pólitíska ákvörðun sem tekin er á Alþingi og hefur þá stuðning ríkisstjórnar á hverjum tíma, en getur í sjálfu sér staðist þá alþjóðaamninga sem við höfum gert.

Mín skoðun er sú að á næstu árum hljóti menn að leita leiða til þess að hverfa frá álagningu vörugjaldsins eins og hægt er og taka upp almenna skattlagningu í stað þess að mismuna með þeim hætti sem vörugjaldið gerir.

Í 6. lið breytingartillagnanna er gerð brtt. við 9. gr. sem varðar kæruatriði.

Í 7. lið er lagt til að 10. gr. orðist svo: ,,Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum um gjaldskyldu, álagningu, tillhögun bókhalds, eftirlit, viðurlög og aðra framkvæmd varðandi vörugjald skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði tollalaga og laga um virðisaukaskatt.``

Síðan er í 8. lið smábreyting. Þar er verið að breyta tilvísunum. Í 9. lið eru breytingar við 11. gr. frv. varðandi tollskrárnúmer. Þetta eru breytingar á viðauka I. Hér er fyrst og fremst um tæknilegar breytingar að ræða. Efnisbreytingarnar felast fyrst og fremst í því að fellt er niður vörugjald af einangrunarefnum og vörugjald á kaffi og tei lækkað. Aðrar breytingar eru fyrst og fremst tæknilegar.

Þá er lagt til í 10. lið að við ákvæði til bráðabirgða bætist ný málsgrein sem felur í sér lengingu á fyrsta uppgjörstímabilinu. Þetta er fyrst og fremst til þess að skattyfirvöld geti undirbúið sig betur undir þá breytingu sem hér er á ferðinni.

Hæstv. forseti. Í frv. til laga um virðisaukaskatt sem fylgir með frv. um vörugjaldið er gert ráð fyrir því að endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingarstað verði lækkuð. Þetta er nauðsynlegt til þess að fjármagna þá breytingu sem verður á vörugjaldinu. Það var óhjákvæmilegt að sú breyting hefði í för með sér nokkra tekjulækkun hjá ríkissjóði, fyrst og fremst þar sem verið var að breyta verðgjöldum yfir í magngjöld. Ef þessi breyting hefði alfarið verið látin koma fram í vörugjaldinu sjálfu hefði það þýtt að innlendar framleiðsluvörur og ýmsar innfluttar vörur sem eru mjög ódýrar hefðu hækkað allverulega. Það var talið að slíkt hefði mjög óæskileg áhrif, fyrst og fremst vegna þess að ætla má að þessar ódýru vörur séu helst keyptar af þeim sem hafa kannski minni efnin. Því var það svo að það var engin einföld útgönguleið til að fjármagna þá breytingu eða það tekjutap sem af þessu frv. hlaust og var endað á þessari leið. Ég get í sjálfu sér ekki sagt að ég mæli með því að gera þetta með þessum hætti, en því miður fannst ekkert annað betra og þess vegna enda menn með því að þurfa að samþykkja þessa breytingu.