Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 20:59:08 (6957)

1996-05-31 20:59:08# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[20:59]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki verið að véla hv. þm. Steingrím J. Sigfússon til eins eða neins. Steingrímur J. Sigfússon er fullkomlega maður til þess að taka þátt í málefnalegri vinnu í efh.- og viðskn. eins og hann gerir í sambandi við þetta mál og önnur mál. Það hefur verið góð samstaða í þeirri ágætu nefnd milli mín og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar og nú hinar síðustu tvær vikur við Sighvat Björgvinsson. Það hefur ekki borið nokkurn skugga á það samstarf og ég skil ekki alveg málflutning þingmannsins. En látum það vera.

Ég bendi hins vegar á að í nefndaráliti okkar komum við með miklar athugasemdir um vörugjaldsfrv. Við nefnum að það er hægt að taka styttri skref í þessu máli. Það hefði þurft að breyta þessu öðruvísi í sambandi við flokkana. Það hefði átt að nota vinnu starfshópsins, sem ég fór ítarlega yfir í ræðu, og það hefði þurft að útfæra betur varðandi öryggistæki sem var bent sérstaklega á í nefndinni. Þetta eru tiltekin atriði sem að okkar mati hefði þurft að skoða betur. Við höfum hins vegar lagt áherslu á að standa við alþjóðlega samninga. Við sitjum hjá við vörugjaldsmálið. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og illa útfært mál. Gagnrýnin er á seinna málið sem er líka til umræðu, mjög hörð gagnrýni varðandi þann þátt. Hér er eðlilega að verki staðið og ég ber blak af öllum mínum nefndarmönnum í stjórnarandstöðunni hvort sem það er Steingrímur J. Sigfússon, Sighvatur Björgvinsson eða Jón Baldvin Hannibalsson, svo ég nefni mína helstu samstarfsmenn í efh.- og viðskn. Það samstarf hefur verið allt til fyrirmyndar og málið liggur vonandi ljóst fyrir.