Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 21:16:50 (6959)

1996-05-31 21:16:50# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[21:16]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þm. vil ég taka fram að það er í sjálfu sér ekkert einhlítt hvernig haga beri tekjuöflun eða tekjutilfærslum í kringum þessa breytingu sem verið er að gera. Það er í sjálfu sér enginn kostur góður í þeim efnum. En ég hygg að þó hafi verið illskást að fara þá leið sem farin er, þ.e. að draga úr endurgreiðslum á virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingarstað.

Varðandi vörugjaldskerfið sjálft verð ég að segja að ég undrast oft hvað hv. þm. býður sig fram í því að vera sérfræðingur í því að mismuna svo milli vörutegunda eins og fram kemur í vörugjaldskerfinu yfirleitt. Þessi vörugjöld hafa tel ég verið ein stærstu mistök sem hafa verið gerð í okkar skattkerfi, því miður. En það er jafnerfitt að komast út úr því eins og það var kannski auðvelt að byrja á því.

Varðandi snyrtivörurnar sem hann býsnaðist t.d. mikið yfir, þá ætla ég ekki að halda því fram að hv. þm. skilji ekki konur í því sambandi. En hins vegar vil ég benda honum á að töluvert stór hluti af versluninni einmitt með snyrtivörur er farinn úr landinu og er á vegum ríkisins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég hygg að markaðshlutdeildin þar sé líklega milli 40% og 50% af öllum snyrtivörumarkaði í landinu. Það segir sig náttúrlega sjálft að það eru kannski ekki svona efnaminni konur sem stunda þá verslun heldur þær sem hafa meira á milli handanna og ferðast eða eins og stundum kemur fyrir að þegar við hv. þm. erum á leið til útlanda, þá erum við látnir hafa innkaupalista hjá kvenfólkinu í fjölskyldunni þannig að við komum nú ekki tómhentir heim.