Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 21:27:48 (6964)

1996-05-31 21:27:48# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[21:27]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þá var þetta ekki síður dónalegt að fá þessa röksemdafærslu hér. Hún er af nákvæmlega þessum sama toga og við vorum að rökræða áðan, ég og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Ég get alveg snúið dæminu við og spurt hv. þingmenn. Úr því að hv. þingmenn eru svona sannfærðir um að vörugjöldin séu svona óréttlát og þessi neyslustýring sé svona óréttlát eða að það sé svona vitlaust að vera yfirleitt að endurgreiða virðisaukaskatt á byggingarstað, af hverju á þá að gera það að hluta til? Af hverju er þá ekki hv. þm. Vilhjálmur Egilsson samkvæmur sjálfum sér og leggur til að vörugjöldin öll verði lögð af? Af hverju styður hv. þm. þá vörugjöldin bara ef þau eru pínulítið lægri en þau hafa verið? Það er ekki í samræmi við hans heitu sannfæringu um hversu vond öll þessi neyslustýring sé og óréttlát öll þessi gjaldtaka sé. Með alveg sömu rökum má segja: Ætlar þá hv. þm. Pétur H. Blöndal að styðja að 60% verði endurgreidd ef það veldur því að vinna af verkstæðum er að færast út á byggingarstað? Það getur vel verið að það sé í einhverjum mæli hvatning til slíks. En ég bendi á að hvort tveggja er uppi á yfirborðinu með þeim hætti. Það er ekki að hverfa undan skattskilum. Það færist að vísu kannski þarna yfir, en það kemur til skila. Og ef virðisaukaskatturinn af viðkomandi verkefnum er endurgreiddur, þá koma væntanlega vinnulaun og annað því um líkt sem verkefnunum tengist jafnframt til skila og er líka talið fram. Liggur það ekki í hlutarins eðli? Hv. þm. veit hvernig reikningarnir eru sundurliðaðir sem menn þurfa að fara með til að fá virðisaukaskattinn endurgreiddann, er það ekki? Þar kemur fram hvað er efni og hvað er vinna, eðlilega. Á því byggir endurgreiðslan. Ég held því að málið sé þá í öllu falli þannig að kerfið eins og það var er helt að því leyti til að það verkar hvetjandi til þess að öll þessi umsvif og velta séu uppi á yfirborðinu. Þó það verði ekki nema 10% skattlagning sem komi þarna til sem ekki er endurgreidd, þá eru þó þau 10% til skiptanna fyrir þá sem ekki telja þetta fram.