Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 21:35:24 (6967)

1996-05-31 21:35:24# 120. lþ. 157.6 fundur 442. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (álagning, eftirlit o.fl.) frv. 68/1996, Frsm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[21:35]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til umsagnar nokkra aðila. Hún fékk á sinn fund fulltrúa úr fjmrn. Nefndin gerir tillögu til breytinga í fjórum liðum. Helstu brtt. eru eftirfarandi:

Í 1. lið brtt. eru lagðar til nokkrar breytingar á 4. gr. Lagðar eru til tvær breytingar á greininni. Annars vegar er lögð til breyting á fjárhæð árgjalds þungaskatts af bifreiðum sem nota annan orkugjafa en bensín og eru allt að 4.000 kg að leyfðri heildarþyngd. Tillagan gerir ráð fyrir að gjaldflokkur bifreiða allt að 999 kg lækki úr 103.309 kr. í 94.273 kr. og að gjaldflokki 1.000--1.999 kg verði skipt upp með þeim hætti að fyrir bifreiðar frá 1.000--1.499 kg lækki gjaldið úr 132.053 kr. í 113.163 en verði áfram 132.053 kr. fyrir bifreiðar frá 1.500--1.999 kg. Hins vegar er lagt til að c-liður falli brott. Er þar ekki um efnisbreytingu að ræða.

Í 2. lið brtt. eru lagðar til breytingar á 8. gr. Lagðar eru til tvær breytingar á greininni. Annars vegar er lögð til breyting varðandi daglegan aflestur af ökumælum. Fram hafa komið upplýsingar um að erfitt sé að lesa af ákveðnum tegundum ökumæla. Til að bregðast við því vandamáli er lagt til að ef ökutæki er búið annars konar ökumæli en ökurita sé einungis skylt að lesa af vikulega og skrá í akstursbók. Til að tryggja samræmi og öryggi við álagningu skattsins er ökumönnum þessara ökutækja þó gert skylt að skrá kílómetrastöðu hraðamælis daglega í akstursbók. Hins vegar er lagt til að fjármálaráðherra verði veitt heimild til að ákveða með reglugerð að sérreglur gildi um skráningu í akstursbók vegna notkunar eftirvagna.

Eftirvagnar eru oft ekki í notkun í marga mánuði á ári og jafnvel ekki alltaf notaðir af sama aðila. Því er talið nauðsynlegt að settar verði sérreglur um skráningu á akstri þeirra.

Í 3. lið brtt. er breyting við 14. gr. Lögð er til breyting á ákvæði 2. mgr. 11. gr. laganna þannig að lögveðréttur fylgi einungis þungaskatti og álagi en ekki sektum, en töluverð gagnrýni hefur komið fram vegna þess.

Í 4. lið eru lagðar til breytingar á 15. gr. Lagðar eru til þrjár breytingar á ákvæðinu. Í fyrsta lagi er lagt til að aðeins verði áætlaðir 2.000 km á mánuði á fólksbifreiðar sé ekki komið með þær til aflestrar á tilskildum tíma, en ekki 8.000 km eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ljóst þykir að fólksbifreiðum er að jafnaði ekið mun minna en atvinnubifreiðum. Hagsmunir ríkissjóðs eru því ekki eins miklir ef vanrækt er að koma með fólksbifreið til aflestrar á tilskildum tíma. Þá er í öðru lagi lagt til að álag verði lækkað úr 20% í 10%. Sú breyting er í samræmi við breytingar sem verið er að gera á öðrum skattalögum. Til viðbótar þessu er svo lagt til að sex ára refsihámark í viðurlagaákvæði frumvarpsins verði fellt brott.

Hæstv. forseti. Þetta eru brtt. efh.- og viðskn. við þetta frv. til laga um fjáröflun til vegagerðar.