Tóbaksvarnir

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 21:43:59 (6971)

1996-05-31 21:43:59# 120. lþ. 157.12 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, Frsm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[21:43]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er táknrænt að flm. þeirrar brtt. sem mælt var fyrir áðan slekkur öll ljós þegar ég kem hér í ræðustól. Ég byrja þar, herra forseti, að greina frá því að varnir gegn tóbaksnautninni hafa verið margvíslegar og miklar í gegnum aldirnar. Er þar kannski fyrst frá að segja að það var prófastur Björn Halldórsson í Sauðlauksdal sem reyndi að skera kál kartöflujurtarinnar niður og fá menn til þess að neyta í tóbaks stað til að sporna gegn tóbaksnautninni. Ég hef ekki þá lífsreynslu að ég geti dæmt það af sjálfum mér hvernig það tókst og veit í sjálfu sér ekki hvort hv. þm. Sigríður A. Þórðardóttir hefur nokkurn tímann reynt að reykja kál kartöfluplöntunnar. Hitt veit ég að ég er eins og hún sammála því að menn skuli freista þess eins og hægt er að sporna við óhóflegri tóbaksnotkun.

[21:45]

Hvað er hið versta við tóbakið eins og við þekkjum það í dag? Það er auðvitað reyktóbakið. Við vitum að það skerðir líf manna. Nýlegar bandarískar rannsóknir sýna fram á að þeir sem reykja munu að meðaltali lifa níu árum skemur en þeir sem ekki reykja. Hver eru áhrif munntóbaksneyslu á lífslíkur manna? Nýleg rannsókn var gerð af háskólanum í Alabama í kringum 1990 og tók til mjög margra manna. Hóparnir sem rannsóknin náði til voru þrír. Það voru í fyrsta lagi þeir sem neyttu reyktóbaks, í annan stað þeir sem neyttu munntóbaks og í þriðja lagi þeir sem neyttu einskis tóbaks. Það kom í ljós að það var enginn marktækur munur á lífslíkum þeirra sem neyttu munntóbaks og þeirra sem ekki neyttu neins tóbaks. Hins vegar lifðu þeir sem neyttu reyktóbaks að meðaltali níu árum skemur en þeir sem annaðhvort neyttu ekki tóbaks eða þeir sem neyttu munntóbaks.

Af þessu má draga þá ályktun, herra forseti, að a.m.k. það munntóbak sem neytt er í því landi sem rannsóknin náði til, þ.e. Bandaríkjunum, sé þess eðlis að það sé ekki líklegt til þess að hafa áhrif á heilsu manna.

Það er sennilega eitt land sem öðrum löndum fremur er þekkt fyrir munntóbaksneyslu og það er Svíþjóð. Eins og menn sjálfsagt rekur minni til lá við að sjálft Evrópusambandið riðlaðist og Svíar höfnuðu inngöngu þegar við borð lá að bannað yrði að nota munntóbak í Svíþjóð ef Svíar gengju í Evrópusambandið. Nýlokið er rannsókn við Södre Sjukhuset í Stokkhólmi sem dr. Freddi Lewin hefur unnið. Niðurstaðan er ekki enn birt. Dr. Freddi Lewin hefur góðfúslega sent helstu niðurstöðurnar til heilbr.- og trn. hins háa Alþingis. Þær gefa til kynna að enginn marktækur munur sé á lífslíkum þeirra sem neyta að staðaldri munntóbaks og hinna sem ekki neyta neins tóbaks. Það sé enginn marktækur munur á munnkrabbameini eða krabbameini í munnholi og nefholi þeirra sem neyta munntóbaks annars vegar og hinna sem neyta ekki neins tóbaks. Það sé enginn marktækur munur á tíðni krabbameins í þessum hlutum og svæðum líkamans hjá þeim sem neyta munntóbaks mjög oft og þeirra sem neyta þess sjaldan. Af þessu er hægt að draga þá ályktun, herra forseti, að munntóbaksneysla Svía sé þess eðlis að hún leiði ekki til minni líka á góðu og farsælu lífi.

Herra forseti. Ég hef aldrei orðið þeirrar reynslu aðnjótandi, sem ég veit hins vegar að hv. frsm. hinnar tillögunnar hefur reynslu af, að neyta munntóbaks eins og ég er viss um að hv. þm. Sigríður A. Þórðardóttir er fús til að miðla í ræðum sínum á eftir. Ég veit ekki hvernig það er að neyta slíks tóbaks, ég þekki ekki þá nautn sem því fylgir. En hv. þm. Sigríður A. Þórðardóttir hefur meiri reynslu af því en við. Má vera að við kunnum einhvern lærdóm af því að draga. Hún er hins vegar fagurlega tennt og falleg til munnsins þannig að ég get ekki dregið neina ályktun af því af afar skammvinnri reynslu hennar af munntóbaki þá hafi hún hlotið nokkurn skaða og greinilega ekki varanlegan. En það er önnur saga, herra forseti.

Þegar ég og ýmsir fleiri hv. þm. fluttum breytingartillögu við fyrri umræðu málsins, þ.e. við 2. umr. um frv. til laga um breytingar á lögum nr. 74/1984, sem fjalla einmitt um tóbaksvarnir, féll tillaga um að ekki yrði bannað að framleiða, selja eða flytja inn munntóbak. Það voru 28 þingmenn sem greiddu atkvæði gegn henni. En við hinir víðsýnu og frjálslyndu sem vildum ekki skerða þennan hefðbundna rétt Íslendingsins til að taka í vörina vorum 24. En það ber að hafa í huga, herra forseti, að í hópi okkar var t.d. hv. þm. Jón Kristjánsson, ritstjóri Tímans sem er dagblað hér í borg, og við höfðum þá hugfast að í greinargerð með frv. til tóbaksvarnalaga stóð svart á hvítu að samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins væri bannað að framleiða, flytja inn og selja munntóbak af tilteknu tagi, þ.e. fínkornótt o.s.frv. Við trúðum þessu að sjálfsögðu. Síðan hefur komið í ljós, fyrst og fremst fyrir atbeina og atorku hv. þm. Sigríðar A. Þórðardóttur, sem á hrós skilið fyrir framtak sitt í þessu máli, að þær staðhæfingar sem er að finna í greinargerð, herra forseti, með þessu frv. þær eru rangar og á misskilningi byggðar. Það er svo að Ísland, Noregur og Svíþjóð hafa algeran fyrirvara, sérstaka bókun um það, að þetta bann við neyslu fínkornótts munntóbaks nær ekki til þessara landa. Ég vil nota þetta tækifæri, herra forseti, og þakka minni ágætu meðnefndarkonu, hv. þm. Sigríði A. Þórðardóttur, sérstaklega fyrir það frumkvæði sem hún hefur sýnt. Það sýnir hins vegar það, herra forseti, ef þetta hefði verið á vitorði þingheims þegar við greiddum atkvæði um munntóbakstillöguna hefðu atkvæði auðvitað fallið með öðrum hætti en raun varð á. Fjöldi þingmanna taldi sér ekki fært annað en að greiða atkvæði gegn munntóbakstillögunni vegna þess að menn töldu eðlilega að þær staðhæfingar sem var að finna í greinargerð frv. væru réttar. Auðvitað er það eðlilegt. Menn telja jafnan að það sem komi fram í greinargerðum með frv. hæstv. ríkisstjórnar hverju sinni sé rétt. Það má alls ekki skilja mín orð þannig að ég sé að ásaka ráðuneytið um að hafa vísvitandi gefið rangar upplýsingar og enn síður hina ágætu tóbaksvarnanefnd um að hafa gefið rangar upplýsingar. Þarna er bara eins og gerist stundum, herra forseti, að jafnvel hinu besta fólki getur skjöplast og orðið á. Þarna hefur einhvers konar misskilningur orðið. Þetta veldur því að hefðu menn haft staðreyndirnar frammi fyrir sér þá hefði að öllum líkindum þetta ágæta frv. um tóbaksvarnir verið samþykkt með þeirri breytingu sem lögð var fram og margir hv. þm. treystu sér ekki til að styðja, brtt. um munntóbakið, vegna þess að þeir töldu að þarna væri brotið í bága við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Nú liggur allt annað fyrir, herra forseti.

Hins vegar höfðum við nokkrir þingmenn áður en þessi misskilningur heilbrrn. varð uppvís lagt fram sértaka tillögu, svohljóðandi: ,,Þó skal 5. efnismgr. 3. gr. um bann við innflutningi og sölu munntóbaks ekki taka gildi fyrr en í lok ársins 2000.``

Það er svo, herra forseti, að árið 2000 skiptir talsverðu máli fyrir það frv. til tóbaksvarnalaga sem hér liggur fyrir vegna þess að við höfum einmitt gert þá brtt. við eina grein frv. að fyrir lok þessa árs, ársins 2000, skuli forstöðumenn stofnana ríkisins í samráði við starfsfólk hafa gert áætlun og hrint henni í framkvæmd um afnám tóbaksneyslu innan vébanda stofnunarinnar og tímapunkturinn er lok ársins 2000. Við teljum að eðlilegt sé að fresta því banni sem búið er að samþykkja við innflutningi og sölu á munntóbaki við 2. umr., fresta því og láta það ekki taka gildi fyrr en í lok ársins 2000. Á þessum tíma geta menn velt því fyrir sér hvort það sé rétt að banna munntóbak.

Ég hvet þingheim til að samþykkja þessa tillögu. Hins vegar lýsi ég því yfir að ég fagna því ágæta frumkvæði hinnar atorkusömu hv. þingkonu, Sigríðar Önnu Þórðardóttur að leggja til að skroið, hið hefðbundna munntóbak Íslendingsins verði leyft um aldur og ævi. Við treystum okkur ekki til að ganga svo langt í fylgilagi okkar við munntóbaksneyslu og út af fyrir sig má segja að hv. þingkona sýni þarna nokkurt áræði. Við treystum okkur ekki á þessu stigi málsins til að leggja það til að skroið verði leyft um aldur og ævi en við leggjum til að það, herra forseti, ásamt öðru munntóbaki verði leyft til loka ársins 2000 og í millitíðinni geti menn, að sjálfsögðu í góðu samkomulagi við tóbaksvarnanefnd, reynt að finna einhvers konar málamiðlun í þessu sem gæti leitt til þess að þegar upp væri staðið yrðu allir sáttir. Bæði við flutningsmenn þessarar tillögu sem gengur miklu skemur en tillaga hv. þingkonu Sigríðar Önnu Þórðardóttur og má vera að við mundum ná einhverju samkomulagi við hana sem og tóbaksvarnanefnd. Því má ekki gleyma að sá sem hér stendur hefur haft frumkvæði að því ásamt öðrum ágætum nefndarmönnum í heilbr.- og trn. að aflað er meira fjár til tóbaksvarna, miklu meira en áður hefur verið lagt fyrir nefndina. Frv. er að mörgu leyti hert til muna, bæði hinn löglegi tóbakskaupaaldur og auk þess má nefna að ég hefði út af fyrir sig eins og ýmsir aðrir verið til í að setja miklu strangari viðurlög við þeim sem brjóta það ákvæði um lágmarksaldur til tóbakskaupa en er að finna í frv.

Ég ætla ekki að fara að hrista þann bát sem þetta frv. er á þessu stigi umræðunnar og leggja fram slíka tillögu. En eitt vil ég segja, herra forseti, ég tel að ég og aðrir sem um þetta hafa vélað höfum lagt okkar af mörkum til að efla tóbaksvarnir í landinu. Ég segi það hreinskilningslega að það frv. sem kom fyrir þingið gekk allt of skammt í mörgum efnum og nefndin tók af skarið og hún hefur hert það í mörgum efnum. En ég viðurkenni að mér er sárt um það að við ætlum á þessu þingi að fara að banna mönnum innflutning og sölu munntóbaks og þess vegna legg ég til, herra forseti, að við geymum þetta til loka ársins 2000 og reynum að leggja saman höfuð til að finna einhvers konar samkomulag um þetta. Því má heldur ekki gleyma ef það reynist vera svo að munntóbak verði einhvers konar hætta, einhvers konar neyslufaraldur, að alltaf er hægt að grípa í taumana og breyta lögunum. Við skulum ekki gleyma því heldur, herra forseti, að það hefur komið fram hvar tóbaksneysla er að aukast í dag. Það er ekki endilega munntóbakið, það má kannski með einhverju móti mátt segja það hafi verið hið fínkornótta neftóbak sem við höfum fallist á að banna. Að vísu kom fram að á síðasta ári dró heldur úr neyslu þeirrar tegundar tóbaks. Mér sýnist að á fyrstu þremur eða fjórum mánuðum þessa árs hafi sú þróun ekki haldið áfram. En við vitum hvar aukning tóbaksneyslu er í dag. Hún er hjá unglingsstúlkum. Þar er þar sem við eigum að reyna að beita áróðri, forvörnum og fjármagni. En ég tel að þetta munntóbaksbann, sem verið er að leggja til, skipti engu máli þar og það sé allt of langt seilst til að hafa stýringu á hegðan fólks. Ég segi það til að hafa alla hluti á hreinu að ég persónulega og örfáir aðrir þingmenn vorum líka á móti því að banna fínkornótt neftóbak. Ég hafði um skeið, herra forseti, verið ofurseldur þeirri nautn sem felst í því að neyta þess tóbaks. Lauk henni fyrir sex mánuðum. Mér var sagt að dýpsta og versta tóbaksnautnin væri að neyta þessarar tegundar tóbaks. Það gekk giska vel hjá mér sem er þó þekktur fyrir óstöðuglyndi og fyrir að vera ekki staðfastur í því að láta á móti mér. En mér tókst það eigi að síður í fyrstu atrennu og hef ekki látið undan síga. Það kostaði að vísu raunir og má kannski segja það, herra forseti, í þessum fámenna þingheimi, að ég var meðvitundarlaus sem svaraði kannski einni viku. Ég hafði beinverki í þrjár til fjórar vikur og ég svaf ekki heila nótt í svona fjórar til fimm vikur. Stundum vissi ég ekki hvað maðurinn hét sem ég var að tala við, jafnvel þótt það væri náinn ættingi minn. Þar fyrir utan gekk það vel.

Þannig að þótt sú nautn kunni að vera djúp og erfið sé jafnvel hægt fyrir þá sem eru veiklyndir eins og sá þingmaður sem hér stendur að brjóta helsi þeirrar nautnar af sér. (Gripið fram í: Hvað dreymdi þingmanninn?) Það er þó ekki, herra forseti, nein rök fyrir því að menn eigi að samþykkja þessa tillögu mína. Ég tel einfaldlega að það séu lítil efnisrök sem séu með því að banna neyslu, innflutning og sölu munntóbaks. Og ég bið a.m.k. hinn ágæta þingheim að bíða með það þangað til í lok ársins 2000 og athuga hvort við getum ekki náð einhverju kristilegu samkomulagi um þetta mál. En auðvitað mun ég eigi að síður styðja þá tillögu sem gengur mun lengra sem er í þá veru að leyfa neyslu á hefðbundnu munntóbaki, skroi. Ég fagna því að í Sjálfstfl. skuli vera til sú frelsisviðleitni og það sjálfstæði að menn vilji standa upp fyrir frjálsborna Íslendinga og leyfa þeim áfram að taka sitt skro.