Tóbaksvarnir

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 22:01:06 (6972)

1996-05-31 22:01:06# 120. lþ. 157.12 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[22:01]

Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður flutti skemmtilega ræðu eins og hans var von og vísa. En hann oftúlkaði frásögn þeirrar sem hér stendur af munntóbaksneyslu hennar. Ég trúði hv. þm. fyrir því að ég hefði í æsku bragðað á skroi. Það þótti mér ákaflega vont. En ég bjóst síður við því að það yrði nefnt hér í ræðustól á hv. Alþingi. En það sýnir kannski vel hversu þetta mál sem við erum að ræða hér og þá sérstaklega þessi tiltekni þáttur þess er þingmanninum hjartfólginn. Við höfum unnið að þessu máli í fullri sátt í heilbrn. og ég tel að við höfum náð fram mjög góðum hlutum eins og t.d. að leggja meiri áherslu á forvarnaþáttinn með því að þar komi inn aukið fjármagn. Það held ég að sé aðalatriðið í þessu máli öllu að leggja sem mesta áherslu á það og þá sérstaklega gagnvart unga fólkinu. Það eru mjög alvarleg tíðindi sem við höfum heyrt á síðustu missirum, þ.e. að tóbaksneysla fari vaxandi í yngstu aldurshópunum.