Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 10:04:22 (6975)

1996-06-03 10:04:22# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[10:04]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er harla óvenjuleg staða uppi núna í þinginu. Það er komið fram í júní og eins og þingmenn sjá liggur fyrir löng dagskrá en á henni eru mál af svipuðu tagi og hér er til umræðu, þ.e. þessi þrjú lagafrumvörp sem snerta rekstur Pósts og síma. Síðan eru allmörg önnur mál sem munu kalla á nokkra umræðu í þingsölum þannig að það hefði líklega fáa grunað þegar þing hófst í haust frekar rólega að við ættum eftir að standa hér fram í júní, hvað þá að eftir væri að afgreiða jafnrisastórt mál og það sem hér er til umræðu.

Áður en ég kem að sjálfu frv. vil ég aðeins fara nokkrum orðum um einkavæðingarstefnu fyrrv. og núv. ríkisstjórnar og hvað í henni felst, hver er tilgangur hennar og hvaða sýnilegar afleiðingar hún hefur haft og mun hafa. Eins og menn minnast varð alger stefnubreyting með síðustu ríkisstjórn, þ.e. fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Þó var það ekki svo að í kosningunum 1991 hafi verið boðað að mikil einkavæðingarhrina væri fram undan þótt slíkt hafi lengi verið á stefnuskrá Sjálfstfl. heldur gerðist það eftir að ríkisstjórnin tók til starfa að sett var nefnd á laggir, einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar, og hún setti upp mikil áform sem reyndar er skemmst frá að segja að mistókust hörmulega. Ég minnist þess enn að fyrsta árið sem ríkisstjórnin starfaði, þ.e. í sínu fyrsta frv. til fjárlaga fyrir árið 1992, var gert ráð fyrir því að ríkið fengi í sinn hlut 1.500 millj. kr. fyrir sölu ríkisfyrirtækja en niðurstaðan það ár varð 500 millj. Síðan fór þetta sífellt minnkandi enda voru þessi áform illa undirbúin og reyndar ráku menn sig illilega á eins og við sölu SR-mjöls. Um það mál urðu mikil átök og leiddu til málaferla sem reyndar hafa ekki enn þá verið fyllilega til lykta leidd. Það mál er eftir því sem ég best veit fyrir Hæstarétti og tengist auðvitað þeim miklu umræðum sem hafa verið undanfarnar vikur um biðlaunarétt og réttindi starfsmanna.

Það eru mjög margar hliðar á þessum einkavæðingarmálum. Það er í fyrsta lagi sú stóra spurning um það í hvaða rekstri ríkið á að vera, hverju er eðlilegt að ríkið sinni. Síðan er auðvitað spurningin hvaða áhrif það hefur á almennan vinnumarkað þegar ríkið tekur sig til og breytir rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og jafnvel selur þær, hvaða áhrif hefur það á vinnumarkaðinn, á atvinnuleysi, á réttindi og hagi starfsfólks o.s.frv. Þarna er um mjög stór mál að ræða og mér hefði fundist að það hefði farið fram hér á landi á þann hátt eins og oft vill henda okkur Íslendinga að málin eru svo illa undirbúin. Þó að menn hafi á sínum tíma t.d. gagnrýnt mjög hvernig staðið var að sölu SR-mjöls var ekki hlustað á það frekar en fyrri daginn. Það tíðkast ekki að hlusta mikið á rök þeirra sem reyna að skoða málin af alvöru og menn ráku sig illilega á.

Annað slíkt dæmi var um Lyfjaverslun ríkisins sem mætti einnig mikilli andstöðu. Ríkisstjórnin fór þá leið að setja helming hlutabréfa á markað eitt árið og síðan átti að leita til Alþingis varðandi síðari helminginn og það leið ekki árið þangað til búið var að bjóða hitt út. Nú veit ég ekkert um hver reynslan er af sölu Lyfjaverslunar ríkisins, hvort það hefur einhverju breytt varðandi þá starfsemi. Það er einfaldlega eftir að kanna hver áhrifin eru. Auðvitað á ríkið ekki að vera í samkeppnisframleiðslu eins og var með SR-mjöl. Þar var um það að ræða að ríkið var gífurlega stór atvinnurekandi á þeim markaði við hliðina á ýmsum öðrum og að mínum dómi var það ekkert eðlilegt. Mér hefur heldur ekki þótt eðlilegt að ríkið hefur um áratuga skeið rekið arkitektastofu. Ég gæti nefnt fleira af slíku tagi en þegar kemur að hinum stóru þjónustugreinum og öryggishagsmunum horfir málið öðruvísi við. Þá er um allt annað að ræða, jafnvel þegar um er að ræða þjónustu sem enginn annar getur sinnt og ég ætla að koma betur að öryggisþættinum á eftir varðandi Póst og síma.

Það sem vekur upp spurningar varðandi allt þetta er í fyrsta lagi: Hvaða árangri hefur einkavæðing skilað? Hvaða áhrif hefur hún haft í öðrum löndum? Við höfum ekki mikla reynslu af þessu hér. Ég vil þó nefna að það var auðvitað gagnrýnt mjög harðlega á sínum tíma að með sölunni á SR-mjöli og því hvernig að því var staðið væri verið að afhenda eignir almennings á gjafverði en ég hygg þó að t.d. salan á hlutabréfunum í Lyfjaverslun ríkisins hafi verið á nokkuð eðlilegu markaðsverði. Ég hef a.m.k. ekki heyrt mikla gagnrýni á það hvernig að því var staðið út af fyrir sig. Þau bréf fóru einfaldlega á markað.

Aðrar þjóðir hafa miklu meiri reynslu en við og má t.d. nefna Breta. Reyndar er sú reynsla mjög margvísleg. En það er þó a.m.k. alveg ljóst að einkavæðingin hefur haft það í för með sér að störfum hefur fækkað. Það tengist því mikla atvinnuleysi sem hrjáir Evrópubúa og ég hef gert að umtalsefni undanfarna daga, þ.e. þessar formbreytingar á fyrirtækjum. Fjárfesting í nýrri tækni hefur auðvitað haft það í för með sér að störfum hefur fækkað mikið. Það væri kannski út af fyrir sig í lagi ef eitthvað annað er til að taka við vinnuaflinu. En svo er ekki. Þess vegna er atvinnuleysið orðið það gríðarlega mikla vandamál sem blasir við okkur úti í Evrópu og við höfum fengið að kynnast hér á landi. Atvinnuleysið, réttindamissir starfsfólks er ein hliðin en því væri auðvitað hægt að bjarga með ýmsu móti. Það sem er stærri spurning í þessu öllu saman er hvað verður um þjónustuna, hvað verður um þá þjónustu sem þessar ríkisstofnanir veittu. Eftir því sem ég hef lesið mér til fæ ég ekki séð að mikið lát sé á einkavæðingarstefnunni, kannski vita einhverjir betur sem hafa verið að vinna í þessu máli, en eftir því sem ég hef lesið hefur þjónustan versnað. Menn stóðu t.d. frammi fyrir því á Nýja-Sjálandi þegar símafyrirtæki höfðu verið einkavædd þar að einkaaðilarnir voru ekkert að leggja í þá fjárfestingu sem til þurfti til að halda uppi símasambandi út á eyjarnar í kringum Nýja-Sjáland og til afskekktra byggða. Það er þessi reginmunur sem er á skyldu ríkisins til þess að þjónusta landsmenn og þegar einkaaðilar eiga í hlut sem hugsa fyrst og fremst um hvernig rekstur fyrirtækis síns gæti gengið sem best.

Eftir því sem ég hef lesið gerðist það sama í Bretlandi að fyrrverandi ríkisfyrirtæki þar hefðu séð sóma sinn í því að halda uppi þokkalegri þjónustu við alla landsmenn en einkafyrirtækið, þetta sem er stærst í Bretlandi við hliðina á fyrrverandi ríkisfyrirtækinu, Mercury heitir það ef ég man rétt, sem er í samkeppni einbeitir sér fyrst og fremst að þéttbýlustu svæðunum þar sem mest er að hafa. Þetta er grundvallaratriði í allri umræðunni.

[10:15]

Ef menn einkavæða þjónustuþætti eins og Póst og síma sem eru náttúrlega í fyrsta lagi gríðarlega mikilvægir frá öryggissjónarmiði og í öðru lagi feykilega mikilvægir fyrir allt viðskiptalíf og atvinnulíf og í þriðja lagi afar mikilvægir vegna samskipta fólks almennt, þá er grundvallarspurningin þessi: Verður góðri og eðlilegri þjónustu haldið uppi? Hvers er að vænta þegar fyrirtæki eru komin í samkeppni, hvað þá á svona pínulitlum markaði eins og hér? Ég verð að viðurkenna að ég óttast ekki að erlend fyrirtæki fari að sækja hingað í miklum mæli --- mér finnst það afar ólíklegt --- inn á þann litla markað sem hér er. En það getur komið til samkeppni í ýmsum þáttum rekstrar sem Póstur og sími annast núna.

Þá vaknar spurningin um aðskilnað póstsins annars vegar og símaþjónustunnar hins vegar. Ég er ekki mjög tæknifróð í þessum efnum en þó þykist ég vita að það hafa átt sér stað miklu meiri tæknibreytingar og tækninýjungar á sviði fjarskipta og símamála. Það hefur ekki nærri því eins mikið gerst á sviði póstþjónustunnar þó tölvusamskipti komi núorðið að töluverðu leyti í staðinn fyrir póstþjónustu áður. Það er út af fyrir sig mikil breyting. En eftir því sem ég best veit hefur póstþjónusta hvergi verið algjörlega einkavædd. Þess eru dæmi að póstþjónusta er rekin af hlutafélögum í eigu ríkisins. En eftir því sem ég hef lesið mér til, m.a. séð frá Bandaríkjunum, þá líta menn þannig á að þarna sé um svo mikla grundvallarþjónustu að ræða og í rauninni dýra þjónustu vegna þess að menn verða að sinna henni nánast út á hvert sker og til hvers einasta afskekkts bæjar, að slík þjónusta verði að vera í höndum opinberra aðila. Þannig hefur verið litið á. Það hefur einfaldlega engum dottið í hug enn þá að einkavæða póstþjónustuna algjörlega. Hins vegar eru ýmsir þættir hennar að flytjast yfir til einkaaðila, m.a. alls konar pakkasendingar og fleira slíkt.

Ég átti þess kost fyrir líklega tveimur árum að sitja fund hér í Reykv. sem haldinn var af póstmannafélögum á Norðurlöndum. Þar var einmitt aðalumræðuefnið --- og kem ég þá kannski að meginástæðu þess að ég er nú að stíga hér í pontu á þessum mánudagsmorgni, 3. júní ef ég man rétt. Það var auðvitað það hvaða áhrif ... (SvG: 1996.) 1996. Það er eins gott að halda því til haga því það er nú varla að maður viti lengur hvað maður heitir, hvað þá að tímatalið sé með réttum hætti. En hér hefur það verið staðfest af hv. þm. Svavari Gestssyni að það er árið 1996. Það sem ég ætlaði að fara að koma að eru áhrif einkavæðingarinnar og ekki síst jafnstórrar stofnunar og Póstur og sími er, á konur. Vil ég þá minna á að mikill eða stór hluti starfsmanna Pósts og síma hér á landi eins og reyndar annars staðar eru konur. Getur hv. þm. Ásta Ragnheiður ... (Gripið fram í: 70%.) já, 70%. Ég var ekki klár á tölunni. Það er einmitt svo að um 70% starfsmanna Pósts og síma eru konur. Ég hef lengi haldið þeirri kenningu á lofti að það þurfi að skoða öll mál og það er reyndar pólitík sem víða er komin til vegs og virðingar að það þurfi alltaf að skoða öll mál út frá hvoru kyninu fyrir sig og kanna hvaða áhrif breytingar hafi. Það er náttúrlega augljóst að formbreyting Pósts og síma og hugsanleg einkavæðing fyrirtækisins síðar meir mun hafa mjög mikil áhrif á kjör fjölmargra kvenna. Þar komum við inn á þá umræðu sem átti sér stað hér í síðustu viku og vikunni þar áður um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna vegna þess að við vorum alltaf að benda á það í þeirri umræðu að verið væri að skerða réttindi væntanlegara starfsmanna ríkisins. Og hér erum við einmitt með dæmi um það að með þessari formbreytingu missir mjög stór hópur kvenna þann rétt sem þær hafa haft til fæðingarorlofs. Það verður algjör breyting á þeim réttindum. Þær konur og reyndar karlar líka sem verða ráðnir til þessa fyrirtækis í framtíðinni verða á allt, allt öðrum kjörum og munu væntanlega fylgja því sem gengur og gerist á almennum markaði. Alla vega hef ég ekki orðið vör við það hér í þessari umræðu að það væri meiningin að tryggja réttindi væntanlegra starfsmanna Pósts og síma á svipaðan hátt og annarra opinberra starfsmanna. Þessar breytingar munu hafa í för með sér fækkun starfa og það er kannski ekki bara vegna þessarar formbreytingar því væntanlega munu og hafa þessar gríðarlegu tæknibreytingar sem hafa átt sér stað haft mikil áhrif á fjölda starfa og eiga eftir að hafa áhrif á fjölda starfa burt séð frá sjálfu forminu. En reynslan af einkavæðingu er alls staðar þannig að störfunum fækkar. Þarna er þessi munur sem er á stöðunni á almennum vinnumarkaði og stöðunni hjá ríkinu þó það sé nú rétt að minna á það líka í þessu sambandi að laun starfsmanna Pósts og síma eru nú ekki til að hrópa húrra fyrir. Ég veit ekki hvort hið væntanlega fyrirtæki verður mjög æskilegur eða vinsæll vinnuveitandi nema meiningin sé að bæta kjörin. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson getur kannski upplýst okkur um það hvort menn spá því að kjör fólks muni batna hjá þessu fyrirtæki við það að formbreytingin verður. Ég veit það reyndar að í Bretlandi gerðist það að laun hækkuðu hjá fyrirtækinu en það var líka vegna þess að starfsmönnum fækkaði gífurlega. Þeim fækkaði alveg gífurlega. En það er eins og ég hef rakið hér önnur hlið á málinu og reyndar sem hefur verið gerð að mjög miklu og stóru atriði í þessari umræðu og tengist öðrum breytingum sem menn hafa verið að gera hér á réttindum opinberra starfsmanna. Það er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því öllu saman. En það er aðeins ein hlið á málunum. Hin er þessi: Hvað verður um þjónustuna? Hvað verður um þjónustuna og hvað er verið að gera varðandi hana?

Þá kem ég aðeins að því sem menn hafa verið að segja um þau mál. Hæstv. samgrh. hefur haldið því fram í umræðunni að ef þessi breyting eigi sér ekki stað þá muni þessi öfluga stofnun einfaldlega daga uppi. Menn vísa þar til þess að það eru miklar breytingar fram undan á evrópskum markaði. Frá 1. jan. 1998 verður ekki hjá því komist að leyfa frjálsa samkeppni í fjarskiptum vegna þeirra skuldbindinga sem við tókum á okkur með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Það er satt og rétt að sú breyting er fram undan. En ég vil nú biðja hæstv. ráðherra að rökstyðja það með óyggjandi hætti hvers vegna sú breyting kallar á þessa formbreytingu. Ég fæ einfaldlega ekki séð að það sé ekki hægt að efla stofnunina Póst og síma og stjórna henni þannig að hún sé undir stjórn og í eigu ríkisins þó þessi frjálsa samkeppni komi til. Að vísu kann að vera að það þyrfti að skoða það út frá samkeppnislögum. Ég átta mig ekki alveg á því. (ÖJ: Það stenst samkeppnislög.) Það stenst samkeppnislög, segir hv. þm. Ögmundur Jónasson. Í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru sérákvæði hvað varðar ríkisstofnanir. En það er alltaf þessi grundvallarfullyrðing sem kemur fram í allri umræðunni, hvaða stofnun sem á í hlut, um einkavæðingu að hlutafélagsformið sé svo miklu sveigjanlegra o.s.frv. Ég fæ einfaldlega ekki skilið þá röksemd. Ég veit ekki betur en að t.d. þessi stofnun, Póstur og sími, hafi verið afskaplega vel rekin. Hún hefur skilað miklum ágóða og staðið sig mjög vel í að fylgjast með tækni. Hún hefur haldið verðlagi niðri eins og kemur fram í greinum frá starfsmönnum Pósts og síma. Það er því ekkert upp á reksturinn að klaga eða sveigjanleikann. Að mínum dómi er þetta bara fullyrðing sem menn láta stöðugt á okkur dynja. Það eru ýmsar leiðir færar eins og sú að kjósa stjórn yfir stofnunina ef mönnum finnst það vera meginefnið. Það er hægt að gera það sem ríkisstjórnin hefur boðað, þ.e. að auka sjálfstæði ríkisstofnana. Það átti að vera einn megintilgangurinn með frv. um réttindi og skyldur að auka sjálfstæði ríkisstofnana og auka sveigjanleika innan þeirra og öll þessi ósköp sem voru svo auðvitað tekin aftur í öðrum lagagreinum þess frv. sem nú er reyndar orðið að lögum. Mér finnst því þessi röksemd afar ósannfærandi. Það hefur ekkert komið fram, hvorki í þessari umræðu né öðrum sem hér hafa átt sér stað um einkavæðingu sem sannar að hlutafélagsformið sé nauðsynlegt til að stofnanir á borð við Póst og síma geti staðið sig í samkeppninni og haldið uppi þeirri þjónustu sem hér er einfaldlega nauðsynleg.

Að mínum dómi er fyrst og fremst um það að ræða að menn eru að taka stofnanir ríkisins eina af annarri og fyrsta skrefið er að breyta þeim í hlutafélag og síðan fara þau hlutabréf á markað. Það er alveg sama sagan hér og í öðrum frv. sem við höfum haft. Hér er að vísu gert ráð fyrir því að það verði aðeins eitt hlutabréf og að það verði í höndum samgrh. En það er hægt að koma til Alþingis hvenær sem er og gera á þessu breytingu ef vilji er til þess. Það er einnig kveðið á um það í þessu frv. að það verði hægt að stofna dótturfyrirtæki sem fari þá væntanlega út í rekstur einstakra þátta þannig að það er hægt að gera miklar breytingar á rekstri stofnunarinnar. Ég hygg að menn muni með tíð og tíma ganga þessa leið áfram og að Póstur og sími verði gerður að almennu hlutafélagi. Þá kemur aftur að þessu: Hvað verður þá um þjónustuna? Hvað verður um þjónustuna í svona strjálbýlu og fámennu landi þar sem er afar erfitt að sjá að það sé hægt að reka ýmsa þætti póst- og símaþjónustu með ágóða. Það er einfaldlega um samfélagsþjónustu að ræða sem ríkisvaldið á að sinna, þ.e. þjónustu sem á að reka í þágu okkar allra. Vil ég þá minna á það sem fram kemur í bæklingi fyrrv. ríkisstjórnar um einkavæðingu sem var dreift til allra landsmanna á sínum tíma og heitir: ,,Hvaða gagn hefur þú af einkavæðingu?`` Þar segir einmitt í byrjun, með leyfi forseta:

,,Almenn samstaða er um að ríkið hafi vissu hlutverki að gegna í þjóðfélaginu og að það fremur en einstaklingar sinni t.d. þáttum eins og löggæslu, rekstri réttarkerfisins, auk þess að vera bakhjarl þeirra sem minna mega sín.``

Síðan kemur náttúrlega ein af þessum dásamlegu fullyrðingum um það að einstaklingar fari alltaf betur með fé en gert er innan stofnana ríkisins. Minnir það mig á fullyrðingar af svipuðum toga þar sem menn segja að einkafyrirtæki séu alltaf betur rekin en ríkisstofnanir. Þetta er auðvitað bara bull, hæstv. forseti. Við þekkjum hér dæmi eins og t.d. um Póst og síma, ríkisfyrirtæki sem hefur verið fjarskalega vel rekið og þarf nú ekki að rifja upp enn eldra dæmi af Hagstofunni sem var rekin með þvílíkum tilþrifum að annað eins held ég að hafi ekki sést í ríkisrekstri hvorki fyrr né síðar. (Gripið fram í: Og Kvennaskólann.) Að maður minnist nú ekki á Kvennaskólann sem er mikill fyrirmyndarskóli og mjög vel rekinn og hefur einmitt verið að reyna sig í rekstri af nýju tagi og taka á sig meiri ábyrgð, fá ákveðna fjárveitingu og reyna að halda sig innan rammans. Reyndar hefur gallinn á því formi verið sá að sú umbun sem þarf að fylgja því þegar fólk leggur mikið á sig, fer yfir starfsemina, vegur og metur allt upp á nýtt, hefur látið á sér standa. Það er hættan þegar menn eru að reyna að gera breytingar af þessu tagi og ætla að gera stofnanir sjálfstæðar, að þær fái svo ekki að vera sjálfstæðar. Ef þær fá ekki það fjármagn sem þær þurfa þá er lítið gagn af því.

[10:30]

En það sem ég var nú að segja áður en ég fór út í þessa sálma var einfaldlega um þessar fullyrðingar um einkarekstur og það að einstaklingar fari ávallt betur með peninga í einkarekstri en þegar þeir höndla þá í umboði almennings. Ég held að það sé afar erfitt að sanna þessar fullyrðingar.

Eitt af því sem hefur verið nefnt sem röksemd fyrir þessum breytingum er einmitt það sem fram kom í ræðu Al Gore, varaforseta Bandaríkjanna, 1995 þar sem hann boðaði það að Bandaríkjamenn ætluðu að veita algjört frelsi á markaði hjá sér að því tilskildu að sams konar frelsi yrði veitt í viðkomandi löndum. Í grein í Morgunblaðinu sem ég hef hérna fyrir framan mig er einmitt verið að ýja að því að það sé framtíðin. Og er nú kannski ekki ólíklegt og ekkert óskynsamlegt við það að þegar veitt eru réttindi á einum stað þá vilji menn fá samsvarandi réttindi á öðrum. Þetta er tengt m.a. hér í grein um fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi. En í rauninni kemur það málinu lítið við hvort menn eru að stefna að auknu frelsi almennt sem ég held að reyndar allt stefni að. Málið er einfaldlega þetta: Hvernig viljum við reka okkar stofnun? Hvaða möguleikar eru í stöðunni og hvað þýða þær breytingar sem menn ætla að fara að gera?

Þá vil ég koma að því sem reyndar hefur verið reifað nokkuð í þessari umræðu. Það er þetta sambland sem hér er á milli póstþjónustu annars vegar og símaþjónustu hins vegar. Það kemur fram í gögnum frá starfsmannafélögum, m.a. Póstmannafélaginu að menn vilja skoða þann möguleika rækilega að aðskilja póst og síma. Ég get vel ímyndað mér að það hnígi mörg rök í þá átt. Þetta eru ólíkir þættir. Það er mismunandi grunvallarþjónusta sem er verið að veita og mér finnst ég ekki hafa heyrt nein rök í þessari umræðu fyrir því hvers vegna menn hafa ekki íhugað þá leið, fyrst það á nú að gera þessa formbreytingu, að skipta fyrirtækinu upp í tvær einingar. Hvað mælir með því og hvað mælir á móti því? Ég sé það reyndar í grein sem birtist í Morgunblaðinu 7. maí eftir Bergþór Halldórsson að hann bendir á að allar slíkar breytingar mundu fela það í sér að stofnunin sem heild, þessi sterki aðili á íslenskum fjarskiptamarkaði yrði veikari, að stofnunin yrði veikari.

Í Danmörku t.d. var farin sú leið að stofna hlutafélög í eigu ríkisins um hvorn rekstur fyrir sig. Ég þekki það nú reyndar að menn voru að gera miklar tilraunir í rekstri póstsins í Danmörku með skelfilegum afleiðingum. Ég hygg að þeir séu búnir að koma því í lag fyrir allnokkru. Þetta var í kringum 1980 og þá ríkti alveg ógurlegt ástand á póstinum í Danmörku, sérstaklega í Kaupmannahöfn því bréf týndust unnvörpum og yfirleitt liðu margir, margir dagar þar til bréf komust til skila. Það varð algjört kaos vegna tæknibreytinga og skipulagsbreytinga sem þar var verið að gera og það tók langan tíma að koma þessu í lag.

Það er annað mál en ég vildi gjarnan beina spurningu til hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar sem stjórnaði þessari vinnu í samgn. Gæti hann upplýst mig um það hvaða rök mæla með og hvaða rök mæla á móti því að skipta Pósti og síma upp. Menn hafa greinilega komist að þeirri niðurstöðu að gera það ekki. Það er greinilegt af þeim álitum sem fram komu í nefndinni að póstmenn eru mjög uggandi um sinn hag sem vonlegt er. En mér finnst þetta vera grundvallarspurning ef maður horfir á dæmið allt. Það eru að verða mjög miklar tæknibreytingar á sviði símaþjónustu. Menn geta hugsað sér að þar komi fleiri fyrirtæki inn í myndina og stefnir eflaust í það og er auðvitað að gerast og hefur verið að gerast. En varðandi póstþjónustuna þá finnst mér málið horfa öðruvísi við. Þar er einfaldlega um grundvallarþjónustu að ræða sem oft og tíðum er erfitt að leysa öðruvísi en með að senda manneskju á staðinn. Með nútímatækni er hægt að leysa svo margt í gegnum GSM-síma og tölvutækni og ýmislegt annað en þegar um er að ræða að koma ákveðinni sendingu, pakka eða einhverju slíku til skila þá verður þessi þjónusta einfaldlega að vera til staðar.

Hæstv. forseti. Minni hluti samgn. leggur mikla áherslu á það í sínu nál. hvað margt sé óljóst í málinu. Það vekur athygli þegar maður fer yfir þetta að hér er ýmislegt sérkennilegt á ferð, svo ég víki nú að sjálfu frv. Það er ekki síst þessi þriggja manna undirbúningsnefnd til þess að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna breytingarinnar. Og svo segir hér, með leyfi forseta:

,,Nefndin skal hafa heimild til þess að gera hvers kyns löggerninga sem eru nauðsynlegir til undirbúnings stofnun félagsins og fyrirhugaðri starfrækslu. Við stofnun skal félagið bundið við umrædda löggerninga.``

Hér er verið að færa mjög mikið vald til samgrh. og síðan til þeirrar nefndar sem hann mun hugsanlega skipa. Ég spyr mig: Gera menn sér ekki grein fyrir því til hvaða aðgerða, til hvaða breytinga þarf að grípa? Kom það fram í starfi samgn. hvað það er nákvæmlega sem þessi nefnd á að gera og hver þessi verkefni verða og þessir löggerningar sem hún á að framkvæma? Eða er það rétt sem fram kemur í nál. minni hlutans að hér sé um afar mikið vald að ræða? Væri ekki nær, eins og við erum náttúrlega búin að margleggja til, að þessu máli yrði einfaldlega frestað til haustsins þannig að fyrir lægi nákvæmlega hvaða breytingar þarf að gera? Ég sé ýmislegt fyrir mér hvað það varðar. Menn hljóta að þurfa að gera ýmiss konar áætlanir og það þarf að undirbúa reglugerðir og skilgreina hlutverk stjórnar og fleira slíkt. Þá kem ég að því að mér hefur þótt það mjög slæmt í þessum einkavæðingarfrumvörpum sem við höfum verið að afgreiða á undanförnum árum hversu lítið hefur verið komið inn á hlutverk stjórnar, skipan stjórnar og slíkt. Hér er það augljóst mál að það er bara ráðherrann sjálfur sem skipar stjórnina. Hann er með hlutabréfið. Hann skipar stjórnina. Þegar um svona stórt og öflugt fyrirtæki er að ræða þá vakna auðvitað mjög stórar spurningar um það hvort þarna sé ekki um óeðlilega mikið vald að ræða. Það er mjög óljóst í mínum huga hvað þetta þýðir, þ.e. hvaða vald er verið að færa til þessarar nefndar. Mér finnst þetta afar sérkennilegt. Og síðan það að ráðherra skuli hafa vald til þess að skipa einn og sér þessa stjórn. Ég hefði talið miklu eðlilegra að það væri kveðið á um skipan stjórnarinnar, hverjir eigi að koma þar að og t.d. að tryggja það að starfsmenn eigi þar aðild. En ég veit það að þessi ríkisstjórn er ekki hrifin af starfsmannalýðræði og vill lítið af slíku vita.

Hæstv. forseti. Það væri eflaust ástæða til þess að gera einstök atriði að umræðuefni. Ég ætla ekki að fara út í þessa miklu umræðu sem hefur orðið um réttindi starfsmanna. Það hafa aðrir gert því máli ítarleg skil. Það sem mér finnst vera meginmálið og það sem alltaf hefur legið þyngst á mínum huga varðandi þessa einkavæðingu er það að ég er algjörlega tilbúin til þess að skoða það í hvaða rekstri ríkið á að vera. Mér finnst að við sem erum nú á hinu háa Alþingi eigum að fara í umræður um það hvert hlutverk ríkisvaldsins er. Menn eiga að hafa það nokkuð á hreinu á hverjum tíma hvert hlutverk ríkisvaldsins er. Við getum síðan deilt um það hvernig því hlutverki skuli sinnt. Og varðandi þessi einkavæðingarmál öll sömul og það hvernig ríkið sinnir sínu hlutverki á hverjum tíma hafa menn auðvitað haft mismunandi skoðanir á. Það er hægt að bjóða út viss verk og það er hægt að fela öðrum aðilum að annast eitt og annað. En það sem mér finnst vera kjarninn í þessu öllu saman er að ekki sé verið að afhenda eigur almennings til einhverra einkaaðila, nánast ókeypis eða á óeðlilegum vildarkjörum. Það finnst mér vera mergurinn málsins. Ég er alveg tilbúin til að skoða ýmis rekstrarform en við hljótum að ganga út frá því sem við álítum að sé hlutverk ríkisins og ég lít svo á að sú þjónusta sem Póstur og sími veitir sé grundvallarþjónusta. Hún er grundvallarþjónusta sem ríkisvaldið á að tryggja að sé til staðar og við hljótum að hafa það í huga hversu lítill okkar markaður er. Manni finnst stundum þegar maður er að lesa þessi gögn að menn haldi að þeir séu í New York eða á Los Angeles svæðinu og markaðurinn svo ofboðslegur og fyrirtækin mörg sem vilja koma inn á þennan markað. En menn verða nefnilega að hafa hið gagnstæða í huga. Við búum í mjög strjálbýlu og erfiðu landi þar sem við verðum að tryggja öryggi og grundvallarþjónustu. Það er algjörlega ljóst í mínum huga.

[10:45]

Í nál. minni hlutans er að finna mikla gagnrýni á bæði frv. og það hvernig að málum er staðið og ég hlýt að taka undir hana. Ég fæ ekki betur séð eftir að hafa lesið þessi gögn en að hér sé afskaplega margt óljóst. Ég get ekki annað en minnst á það að Póstur og sími hefur skilað ríkinu miklum tekjum og þær munu að sjálfsögðu minnka við það að fyrirtækinu verður breytt í hlutafélag. Þar gilda allt aðrar reglur en auðvitað fer það eftir rekstrinum hversu miklar skatttekjur verða. En allra síðast, hæstv. forseti, hlýt ég að undirstrika að mál af þessu tagi, svona gríðarlega stórt mál sem snertir í fyrsta lagi hagsmuni allrar þjóðarinnar, þá þjónustu sem öll þjóðin nýtur, mál sem snertir atvinnu og réttindamál þessa stóra hóps starfsmanna, á að fá ítarlega umfjöllun á hinu háa Alþingi. Mér finnst erfitt og óeðlilegt að vera undir þessari miklu pressu að afgreiða mál sem m.a. felur í sér þetta mikla vald til eins ráðherra. Mér finnst það mikil spurning sem við alþingismenn eigum að velta fyrir okkur varðandi það á hvaða braut við erum í frumvarpa- og lagasmíð þar sem í hverju málinu á fætur öðru er verið að færa gríðarlegt vald yfir til ráðherra. Hvar liggja skilin þarna á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, hvar á eftirlitshlutverk Alþingis að koma inn, hvar er eðlilegt að Alþingi kjósi stjórnir stofnana af þessu tagi? Þetta eru allt saman miklar grundvallarspurningar sem hljóta að koma upp þegar við erum að fjalla um svona mikilvægt þjónustufyrirtæki eins og Póstur og sími er. Því ítreka ég að mér finnst það óeðlilegt og ekki bjóðandi að verið sé að afgreiða mál af þessari stærðargráðu á örfáum dögum og ráðherrann æðandi um í von um að málinu ljúki sem allra fyrst. Hann stendur að vísu beinn í baki núna og virðist ekki mjög æstur. En það hefur alla vega verið lögð mjög mikil áhersla á að þetta mál verði afgreitt og það stefnir í það að svo verði. En mér finnst að það hefði verið lágmark að fá inn í þetta frv. einhvers konar varnagla þannig t.d., hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, að samgn. hefði tryggt sér rétt til þess að fylgjast með í sumar og fram eftir hausti, fylgjast með því hvernig gengur að undirbúa þessa breytingu þannig að menn geti þá áttað sig á því hvað þarna er að gerast og hvert stefnir vegna þeirra gífurlegu hagsmuna sem þarna eru í húfi fyrir framtíð Pósts og síma, fyrir starfsfólkið og fyrir þjóðina alla.