Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 10:51:56 (6977)

1996-06-03 10:51:56# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[10:51]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get út af fyrir sig fallist á þessar röksemdir. Eins og fram kom í máli hv. þm. er það víða svo úti á landi að við rekum þessa þjónustu samhliða og jafnvel kunna að vera þess dæmi að það séu einn og tveir starfsmenn sem eru að sinna báðum þessum þáttum. Það kemur auðvitað að þessu grundvallaratriði sem ég nefndi áðan að aðalatriði málsins er að þjónustunni verði haldið uppi, að hún versni ekki. Það er það sem ég óttast mest í ljósi þeirrar reynslu sem aðrar þjóðir hafa, ekki síst þar sem um strjálbýl lönd er að ræða. Spurningin er því sú hvernig og hvort sú þjónusta verður tryggð.

Hæstv. forseti. Ég sé að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir er komin hér. Ég las einmitt grein eftir hana þegar ég var að undirbúa mig undir þetta mál og þar lagði hún mikla áherslu á þessa samræmdu gjaldskrá. Ég fæ reyndar ekki séð að það sé neitt samhengi á milli þess að Póstur og sími sé hlutafélag og það sé sameiginleg gjaldskrá. Ég held að það hafi ekkert komið í veg fyrir það hingað til að það væri komið á samræmdri gjaldskrá á landinu öllu annað en viljaleysi stjórnvalda. Það hafa verið lagðar fram tillögur um þetta ár eftir ár þannig að menn mega ekki blanda saman óskyldum hlutum. Mergurinn málsins er þessi: Hvað verður um þjónustuna, þjónustu við alla landsmenn við þessar breytingar? Það eru hin stóru spurningarmerki sem hér eru sett fyrir utan ýmsar grundvallarhugmyndir varðandi einkavæðingu, örlög starfsfólks og réttindi þess, hvort það er rétt af ríkisvaldinu að beina hópum starfsfólks út í atvinnuleysið og hvernig menn ætla að bregðast við þessu öllu saman. Við verðum að horfa á alla myndina í heild.