Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 10:58:23 (6980)

1996-06-03 10:58:23# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, GE
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[10:58]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um að það eru mörg mál fyrir þinginu og enn ekki vitað hvenær menn hafa hugsað sér að ljúka umræðu eða ljúka þinginu. Mér sýnist að það sé búið að ryksuga út öll þau mál sem menn hafa áhuga á að afgreiða. Það var áætlað, ef ég man rétt, að ljúka þingstörfum 15. maí og þá er það náttúrlega alveg ljóst að þetta mál sem við ræðum hér hefði aldrei komið til umræðu og hefði ekki verið afgreitt. Aðstæður eru því dálítið sérstakar og mér er ekki kunnugt um að það sé neinn lokadagur ákveðinn. Það var einhvern tíma í den miðað við 11. maí, a.m.k. við sjávarsíðuna. Síðan færðist það til 15. maí. En það er enginn lokadagur á Alþingi og það er kannski eins og það á að vera.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í plagg sem ég er nýbúinn að fá í hendur. Það ber nafnið Skýrsla samkeppnisyfirvalda og er frá Samkeppnisstofnun. Þar stendur:

,,Í stefnuskrá Póstsins, sem Póst- og símamálastofnun gaf út í maímánuði 1993, kemur fram að reikningshald skuli miðast við að sýna á einfaldan og skýran hátt árangur einstakra eininga og aðgerða.``

[11:00]

Í stefnuskránni segir einnig: ,,Höfðuðmarkmið Póstsins eru þrenns konar:

1. Ánægðir viðskiptavinir.

2. Ánægt starfsfólk.

3. Hagnaður af rekstri.``

Hvaða sjónarmið er verið að setja fram með þessum höfuðmarkmiðum? Eru það markmið sem hafa ekki náðst hjá Pósti og síma? Er það vegna þess að það hefur ekki náðst sem þarf að fara út í að breyta rekstrarforminu?

Í öðrum stað í stefnuskránni segir: ,,Pósturinn ætlar að aðgreina sig frá keppinautum sínum og byggja styrk sinn og samkeppnisstöðu á hinu víðtæka póstneti sínu, fjölbreytilegri þjónustu og magni. Við viljum að lýsingin á Póstinum verði: öryggi, nálægð, sveigjanleiki og heildarþjónusta.`` --- Þetta eru góð markmið sem þarna eru sett fram. Ég held sannarlega að Póstur og sími hafi náð þessum markmiðum því að ég held að þjónustan sé með því besta sem gerist.

Í stefnuskránni er nánar vikið að heildarþjónustu póstsins. Heildarþjónusta er forsenda þess að pósturinn geti nálgast þá framtíðarsýn að sjá um skipulag og framkvæmd allra sendinga fyrirtækja. Heildarþjónustan byggist á því að fyrirtæki geti að öllu leyti lagt þennan þátt starfsemi sinnar í hendur póstsins.

Einnig er fjallað um aukna þjónustu í stefnuskránni, vöruþróun og markaðssókn. Stærri fyrirtæki og stofnanir fá heildarþjónustu sem löguð er að þörfum þeirra. Pósturinn mun sérhæfa þjónustu sína og laga að einstökum atvinnugreinum, að fyrirtækjum með svipaða starfsemi og að einstökum fyrirtækjum. Boðið verður upp á að póstsölumenn sinni öllum þörfum fyrirtækisins í samræmi við framtíðarsýn póstsins. Póstsölumenn verða daglega í sambandi og samskipti við viðskiptavini og kalla til sérfræðinga á hinum mismunandi sérsviðum póstsins þegar þörf er á. Pósturinn ætlar að laga þjónustu sína að viðskiptavinum og bjóða upp á heildarþjónustu. Til að þetta skili árangri þarf hann að hafa mikla þekkingu á viðskiptavinum og þörfum þeirra. Hvaða aðili annar en Póstur og sími hefur mjög nána þekkingu á þörfum viðskiptavinanna innan þessa geira? Fyrirtækjaþjónusta, heildarþjónusta, sérsniðin þjónusta, boðpóstur, fyrirtækjapakkar, DM- og E-póstur, EDI og nýjungar í gíróþjónustu, verðmeiri póstur innan lands, upplýsingaþjónusta o.s.frv. Allt eru þetta atriði sem móta starfsemi póstsins í framtíðinni. Framtíð póstsins ræðst af því hvernig honum tekst að þróa nýjar vörur og þjónustu því að þarfir og forsenda viðskiptavina munu breytast hratt í framtíðinni. Vöruþróun verður því mikilvægasti þáttur starfseminnar. Sérstök áhersla verður lögð á hagnýtingu upplýsinga- og samskiptatækninnar í vöruþróuninni. Í þessu samhengi verður unnið í nánum samskiptum við fjarskiptasvið Pósts og síma þannig að þarna er á ferðinni markmið sem menn hafa sett sér um póstþjónustuna á Íslandi sem ég get ekki betur séð en séu í nokkuð góðu ástandi.

Þetta mál sem hér er í vinnslu, er eitt af hinum svokölluðu einkavæðingarmálum. Mér eru auðvitað minnisstæð mál af þessu tagi, svo sem þegar Sementsverksmiðju ríkisins var breytt í Sementsverksmiðjuna hf. í eigu ríkisins á einu hlutabréfi. Sú kvöð fylgdi þá að ekki var heimilt að selja fyrirtækin án samþykkis Alþingis.

Ég verð að segja það, herra forseti, að mér eru mjög minnisstæð viðbrögð hv. núv. iðnrh. og núv. hæstv. heilbrrh. sem héldu þá sérstakan fund með starfsmönnum Sementsverksmiðju ríkisins og hvöttu menn til eindreginnar sterkrar andstöðu við að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag sem þá var markmið að gera fyrirtækið einfaldara í rekstri eins og raunin hefur orðið á. Fyrirtækið hefur orðið einfaldara fyrir stjórnendur, það eru einfaldari boðleiðir. Það hefur skilað vissum árangri. En þá er þetta kynnt af þessum umræddu hæstv. ráðherrum sem sérstakur liður í því að selja fyrirtækið Sementsverksmiðjuna hf. og þessir hæstv. ráðherrar lögðust eindregið gegn málinu og sögðu starfsmönnum að það væri verið að láta fjármagnseigendur gleypa fyrirtækið.

Ég minnist þess að þessir sömu hæstv. ráðherrar sem ég nefndi áðan, minntu á eða töluðu um það að steypustöðvarnar mundu örugglega stökkva til og koma sér í einokunaraðstöðu á steypumarkaði á Íslandi. Mér er minnisstæður fundurinn þegar þáv. þm. Finnur Ingólfsson, núv. hæstv. iðnrh., gekk á milli manna í þessu umrædda fyrirtæki og hvatti þá til að hafa samband við þingmenn sína og leggjast gegn málinu en það eru breyttir tímar, það eru örugglega breyttir tímar.

Hvað er að gerast núna varðandi fyrirtækið, sem ég er að ræða um, Sementsverksmiðjuna hf.? Hverjir hafa sýnt áhuga á að kaupa þetta fyrirtæki, Sementsverksmiðjuna hf.? Eftir þeim upplýsingum sem ég hef hafa fréttir um að spænskir sementsjöfrar sem vilja kaupa Sementsverksmiðjuna lekið út frá hæstu stöðum innan iðnrn. Ég er alveg alveg sannfærður um það, herra forseti, að starfsmenn Sementsverksmiðjunnar hf. væru örugglega tilbúnir að eiga orðastað við hæstv. núv. iðnrh., Finn Ingólfsson, um þessi mál.

Herra forseti. Ég vildi gjarnan heyra hvað fyrrnefndir ráðherrar segja um áhuga Spánverjanna á Sementsverksmiðjunni hf. Eru e.t.v. áform uppi um það að Sementsverksmiðjan hf. verði mölunarstöð fyrir spænskt gjall? Fylgja því áform um að stöðva ofn Sementsverksmiðjunnar sem þýðir u.þ.b. 20 störf? Er það meiningin að fækka enn úr 86 störfum niður í u.þ.b. 60 störf? Hvað er það sem menn eru að gera? Hvers vegna er verið að láta þessar upplýsingar leka út og fylgja þeim ekki betur eftir? Auðvitað segja starfsmenn Sementsverksmiðjunnar ,,hasta la vista`` við svona lögðuðu. Þetta m.a. hlýtur að vera eitt af því sem menn hljóta að velta fyrir sér þegar verið er að ræða um háeffingu Pósts og síma. Hver er framtíðin? Hvað er það sem verður gert?

Má búast við því, hv. formaður samgn., að á næsta ári eða e.t.v. þarnæsta ári komi einhverjir aðilar frá EES-svæðinu og lýsi yfir áhuga á kaupum og þá rjúki menn jafnvel til og vilji selja þetta fyrirtæki? Ég hef þó nokkrar áhyggjur af málinu og sérstaklega þessum hluta málsins því að mér virðist mjög sterk andstaða starfsmanna gegn þessum áformum. Ég efast nokkuð um að það sé rétt að keyra þetta mál í gegn núna. Það er betra að gefa sér tíma því að það er ekkert sem knýr á um að málið sé afgreitt. Ég minni á að áform voru uppi um að ljúka þingstörfum 15. maí og þá hefði þetta mál beðið og fengið betri umfjöllun í sumar og ég tel að þörf sé á því. Þar með er ég ekki að segja að mér sé ekki ljós að nauðsyn sé að skoða mál þessa fyrirtækis sem og kannski annarra í ljósi breytinga sem eru að gerast í samkeppnismálum með tilliti til skipulagsbreytinga og þess að samkeppni er að verða æ harðari og stofnunin þarf að búa við þau skilyrði að unnt sé að taka skjótar ákvarðanir. Þetta eru sömu rökin og voru notuð þegar ákveðið var að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í Sementsverksmiðjuna hf.

Ég er alveg sammála um að það er nauðsynlegt að líta á þessi mál frá sjónarmiði neytenda og þeirri þjónustu sem stofnunin veitir. Í lögum um starfsrækslu pósts og símamála segir: ,,Starfsemi Póst- og símamálastofnunar skal beinast að því að tryggja sem best að hér á landi sé kostur á hagkvæmri póst- og símaþjónustu.`` Ég vil meina það, herra forseti, að þessi þjónusta hafi verið mjög góð og enda þótt hlutafélagsform geti verið vænlegt til þess að ná fram breytingum ef aðstæður krefjast tel ég að núverandi rekstrarform hafi dugað vel. Póstur og sími hefur skilað góðri hlutdeild til ríkisins. Tekjur á þessu ári verða allt að milljarður sem gengur til ríkissjóðs og ég minni á það að símakostnaður er lágur hér á landi. Ég veit ekki betur, eins og ég er búinn að koma að áður, herra forseti, en að þjónustan sé með því besta af hálfu Pósts og síma sem þekkist á Vesturlöndum. Þá er eðlilegt að maður velti því fyrir sér ef það er rétt að það sé mikil andstaða innan starfsmannahóps Pósts og síma af hverju ekki er reynt að leysa þann ágreining ef það er rétt í sumar og láta málið koma aftur til vinnslu í haust.

Áhyggjurnar sem ég hef af málinu beinast að því að ég tel að það sé mismunur á hvort um er að ræða fyrirtækið í heild sinni eða hvort póstþjónustan verði skilin frá. Ég tel að það skipti miklu því að sannarlega hafa símgjöld greitt niður póstburðargjöld. Mér er ljóst að það verður að jafna kostnað við póstdreifinguna. Það hefur verið gert þó ekki sé auðvelt að komast að því í gegnum reikningana og ég tel líka að það verði að koma á jöfnun á kostnaði neytenda hvað varðar símgjöld og ég held að það sé vel að það liggja fyrir tillögur með þessu máli í þá átt. Mér er svo spurn: Hvernig verður þessum málum háttað eftir háeffingu?

[11:15]

Ég held, herra forseti, að það sé rétt að óska eftir svörum við þessum spurningum frá hæstv. samgrh. eða hv. formanni samgn. því að ég held að það þurfi að svara þessum spurningum. Verður heimilt að flytja fjármagn milli greina af sama meiði? Þá á ég við, er heimilt að flytja tekjur frá símanum yfir til póstsins til þess að jafna upp gjöld eins og gert hefur verið? Ég hef áhyggjur af réttindum starfsfólks Pósts og síma. Ég verð sáttur ef það er tryggt við þessar breytingar að svo verði. En ég tel að það vanti nokkuð upp á í frv. að gerð sé grein fyrir því nákvæmlega hvernig með þessi mál verður farið. Ég held ég muni það rétt að hv. formaður samgn. upplýsti að það þyrfti að aðlaga ýmis mál á vinnslutímanum og er þá augljóst að vinnslu er ekki nándar nærri lokið. Og þetta ætti að gerast á þeim tíma sem málið væri þá í umfjöllun fram að gildistöku laga. Ég læt reyndar nægja að vísa til álits eða umsagnar Gunnars Jónssonar héraðsdómslögmanns hvað varðar réttarstöðu starfsmanna stofnunarinnar. Auðvitað er það svo að frv. vekur nokkrar spurningar hjá þingmanni sem ekki hefur verið með í umfjöllun þess. Einnig þegar málið er að koma núna á síðustu dögum til þings þá er þröngt um tíma og það eru fjölmörg mál sem þingmenn þurfa að leggjast yfir og kynna sér. Þess vegna geta þingmenn ekki almennt sett sig eins vel inn í svona mikilvæg mál og þyrfti. Það er m.a. ein af þeim ástæðum sem ég tel að sé fyrir því að gefa málinu tíma í sumar. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég er ekki að leggjast gegn breytingum. Ég leggst ekki gegn breytingum ef ég sé fram á að þær eru nauðsynlegar.

Ég held að sé rétt að spyrja um það hvernig skattgreiðslum verði háttað til ríkissjóðs. Verður skattlagning á verðandi fyrirtæki einhvern veginn öðruvísi en á önnur hlutafélög? Og ég spyr enn: Verður að breyta rekstrarformi Pósts og síma vegna þess að hér er í gildi hærri verðskrá og verðlag þjónustu hærra en í nágrannalöndunum? Ég held ekki eins og ég kom að áðan. Ég held að svo sé ekki. Ég held að við séum með mjög góða þjónustu, mjög ódýra þjónustu svoleiðis að ekki er það ástæðan fyrir því að rjúka til í einhverri skyndingu. Ég spyr að sjálfsögðu enn. Geta menn svarað því, getur hv. formaður samgn. svarað því hverjir þeir aðilar eru sem líklega hafa mestan áhuga á að setja Póst og síma á almennan markað ef þannig verður? Eftir að fyrirtækið er orðið hlutfélag þá er unnt að gera þetta. Ég vitna til þess sem ég áður sagði í ræðu minni varðandi Sementsverksmiðju ríkisins hf. sem er fyrirtæki í eigu ríkisins á einu hlutabréfi. Núna er kominn upp umræða um aðila sem áhuga hafa á að kaupa fyrirtækið. Getur Póstur og sími náð sama vægi sem sjálfseignarstofnun í eigu ríkisins? Og ég spyr: Telja menn að það sé heppilegt að skipta Pósti og síma upp í smærri einingar sem er unnt að selja en að ríkið haldi þá eftir í sinni eigu þáttum sem varða mest hag almennings? Það sem ég á við með hag almennings er póstþjónustan og símaþjónustan. Ýmislegt annað sem Póstur og sími hefur verið að fást við finnst mér að gegni svolítið öðru máli um. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé möguleiki á því ef málið heldur áfram eins og allar líkur benda til, að það verði skipuð þingnefnd til að fylgja þessu máli eftir, fylgjast með framkvæmdinni og að það liggi fyrir með áfangaskýrslum til þings og þjóðar hvernig menn vinna að þessu. Slík vinnubrögð gæti ég fellt mig mjög vel við. Og ég spyr enn hv. formann samgn. eða hæstv. samgrh.: Eru áform í þessa veru? Geta menn hugsað sér að vinna þetta á þennan veg?

Það hefur mikið verið rætt um það hvernig stjórn yrði skipuð við þetta fyrirtæki. Ég ætla ekkert að fara að gera því skóna að hæstv. ráðherra skipi endilega einhverja sérgæðinga í stjórn væntanlegs fyrirtækis en ég vil beina því til hans að ég tel að það hljóti að vera eðlilegt að skipa a.m.k. tvo fulltrúa starfsmanna í stjórn og að annar þeirra ætti síðan aðild að framkvæmdastjórn sem ég tel að væri eðlileg í þessu tilviki. Ég ítreka það enn að ég er ekki viss um að það hafi náðst nægjanleg sátt við starfsmenn Pósts og síma eftir að hafa lesið eftirfarandi umsagnir sem hljóða svo, með leyfi forseta. Ég vitna hér í álit eða umsögn stéttarfélaga háskólamanna sem starfa hjá Pósti og síma um frv. til laga um stofnun hlutafélags við rekstur Póst- og símamálastofnunar. Niðurlagið er svohljóðandi:

,,Stéttarfélög háskólamanna við Póst og síma vekja sérstaka athygli á 13. gr. frv. með tilliti til réttarstöðu starfsmanna. Sú kvöð sem að nýi rekstraraðilinn á að undirgangast, þ.e. að halda uppi tilskilinni öryggisþjónustu fyrir landsmenn sem nánar verður útfærð í reglugerð ráðherra, má ekki fela í sér skerðingu á samnings- og verkfallsrétti þeim sem gildir um starfsmenn fyrirtækja á almennum markaði, sbr. lög nr. 80/1938 og 87. samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.``

Það er eðlilegt að það vakni upp spurningar eftir þessa umsögn um það sem ég nefndi áðan. Það er ekki tryggt hver verður framtíð þessa öryggisþáttar. Réttur starfsmannanna er ekki tryggður enda viðurkenndi hv. formaður að það væri nokkuð eftir í umfjöllun í þessum málum og að það yrði að leysast á vinnslutímanum.

Ég leyfi mér enn að vitna, með leyfi forseta, til umsagnar eða athugasemdar frá Póstmannafélagi Íslands. Þar stendur eftirfarandi í niðurlagi þeirrar umsagnar: ,,Með tilvísan til þess ...``, sem þeir segja og þeir tína upp einstakar greinar og gera athugasemdir við þær, ,,... getur Póstmannafélag Íslands ekki fallist á réttmæti þess að breyta Pósti og síma í hlutafélag að óbreyttu frv.``

Þetta sýnir það sem ég hef verið, herra forseti, að ræða um. Þetta sýnir að það er ekki komin sú sátt á sem þarf að vera. Enda þótt félagið sé sammála því að ýmislegt mætti fara betur í rekstri fyrirtækisins telur það ekki að hlutafélagsleið sé sú leið sem fara skuli. Fulltrúar félagsins hafa bent á aðrar leiðir sem hefði átt að skoða betur. Einkum hefur verið bent á þá leið sem Danir völdu er sjálfstæði póstþjónustunnar þar í landi var stóraukið án þess að því fyrirtæki væri breytt í hlutafélag. Sú breyting var að sögn gerð í fullu samráði við starfsmenn sem töldu sig ekki eða telja sig ekki hafa tapað neinu af réttindum við breytingar. Það er eðlilegt að það sé uggur í starfsmönnum Pósts og síma hvað þessi atriði varðar. Þess vegna er ég að vara við að of langt sé gengið og of hratt sé farið og tel skynsamlegt að málið fái betri umfjöllun í sumar og að menn nái sáttum og komi síðan aftur í haust með málið hæfilega þroskað.

Mig langar að lokum að spyrja um og vita hvort menn hafi skoðað þau mál sem varða Póst- og símaskólann. Hafa menn einhver svör við því? Hvernig menn ætla að fara með Póst- og símaskólann sem hefur verið rekinn þannig að starfsmenn hafa haft möguleika á starfsmenntun sér að kostnaðarlausu án tillits til búsetu? Verður þetta svona áfram eða verður breyting þar á? Hafa menn einhver áform í þessa veru? Þetta er mjög mikilvægt atriði. Þetta er eitt af réttindamálum þessa fólks. Ég kom ekki auga á þetta í frv. Ég hef kannski ekki lesið það nægjanlega vel. Eins og ég kom hér inn á þarf að tryggja að það verði ekki breyting á þessu vegna þeirrar mikilvægu sérþekkingar sem póststörf krefjast.

Þetta eru, herra forseti, ýmsar spurningar sem ég hef sett fram og ég vonast til þess að fá svör við þeim. Ég held ég láti það liggja á milli hluta að vitna, herra forseti, í mikla greinargerð sem er frá Samkeppnisstofnun um Póst og síma einmitt þar sem Póstdreifing hf. lagði þetta mál fyrir Samkeppnisstofnun. Þar kemur ýmislegt fram um rekstur þessa fyrirtækis sem heitir Póstur og sími, hvernig hann er framkvæmdur og hvaða árangri menn telja sig hafa náð þar.

Ég læt þetta nægja í bili, herra forseti, en minni á að ósvarað er einum sjö spurningum sem ég lagði fram í ræðu minni og það er mjög mikilvægt fyrir mig að ég fái hrein og skýr svör við þessum sjö spurningum til þess að ég geti áttað mig á því hvernig ég greiði atkvæði um þetta mál ef til þess kemur.