Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 12:46:52 (6984)

1996-06-03 12:46:52# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[12:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður gefst ekki tími í stuttu andsvari til að fara út í ítarlega umræðu þannig að ég ætla aðeins að stikla á stóru. Ýmsir stjórnarandstöðuþingmenn og þar á meðal hv. þm. Ragnar Arnalds hafa gert tillögur um að aðrar leiðir verði skoðaðar. Sjálfseignarstofnun eða aðrar leiðir til að tryggja að um verði að ræða fyrirtæki í eigu ríkisins. Við höfum vakið máls á því að danski pósturinn hafi verið gerður að fyrirtæki í eigu ríkisins þótt reyndar verði hugsanlega breyting á því fyrirkomulagi þannig að menn hafa verið opnir fyrir því að skoða aðrar leiðir í því efni. Ég vitnaði t.d. í þá leið sem Frakkar hafa farið núna gagnvart starfsmönnum. Allt þetta er óunnið og óathugað af okkar hálfu.

Það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði um réttindi starfsmanna styrkir mig enn í þeirri afstöðu að það beri að fresta málinu fram á haustið vegna þess að öll þessi réttindi sem hann vísar í eru ótryggð. Það á eftir að ganga frá þessum málum. Menn verða að skilja að fólk er að fara úr einu réttindakerfi, út úr tilteknum lagabálki og inn í annað réttindakerfi. Hann vitnar sérstaklega í lífeyrismálin. Þar er það svo að menn munu halda réttinum til að vera í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins án þess að njóta sömu ávinnsluréttinda og þeir búa við í dag. Það er það sem breytist. Þetta er mjög stórt og veigamikið atriði. Ég tel að það væri hægt að ganga frá þeim málum með sérstakri löggjöf. Ég er þeirrar skoðunar. En þau mál verður að skoða og ræða.

Aðeins í örstuttu máli. Hv. þm. nefndi rök reynslunnar frá öðrum þjóðum og það er einmitt það sem ég reyndi að gera í máli mínu. Reynslan frá öðrum þjóðum er einmitt ekki svo góð. Eg ég á vonandi rétt á að koma aftur upp í andsvari og mun nýta mér þann tíma.