Þjónustusamningur við landssamtökin Heimili og skóla

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 13:32:49 (6985)

1996-06-03 13:32:49# 120. lþ. 158.8 fundur 330#B þjónustusamningur við landssamtökin Heimili og skóla# (óundirbúin fsp.), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[13:32]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Okkur þingmönnum hefur borist bréf frá landssamtökunum Heimili og skóli sem mig langar að gera að umtalsefni og leggja fyrir spurningu til hæstv. menntmrh.

Í bréfinu segir m.a.:

,,Í þrjú ár hafa landssamtök foreldra, Heimili og skóli, starfað svo til án stuðnings frá opinberum aðilum. Samtökin fengu 300.000 kr. á fjárlögum 1996 sem er óbreytt upphæð frá fyrra ári og er sama upphæð og Golfklúbbur Skagastrandar fær til að byggja áhaldageymslu. Ef stjórnmálamönnum er alvara með að vilja auka ábyrgð og áhrif foreldra í skólamálum, samanber grunnskólalög og flutning grunnskólans til sveitarfélaga, verður að koma til meiri stuðningur við foreldrahreyfinguna í landinu.``

Síðan segir í þessu bréfi:

,,Ekki er eftirsóknarvert að benda fleiri samtökum á ríkisjötuna í þeirri mynd sem nú tíðkast.``

Síðan er lögð til ákveðin lausn sem er svokölluð samningsstjórnun og lögð fram sú hugmynd að gerður verði þjónustusamningur milli landssamtaka foreldra, Heimilis og skóla, og menntmrn. t.d. til þriggja ára. Mér er kunnugt um að þessi hugmynd hefur verið kynnt fyrir menntmrh. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi í hyggju að gera þjónustusamning milli landssamtaka foreldra, Heimilis og skóla, og menntmrn. eða eitthvað annað til að styðja við foreldrahreyfinguna í landinu.