Rekstur sjúkrahúsanna í Keflavík og Hafnarfirði

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 13:41:16 (6991)

1996-06-03 13:41:16# 120. lþ. 158.8 fundur 332#B rekstur sjúkrahúsanna í Keflavík og Hafnarfirði# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[13:41]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. vegna niðurskurðar á sjúkrahúsi Keflavíkur og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Það liggur fyrir að um miklar sumarlokanir verður að ræða á þessum stofnunum og t.d. verður handlækningadeild St. Jósefsspítala lokuð í átta vikur í sumar sem er tveim vikum lengur en sl. sumar. Þar bíða nú þegar um 500 manns eftir aðgerð. Auk þess verður 1/3 hluta af lyflækningadeild lokað allt yfirstandandi ár. Margir þeirra sjúklinga sem bíða eftir sjúkrahúsplássi eru óvinnufærir meðan þeir fá ekki sjúkrahúsþjónustu og hefur þjóðfélagið mikinn kostnað af þessum biðlistum þó þeir peningar fari ekki beint út af fjárveitingum spítalanna. Ég spyr hæstv. heilbrrh. hvenær eigi að fara að skoða þessi útgjöld í samhengi. Auk þess spyr ég hvort öryggi sjúklinga sé ekki stefnt í voða með svo miklum niðurskurði á þessum sjúkrahúsum. Er ætlunin að halda áfram á þessari niðurskurðar- og lokunarbraut?

Ég minni einnig á að forsvarsmenn sjúkrahússins í Keflavík telja sig hafa fengið fyrirheit í tengslum við gerð minnisblaðs um frestun byggingar B-álmu um að uppsafnaður halli sjúkrahússins yrði greiddur. Það hefur ekki gengið eftir nema að hluta. Er von á því að það sem á vantar verði greitt fljótlega?