Aðgerðir stjórnvalda gegn grænfriðungum o.fl.

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 13:47:44 (6995)

1996-06-03 13:47:44# 120. lþ. 158.8 fundur 333#B aðgerðir stjórnvalda gegn grænfriðungum o.fl.# (óundirbúin fsp.), KPál
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[13:47]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Grænfriðungum tókst með undraverðum hætti að koma í veg fyrir allar hvalveiðar hverju nafni sem þær nefnast ef frá eru taldar frumbyggjaveiðar eskimóa. Veiði á hvölum virðist ekki vera á dagskrá 10 árum seinna þrátt fyrir að hvalastofnar séu stórir og alls ekki í útrýmingarhættu. Það nýjasta sem öfgasamtök af þessu tagi eru að gera er að berjast gegn veiðum á bræðslufiski eins og síld og loðnu. Þar virðast þessi samtök ná verulegum árangri strax og hefur tekist að neyða Unilever til að hætta notkun lýsis í framleiðslu sína. Unilever notar um 10--15% af allri lýsisframleiðslu heimsins í vörur sínar. Þeir hyggjast nýta sér sojaolíu í staðinn fyrir hana og er reyndar um mun dýrari vöru að ræða þar en lýsi.

Þetta þýðir að lýsisframleiðendur, þar á meðal íslenskir lýsis- og mjölframleiðendur, þurfa að leita sér nýrra kaupenda í stað Unilever. Grænfriðungar hafa neytt fleiri fyrirtæki til að hætta að kaupa lýsi úr bræðslufiski og er nýjasta dæmið kexframleiðandinn United biscuits og næst er það Heinz, Coop o.s.frv.

Herra forseti. Þetta er uggvænleg þróun fyrir okkur Íslendinga og algerlega úr takt við þá fiskverndarstefnu sem íslensk stjórnvöld hafa rekið. Loðnustofninn er í miklum uppgangi og síldin einnig. Ef litið er á þetta frá þjóðhagslegu sjónarmiði er heildarveiði íslenska flotans á síðasta ári 1.650 tonn upp úr sjó. Þar af er bræðslufiskur 945 þús. tonn eða 58,5% af öllum fiski úr sjó. Flutt voru út í fyrra 173 þús. tonn af mjöli og 90 þús. tonn af lýsi. Í útflutningsverðmætum er lýsi og mjöl 7,6 milljarðar kr. eða 8,7% af útflutningsframleiðslu sjávarafurða. Markaður fyrir 8,7% af útflutningsframleiðslu þjóðarinnar er í hættu með sama áframhaldi og afkoma alls loðnu- og síldarflotans og loðnuverksmiðja og byggðarlaga um leið ef ekkert verður að gert.

Herra forseti. Vegna þess vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. hvort ráðuneyti hans sé með einhver áform á prjónunum til að bregðast við þessum áróðri öfgasamtaka gegn eðlilegum veiðum og vinnslu sjávarafla. Ég spyr einnig hvort ríkisstjórnin muni hafa frumkvæði að viðræðum við þær þjóðir heims sem mestra hagsmuna hafa að gæta í þessu tilliti eins og Perúmenn, Chilebúa, nú og Dani, Norðmenn og fleiri. (Forseti hringir.) Að mínu mati er mjög nauðsynlegt að bregðast við þessum árásum strax og best ef hægt væri að ná saman öllum þeim þjóðum sem hagsmuna hafa að gæta. Það mun auka slagkraftinn á alþjóðavettvangi sem þarf að vera nægjanlega sterkur svo þessum árásum linni og áður en þessi ofstækissamtök grænfriðunga og fleiri komast lengra upp eftir baki fiskveiðiþjóða.

(Forseti (ÓE): Forseti biður ræðumenn um að sýna hver öðrum tillitssemi. Það eru fleiri sem hafa beðið um orðið en geta fengið orðið og ef ekki er gætt tímamarka falla fleiri af.)