Samningar við heilsugæslulækna og sumarlokanir Ríkisspítala

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 14:00:23 (7002)

1996-06-03 14:00:23# 120. lþ. 158.8 fundur 334#B samningar við heilsugæslulækna og sumarlokanir Ríkisspítala# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[14:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þessi svör og fagna því ef þokast í rétta átt með samninga gagnvart heilsugæslulæknum og vona að það gangi eftir. Hitt stendur eftir að ekki hefur verið staðið við lög og reglugerðir um uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar og sérstaklega hvað varðar heilsugæsluþáttinn og væri fróðlegt að fá svör ráðherrans gagnvart því atriði.

Það hefur komið fram í heilbrn. þingsins að ástæðan fyrir þessum lokunum á spítölunum er að sönnu sumarleyfi og erfiðleikar af þeim sökum en einnig fjármagnsskortur, en einnig og aðallega skortur á peningum. Þess vegna er undarlegt að ríkisstjórnin skuli vera tekin í bólinu ár eftir ár eftir ár þrátt fyrir alla þá gagnrýni sem hefur komið bæði frá þingmönnum og frá þjóðfélaginu öllu þar sem kvartað er yfir því ófremdarástandi sem skapast á hverju einasta ári. Þess vegna er ítrekuð sú spurning hvað ríkisstjórnin hyggist gera í þessum efnum og einnig væri fróðlegt að vita hvað ráðherra ætlar að gera gagnvart heilbrn. þingsins, hvort hún fái að fylgjast með framgangi mála í sumar.