Málefni einhverfra

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 14:03:09 (7004)

1996-06-03 14:03:09# 120. lþ. 158.8 fundur 335#B málefni einhverfra# (óundirbúin fsp.), SvG
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[14:03]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum ræddum við, ég og hæstv. félmrh. um vanda einhverfra barna en þannig er að um að ræða mjög alvarlegan flöskuháls í greiningu þeirra eins og sakir standa, sérstaklega vegna þess að barna- og unglingageðdeildin tekur ekki lengur við tilvísun. Það er ljóst að grípa verður til sérstakra ráðstafana. Í ákveðinni skýrslu um þessi mál sem skrifuð hefur verið er gert ráð fyrir því að stofnað verði fagteymi sérfræðinga við Greiningarstöð ríkisins sem taki sérstaklega á þessu máli. En málið liggur hins vegar þannig að engin ákvörðun hefur verið tekin í þessum efnum og vandamálin hrannast upp. Hér er um að ræða mjög alvarleg og erfið vandamál varðandi börn með einkenni einhverfu af einhverju tagi.

Mér er ljóst að starfandi hæstv. heilbrrh. þekkir tæplega þessi mál í þaula, en ég vildi þó koma þeim á blað fyrir lok þingsins ef svo fer, mót óskum hæstv. heilbrrh., að þinginu ljúki einhvern tíma. Þess vegna nefni ég það við hæstv. starfandi félmrh. hvort ráðherra mundi beina því til hæstv. félmrh. og ráðuneytisins að ganga í þessi verk því að hér blasa við stóralvarleg mál á fjölda heimila þar sem um er að ræða einhverf börn.