Eiginfjárstaða Landsbankans og tap Lindar hf.

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 14:07:32 (7008)

1996-06-03 14:07:32# 120. lþ. 158.8 fundur 336#B eiginfjárstaða Landsbankans og tap Lindar hf.# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[14:07]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur eiginfjárstaða Landsbankans verið það slæm að ríkið hefur þurft að koma til aðstoðar sem ábyrgðaraðili til að styrkja stöðu hans. Ég minni á 1.250 millj. kr. víkjandi lán hjá Seðlabanka í desember 1992, 2 milljarða kr. fjárhagsaðstoð frá ríkissjóði í mars 1993 og 1 milljarðs kr. víkjandi lán úr Tryggingasjóði viðskiptabanka. Svo má nefna milljarðinn frá í vetur, víkjandi lán reyndar, vegna endurfjármögnunar.

Nýverið kom fram í fjölmiðlum að áætlað er að Landsbankinn hafi tapað um 600 millj. kr. vegna dótturfyrirtækis hans, eignarleigufyrirtækisins Lindar. Þar sem Landsbankinn er í eigu allra landsmanna og þetta eitt mesta tap bankans vegna eins fyrirtækis frá upphafi, óska ég eftir afstöðu hæstv. viðskrh. og upplýsinga frá honum um eftirfarandi atriði:

Er það rétt að tap Landsbankans vegna Lindar hafi verið á milli 600 og 700 millj. kr.? Ef svo er hvernig er bankanum ætlað að ráða við þetta mikla tap miðað við erfiða eiginfjárstöðu bankans?

Hvaða ákvarðanir leiddu til þessa mikla taps og hverjir eru ábyrgir fyrir því? Telur hæstv. ráðherra ástæðu til þess að láta utanaðkomandi aðila skoða eða kanna hina ýmsu þætti þessa máls þar sem um háar upphæðir er að ræða af almannafé?