Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 14:35:48 (7018)

1996-06-03 14:35:48# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[14:35]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér fer fram 2. umr. um frv. til laga um stofnu hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar ásamt fylgifrumvörpum um breytingu á póstlögum og um breytingu á lögum um fjarskipti. Ég tel rétt að lýsa mínum viðhorfum til þessara mála við 2. umr. Ég hef ekki tekið þátt í henni fram að þessu.

Í ljósi þess hvað hér er um gífurlega stórt mál að ræða og þýðingarmikið og sem varðar ákveðin grundvallaratriði er eðlilegt að sem flestir þingmenn lýsi skoðunum sínum í því efni. Auðvitað kemur fram í sambandi við þetta mál, virðulegi forseti, að menn treysta ekki núv. hæstv. ríkisstjórn til þess að fara með þær heimildir sem hugmyndin er að aflað verði með lögum um að breyta Pósti og síma í hlutafélag. Menn treysta því ekki að ríkisstjórnin muni standa við það að hreyfa ekki það eina hlutabréf sem varðveitt verður í skúffu hjá hæstv. samgrh. samkvæmt ákvæðum frv. og óttast að sá mikli þrýstingur sem hefur verið á einkavæðingu af hálfu núv. hæstv. ríkisstjórnar og sem tekið hefur verið undir af mörgum sem styðja ríkisstjórnina, verði til þess að í framhaldi af þeirri breytingu sem hér er áformuð, þ.e. að breyta Pósti og síma í hlutafélag, geti dregið að því að hér á Alþingi verði með einfaldri samþykkt ákveðið að einkavæða fyrirtækið með því að bjóða hlutafé þess til sölu á almennum markaði. Það vantar mjög mikið á að hér hafi komið fram af hálfu talsmanna þessa máls skýr loforð um í þessum efnum, tímasett loforð um spurninguna um einkavæðingu eða ekki og fjölmargt sem tengist málinu og það ofurkapp sem lagt er á um að ná fram kerfisbreytingunni sem felst í frv. veldur auðvitað þeirri tortryggni sem ég hef gert að umtalsefni.

Það er nefnilega svo, virðulegur forseti, að þau rök sem fram eru borin og hv. þm. Einar Guðfinnsson hefur mælt fyrir sem talsmaður meiri hluta samgn. og sem hæstv. samgrh. einnig hefur borið fram í sínu máli um það hvaða þýðingu það hefði, hvaða ástæða sé fyrir því að breyta fyrirtækinu í hlutafélag, eru mjög langt frá því að vera trúverðug. Það er alveg með ólíkindum að það skuli seilst jafnlangt eins og gert hefur verið af talsmönnum meiri hlutans í þessu máli í þeirra málflutningi fyrir því að þessi formbreyting sem hér á að verða sé nauðsynleg.

Póst- og símamálastofnunin er eitt allra best rekna fyrirtækið í þessu landi, fyrirtæki sem hefur skilað arði og það ekkert lágum upphæðum á mörgum undanförnum árum. Þessi arður verið eitt besta búsílag sem ríkissjóður hefur fengið hjá nokkru fyrirtæki í landinu. Og það er jafnframt tekið fram og viðurkennt af þessum hv. talsmönnum að Póstur og sími sé nú eins og undir núverandi rekstrarformi eitt allra best búna fyrirtæki í landinu til þess að annast þá þjónustu sem því er ætlað að sinna. Og það er mjög sérkennilegt svo ekki sé dýpra í árinni tekið að við þær aðstæður sé lagt slíkt ofurkapp á að breyta fyrirtækinu í hlutafélag eins og raun ber vitni. Það er líka enginn sannfæringarkraftur, virðulegur forseti, í þeim ummælum sem fram hafa omið um það að ástæðulaust sé fyrir þá sem eru andstæðingar þessa máls að óttast að fyrirtækið verði boðið til sölu að hluta eða í heild á almennum markaði í framhaldi af breytingu þess í hlutafélag. Það er enginn kraftur á bak við yfirlýsingar þar að lútandi enda alveg ljóst að það þarf ekki nema ofureinfalda samþykkt, vissulega meirihlutasamþykkt á Alþingi, til þess að þetta verði staðreynd. Það er mjög margt í baklandi þeirra flokka sem að ríkisstjórninni standa sem ber vott um að þessi þrýstingur er þegar uppi og mun aukast ef frv. verður að lögum sem líkur eru því miður á að verði. Þessi tortryggni er ekkert einskorðuð við stjórnarandstöðuna. Þessi tortryggni kemur fram einnig í röðum stjórnarflokkanna með jákvæðu eða neikvæðu formerki eftir atvikum.

Ég leyfi mér í sambandi við það að minna á leiðara sem hv. formaður fjárln., Jón Kristjánsson, ritaði í málgagn sitt, því að hv. þm. er einnig ritstjóri vikublaðs sem gefið er út á Austurlandi undir heitinu Austri. Þar skrifar hv. formaður fjárln. í blað sitt um þetta efni undir fyrirsögninni ,,Síðasta skrefið?``, þann 14. mars 1996 þannig að þessi spurning kemur einnig úr innstu röðum ríkisstjórnarinnar hjá ábyrgðarmanni eins og hv. þm. Jóni Kristjánssyni sem hefur verið treyst til trúnaðarstarfa á vegum ríkisstjórnarinnar til að leiða fjárln. sem gæti einmitt orðið sá vettvangur sem svaraði þessari spurningu: Síðasta skrefið, já eða nei?, með því að taka inn á fjárlög heimild í 6. gr. fjárlaga um það að fyrirtækið Póstur og sími hf. verði til sölu á almennum markaði. Hjá ritstjóranum er þetta eitt stórt spurningarmerki: Síðasta skrefið? Og til þess að varpa aðeins ljósi á málflutninginn og þokuna sem er yfir þessu máli hjá Framsfl., samstarfsflokki Sjálfstfl., þá taldi Framsfl. ástæðulaust að endurrita starfslýsingu ríkisstjórnarinnar frá því sem var í fyrri ríkisstjórn. Hann sá ekki ástæðu til þess einu sinni að búa til sérstaka samstarfslýsingu eða verkefnislýsingu eins og þó hafði verið gengið frá í stjórnarsáttmála, heldur lætur sér nægja átta síðna kver í brotinu A-5 sem sett var saman 23. apríl 1995 og hverfur frá því að gefa sundurliðaða áætlun um væntanleg verkefni einstakra ráðuneyta á kjörtímabilinu og vísar bara í stefnulýsingu væntanlega fyrrv. ríkisstjórnar: Velferð á varanlegum grunni.

Það vekur athygli að það er eitt og annað í málatilbúnaði Framsfl. sem liggur mjög nærri því sem var hjá Alþfl. í síðustu ríkisstjórn. Þá á ég við þær áherslur hjá þeim flokki sem ganga lengst í svokallaða frjálsræðisátt í sambandi við viðskipti og alveg sérstaklega í sambandi við alþjóðatengsl. Á ég þar við nálgunina gagnvart Evrópusambandinu þar sem svo horfir að Framsfl. sé að sigla hraðbyri í fótspor Alþfl. í sambandi við það stóra mál. En hvað segir ritstjóri Austra, virðulegur forseti, 14. mars sl. um þetta, með leyfi forseta:

[14:45]

,,Nú eru uppi áform um að breyta Póst- og símamálastofnun í hlutafélag og hefur frv. þess efnis verið lagt fram á Alþingi og er þar til meðferðar. Ástæður þess eru þær að tæknibreytingar, breytingar á rekstrarformi sams konar stofnana í nágrannalöndum okkar og aðild okkar að alþjóðasamningi krefjast þess að sveigjanlegra form sé í stjórnun en ríkisrekstri. Frv. gerir ráð fyrir því að hlutafélagið um Póst- og símamálastofnun sé í eigu ríkisins og engin áform fylgja þingmálinu um sölu hlutabréfa ríkisins. Póst- og símamálastofnun er afar mikilvægt fyrirtæki og á sviði fjarskipta eru gífurlegar tæknibreytingar, jafnvel meiri en á nokkru öðru. Almenningur í landinu sér og reynir þetta á tækjum sem eru almenningseign en voru algerlega óþekkt fyrir nokkrum árum.

Það er ekki ýkjalangur tími síðan handvirkur sími var í sveitum á Íslandi. Síðan hefur komið bílasími, fyrst handvirkur og síðan sjálfvirkur. Í kjölfarið hefur komið GSM-sími. Myndsendir er orðin almenningseign og samband um tölvur og samband um svokallaðan Veraldarvefinn`` --- með stórum staf --- ,,ryður sér nú mjög hratt til rúms. Öll þessi tækniþróun krefst skjótra viðbragða í málefnum símans og staðreyndin er að allt þetta hefur gefið stofnuninni miklar tekjur. Stofnunin er rekin með verulegum tekjuafgangi og hefur verið að skila eiganda sínum, ríkinu, arði sem nemur allt að 1 milljarði kr. nú árlega síðustu árin.

Ljósleiðari hringinn í kringum landið er ein af undirstöðum þeirrar gífurlegu tækniþróunar sem orðið hefur í fjarskiptum og gefur nær ótæmandi möguleika. Eitt af því sem hann hefur í för með sér er það að skilyrði ættu nú að vera til þess að jafna símkostnað til fulls og ætti að nota tækifærið nú og búa svo um í löggjöf að landið verði eitt gjaldsvæði og stíga skrefið til jöfnunar til fulls. Flutningur fjarskipta er með allt öðrum og greiðari hætti eftir þessum boðleiðum en áður.

Annað mál sem stendur upp á ríkisstofnanir er að semja um flutning útvarps- og sjónvarpsdagskrár um dreifikerfi Póst- og símamálastofnunar. Því verður vart trúað við þessar nýju aðstæður að ekki sé heppilegra að semja um slíkt heldur en halda áfram að byggja upp sérstakt dreifikerfi fyrir RÚV. Einkaaðilar hafa farið þessar samningaleiðir. Sú þjónusta sem Póst- og símamálastofnun veitir er afar mikilvæg fyrir landsbyggðina og það er ástæða til þess fyrir landsbyggðarfólk og fulltrúa þeirra á Alþingi og í sveitarstjórnum að fylgjast grannt með þróun þessara mála og breytingar verði ekki til þess að veikja þá þjónustu. Eins og frv. er mun ekki ástæða til þess að óttast það, en allur er varinn góður.`` Tilvitnun lýkur í leiðara, skrifaðan af hv. formanni fjárln. í blaðið Austra.

Eins og hér má sjá er ekkert kveðið upp úr um það af þeim sem þarna heldur á penna hvort hann telur að hér sé verið að stíga síðasta skrefið eður ei. Það er engri skoðun lýst um það hjá þessum talsmanni Framsfl. hvort eigi að stíga næsta skref, einkavæða Póst og síma eður ei. Hér er öllu haldið galopnu, hér er allt óskrifað blað af hálfu Framsfl. í þessu máli alveg eins og gildir um samstarf ríkisstjórnarflokkanna þar sem valinn er sá kostur að skila auðu og láta væntanlega Sjálfstfl. eins og í flestum öðrum málum um leiðsögnina, ráða ferðinni. Þessi staða er innsigluð með því sem hér kom fram í dag. Það er horfið frá því í góðu samkomulagi stjórnarflokkanna að standa þinginu skil á verkefnalýsingu ráðuneyta miðað við þetta kjörtímabil. Það undirstrikar, eins og við höfum haldið fram í stjórnarandstöðu, hina algeru tækifærismennsku Framsfl. í þessu stjórnarsamstarfi. Ekki er því séð ástæða til þess að setja einu sinni á blað neinar yfirlýsingar um það hvert halda skuli. Þar á að haga seglum eftir vindi að því er virðist og spurningunni um síðasta skrefið í þessu máli er ekki reynt að svara. Það er engin skoðun, aðeins étnar upp almennar staðhæfingar úr greinargerð með þessu frv. sem er einhver loðnasta samsetning og samsuða, virðulegur forseti, sem ég hef farið yfir. Þar er með mjög almennum orðum og án nokkurs fullnægjandi rökstuðnings verið að reyna að færa rök fyrir þeirri formbreytingu sem felst í þessu frv., þ.e. að breyta Pósti og síma í hlutafélag.

Ég leyfi mér, virðulegur forseti, aðeins að líta á greinargerðina eins og hún er með þessu frv. vegna þess að þar er rökstuðning að finna, þann rökstuðning sem talsmenn málsins hafa síðan étið upp hver á fætur öðrum úr þessum ræðustóli. Ég skal hafa beinar tilvitnanir í skemmra lagi í sjálfan textann í þessari greinargerð, en þar er verið að láta að því liggja að breytingar í umheiminum í kringum okkur geri þetta að knýjandi nauðsyn, geri þessa formbreytingu að knýjandi nauðsyn. Það er öðrum þræði verið að leiða að því líkur að aðild okkar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði kalli á þessa formbreytingu. Þegar hins vegar betur er að gáð liggur það ekki fyrir. Það hafa ekki verið settar neinar þær tilskipanir í sambandi við þetta mál sem gera þessa breytingu nauðsynlega til þess að uppfylla skilyrði hins Evrópska efnahagssvæðis. (EKG: Svo slæmur er samningurinn ekki.) Svo slæmur er samningurinn ekki, segir hv. þm. Einar Guðfinnsson. Ja, það er gott að hv. þm. hefur eitthvað að hugga sig við. Hann er einn af ábyrgðarmönnum þessa samnings. En þar skyldu menn ganga hægt um gleðinnar dyr því að hvað er það sem er að gerast á orkusviðinu núna, hv. þm.? Hvað er það, virðulegi forseti, sem er að gerast á orkusviðinu hjá hinu Evrópska efnahagssvæði? Þar var einmitt viðhaft það sama og kemur fram núna hjá hv. þm. Svo slæmur er samningurinn ekki. Þegar við gerðum samninginn um Evrópskt efnahagssvæði 1993 sem tók gildi 1. janúar 1994 voru ekki mjög margar tilskipanir komnar á orkusviðinu. En síðan hafa þær komið. Það voru einar tvær sem var gerð grein fyrir á sínum tíma og menn þurftu út af fyrir sig ekki að hafa þungar áhyggjur af þeim varðandi sölu orkumála og rekstrarform orkufyrirtækja í landinu. En núna er Evrópusambandið að undirbúa nýja tilskipun. Um hana hefur verið rætt á Alþingi nýlega. Ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma heldur bara benda á að spurningin er um grundvöllinn. Hvað fellur undir fjórfrelsið og hvað ekki samkvæmt skilgreiningu?

Auðvitað getur framkvæmdastjórnin í Brussel hvenær sem er tekið sig til og gert bindandi tilskipun í sambandi við fjarskipti sem við yrðum þá að taka afstöðu til á Alþingi, já eða nei. Þannig að þau viðbrögð hv. þm. varðandi samninginn að það megi meta hann á grundvelli fyrirliggjandi tilskipana eru allt of einföld. Svo einfalt er málið ekki. Það er grundvöllurinn sem ræður og þar er Ísland statt í þeim ömurlegu sporum að vera eins og vélarvana bátur hengdur aftan í skip, geta ekki ráðið nokkrum sköpuðum hlut og gildir það um þetta. En það er rétt, það eru engar tilskipanir nú til staðar á hinu Evrópska efnahagssvæði sem gera það óhjákvæmilegt fyrir Íslendinga að breyta Pósti og síma í hlutafélag. Svo langt er ekki komið. En hér kemur einmitt fram það sem er mjög algengt og er að endurtaka sig hér á landi eins og í mörgum öðrum ríkjum. Þeir sem tóku stefnuna á hið Evrópska efnahagssvæði og þeir sem gæla við það að ganga lengra eða ímynda sér að það komi nýjar tilskipanir með þessum eða öðrum hætti frá Evrópusambandinu vilja vera á undan, stíga skrefin á undan til þess m.a. að lenda ekki í þeirri óþægilegu aðstöðu að þurfa að hlýða eins og þægir rakkar þegar ákvarðanir eru komnar í Brussel og ekki verður undan vikist. Það er kannski það sem er einmitt á ferðinni í sambandi við þetta mál. Það segir, virðulegur forseti, í athugasemdum með frv. m.a., með leyfi forseta:

,,Með tilliti til þeirrar þróunar, sem á sér stað í EES-löndum um þessar mundir, er brýnt að Póst- og símamálastofnun sé undir það búin að mæta þeirri samkeppni sem í vændum er, einkum á sviði fjarskiptamála, en í löndum ESB er nú einnig unnið að afnámi einkaréttar á póstþjónustu. Sem stendur er óljóst hvenær einkaréttur á póstþjónustu í löndum ESB verður afnuminn, en búast má við að til þess komi innan fárra ára. Þrátt fyrir að ekki sé búið að ákveða framtíðarskipulag póstmála í löndum ESB til hlítar hefur einnig verið gripið til breytinga á rekstrarformi póstþjónustu ýmissa landa innan þess.``

Síðan er það rakið með dæmum hvernig þessum málum er fyrir komið. Það er nákvæmlega þetta sem ég hef verið að leiða líkur að, menn gerast kaþólskari en páfinn og það er verið að reyna að færa þetta mál í þann búning að við verðum að gera þessa breytingu til þess að uppfylla meinta þróun í nágrannalöndum eða yfirvofandi ákvarðanir á vegum Evrópusambandisins.

Síðan kemur það fram, virðulegur forseti, í meginniðurstöðu nefndarinnar sem undirbjó frv. að það sem nefndin kallar sjálfstætt atvinnufyrirtæki á þessu sviði gæti veitt landsmönnum ódýrari og betri þjónustu en ella og yrði jafnframt traustari vinnustaður fyrir starfsfólk. Sjálfstætt atvinnufyrirtæki. Samkvæmt þessari skilgreiningu höfunda frv. er Póstur og sími ekki sjálfstætt atvinnufyrirtæki. Til þess að vera sjálfstætt atvinnufyrirtæki þarf væntanlega að breyta rerkstrarforminu eins og hér er lagt til samkvæmt skilgreiningum höfunda. Það er athyglisvert að sjá hér staðhæfinguna um traustari vinnustað fyrir starfsfólk. Það hefur einmitt verið eitt umdeildasta atriði þessa frv. hvernig skilið er við starfsfólk fyrirtækisins. Það er skilið við það í mikilli óvissu um stöðu sína og ríkisvaldið lætur sér sæma að knýja fram löggjöf á Alþingi í þessu máli án þess að vera búið að gera það ljóst hvernig réttindum starfsmanna þessa stóra fyrirtækis verður háttað. Það er einn ljótasti bletturinn á þessu máli hvernig að því hefur verið staðið og það þýðir lítið að vísa til staðhæfinga um það að fyrirtækið verði traustari vinnustaður fyrir starfsfólk meðan staðan er þessi. Nefndin telur eðlilegustu leiðina að þessu marki að stofna til hlutafélags um póst- og símaþjónustu eins og fram kemur í frv. Síðar segir í greinargerðinni eftir að rakin hefur verið væntanleg stóraukin samkeppni einkum af hálfu erlendra aðila en einnig innlendra fyrirtækja á allra næstu árum:

[15:00]

,,Við þessu þarf að bregðast með skynsamlegum hætti eins og víða hefur verið gert meðal Evrópuþjóða. Að öðrum kosti má búast við að þessi þjónusta verði ekki veitt á hagkvæman hátt og hún færist meira eða minna í hendur erlendra fyrirtækja.``

Hér er brugðið upp þessari grýlu. En við hljótum að spyrja: Hvað tengist því að breyta rekstrarformi fyrirtækisins til þess að koma í veg fyrir þá samkeppni sem hér er vísað til? Hvað styður það? Ég hef ekki séð þau rök og ég tel þvert á móti að fram hafi verið færð mjög gild rök fyrir því að fyrirtækið geti sinnt hlutverki sínu ágætlega og mætt harðnandi samkeppni einmitt vegna þess hvernig því hefur verið stýrt og hvernig haldið hefur verið á málum af hálfu þess.

Hins vegar er jafnljóst að verði fyrirtækið einkavætt eins og við óttumst, sem mælum gegn þessu máli hér, er alveg ljóst að sá arður sem Íslendingar hafa af því haft er ekki fastur í hendi. Það er alveg ljóst að þá koma til erlendir aðilar til þess að bjóða í eignina, eignast þann hlut og staðan gæti þá orðið ekki ósvipuð því og nú er í Danmörku í sambandi við póst- og símaþjónustu sem hefur verið mjög arðbær en þar sem arðurinn sem mældur er í um 11 milljörðum kr. um þessar mundir fer að drjúgum hluta úr landi vegna þess að erlendir einkaaðilar hafa eignast hlut í fyrirtækinu og flytja hagnaðinn af fyrirtækinu úr landi. Hér segir í greinargerð:

,,Augljóst er að stjórnendur sjálfstæðs íslensks fyrirtækis á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu geta á mun auðveldari hátt brugðist við síbreytilegum aðstæðum á markaði og segja má að sjálfstætt hlutafélag á þessu sviði yrði að öllum líkindum mun arðbærara fyrirtæki, samkeppnishæfara og jafnframt áhugaverðari vinnuveitandi fyrir starfsfólk en ríkisstofnun með svipuðu sniði en verið hefur.``

Virðulegur forseti. Þetta er dæmalaus runa staðhæfinga án þess að nokkur skýr rök séu leidd að því að það fái staðist sem haldið er fram. Satt að segja er ömurlegt til þess að vita að flytjendur þessa máls skuli láta við það eitt sitja að bera fram slíkar almennar staðhæfingar. Auðvitað hefði ríkisvaldinu borið að leiða mjög skýrt fram rök fyrir því að sú breyting sem hér er verið að leggja til sé skynsamleg. Það hefur ekki verið gert. Með þennan pappír í höndum og með þær staðhæfingar sem hafa komið fram af hálfu talsmanna þessa máls er það alveg óskrifað blað eins og starfsáætlun og verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar hvað upp úr þessu eigi að fást á forsendum þeirra sem málið flytja og bætir þar engu um nefndarálit frá meiri hluta samgn. eða þær breytingartillögur sem þar er að finna.

Það eru mörg atriði, virðulegur forseti, í sjálfum frumvarpstextanum sem eru stórvarasöm að því er varðar framtíð fyrirtækisins Pósts og síma hf. verði frv. lögfest. Það gildir m.a. um 2. gr. frv. með heimildir fyrir hlutafélagið til að stofna nýtt félag eða félög sem alfarið verði í eigu þess til að annast ákveðna þætti í starfsemi þess. Þar er margt óljóst, m.a. staða starfsfólks eins og almennt varðandi þetta mál, og það gildir um margar fleiri greinar sem varða möguleika stofnunarinnar til þátttöku í öðrum félögum. Sitthvað hefur lítið verið skýrt eins og ákvæði 14. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Nú óska stjórnvöld eftir því að Póstur og sími hf. leggi fram framkvæmdir eða rekstur til almannaheilla í öryggisskyni fyrir landsmenn eða vegna byggðasjónarmiða sem ljóst er að ekki skilar arði og skal þá gera um það samning milli ríkisstjórnarinnar og Pósts og síma hf.``

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. frsm. meiri hluta samgn. að því hvers sé að vænta í ljós þessa lagaákvæðis, að hve miklu leyti hv. samgn. hafi gert sér grein fyrir því á hvað geti reynt í krafti 14. gr. frv. Nú ætla ég ekki að hafa á móti því að verði þetta frv. að lögum þá verði tryggilega staðið við þau sjónarmið sem kveðið er á um í þessari grein varðandi öryggi og byggðasjónarmið til þess að tryggja öllum þegnum landsins jafna þjónustu á þessu undirstöðusviði. Það er auðvitað mjög mikilvægt, en hvers er að vænta í sambandi við kostnað og útgjöld þar að lútandi? Fram að þessu hefur Póstur og sími tekið á sig skuldbindingar og staðið fyrir viðleitni til þess að bæta þjónustu við hinar dreifðu byggðir. Eins og menn þekkja er þetta fyrirtæki og Íslendingar þar með fyrstir í heiminum til þess að taka upp stafrænt kerfi símans. Þar með hefur fyrirtækið á marga lund verið til hreinnar fyrirmyndar að þessu leyti. En auðvitað þarf að gæta þess að staðan sé til þess að halda áfram á þessari braut og það ákvæði sem fylgir í tillögu frá meiri hluta samgn. eftir að minni hlutinn hafði flutt tillögu um það að breyta landinu í eitt gjaldsvæði, þá hefur meiri hlutinn fallist á það góðu heilli að fara að þeirri tillögu og gera landið að einu gjaldsvæði frá miðju ári ef ég man rétt, 1998. Allt er gott um það að segja og þar uppskerum við sem nú erum í stjórnarandstöðu nokkuð af erfiði okkar og þrýstingi okkar á ríkisstjórnina í þessu efni, en það er ljóst að þetta getur kostað fyrirtækið nokkuð og aðstaða þess er veikt að mati mínu til þess að sjá fyrir slíku og því getur reynt á það að í stað þess að ríkissjóður hefur notið verulegra upphæða í beinum tekjum af fyrirtækinu, sem minnka til mikilla muna eftir þessa breytingu, þá getur málið snúist við þannig að stjórnvöld þurfi að standa skil á sérstökum greiðslum með samningum til þess að létta á fyrirtækinu eða tryggja það að fyrirtækið geti staðið við öryggiskröfur og jafnræðiskröfur að því er varðar þjónustu við alla landsmenn.

Virðulegur forseti. Eitt það ljótasta sem snýr að þessu máli er það sem varðar afstöðuna til starfsmanna Pósts og síma. Um það hefur margt verið sagt réttilega af stjórnarandstæðingum í umræðunni og þarf ég ekki þar mörgu við að bæta. Ég vil aðeins segja að það er með ólíkindum að menn skuli leyfa sér það og segir sitt um hug ríkisstjórnarinnar til starfsfólks almennt sem hefur verið og er í þjónustu ríkisins að farið skuli með það eins og ráðgert er að skila þar auðu í sambandi við réttindi þess við formbreytingu á fyrirtækinu eins og hæstv. ríkisstjórn er að gera. Þetta er afar alvarlegt mál og ég legg áherslu á að það er óverjandi að mínu mati með öllu að standa þannig að málum.

Það stóra svið sem er um að ræða er vissulega í örri þróun og það er mikið ánægjuefni hvernig Póstur og sími sem ríkisfyrirtæki hefur búið sig undir að mæta þeirri þróun. Ekkert bendir til þess að fyrirtækið sé ekki prýðilega í stakk búið til þess að gera það eftir sem áður og hitt miklu frekar að það er mikið áhyggjuefni að með þeirri formbreytingu, sem hér er verið að innleiða, að ekki sé talað um næsta skrefið, spurningarmerki, eins og fram kom í ritstjórnargrein framsóknarmannsins sem ég vitnaði til áðan, að það muni leiða til þess að fyrirtækið verði veikt og geta til þess að sinna því verkefni sem það hefur sinnt með sóma fram með þessu verði erfiðari og ótryggari. Það er það sem við óttumst sem vörum við lögfestingu málsins og það er það sem skiptir í rauninni mestu. Auðvitað sker reynslan úr um það að hve miklu leyti við höfum rétt fyrir okkur í þessu efni. Stóra spurningin er um það hvenær kemur til þess að reynt verði að stíga næsta skref í þessu máli, einkavæða stofnunina. Því svörum við ekki og við því hafa þeir sem bera þetta mál fram ekki gefið nein viðhlítandi svör. Þar er skilað auðu. Það er látið í óvissu framtíðar hvort og hvenær til þess kunni að koma og það er hin stóra spurning sem svífur yfir þessu frv. sem við ræðum nú. Þess vegna höfum við stjórnarandstæðingar lagt ríka áherslu á að þetta mál verði athugað allt mun betur af hálfu þingsins áður en til lögfestingar kemur enda ekkert sem rekur á eftir því að stíga þetta skref nú.