Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 15:13:07 (7019)

1996-06-03 15:13:07# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[15:13]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mörg orð um það sem kom fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar áðan. Meginefni ræðu hans voru almennar vangaveltur og almennar skoðanir hans um fyrirtækið og þá formbreytingu sem fram ætti að fara á því. Í sjálfu sér hef ég rætt þau mál ítarlega fyrr í umræðunni. Hins vegar spurði hv. þm. sérstaklega um afstöðu mína til 14. gr. frv. þar sem er kveðið á um það að veitt sé heimild til þess að stjórnvöld gætu komið til samstarfs við Póst og síma ef það þarf að leggja í framkvæmdir eða rekstur til almannaheilla í öryggisskyni fyrir landsmenn eða vegna byggðasjónarmiða sem ljóst er að skili ekki arði.

Ég sé ekkert í núverandi starfsemi Pósts og síma sem kalli sérstaklega á að slíkir samningar séu gerðir. Það er auðvitað ljóst að það starfsleyfi sem Pósti og síma hf. verði veitt, verði þetta frv. samþykkt, mun fela í sér ákveðnar skyldur til handa þessu fyrirtæki alveg eins og gert verður með önnur fyrirtæki sem fá starfsleyfi til þess að reka fjarskiptaþjónustu hér á landi. Það er auðvitað það sem býr að baki til að mynda breytingartillögum okkar í meiri hluta samgn. við fjarskiptalögin um áskilnaðinn um eitt gjaldskrársvæði að þar er verið að gera kröfur til þess að öll fyrirtæki sem starfa hér á landi á þessum sviðum verði auðvitað að búa við sambærileg rekstrarskilyrði og sambærilega rekstrarhætti þannig að það er verið að gera þar almennar kröfur til allra fyrirtækja sem starfa á fjarskiptasviði. Það er mjög þýðingarmikið að ekki verði lagðar sérstakar byrðar á Póst og síma hf. umfram það sem er verið að leggja á önnur fyrirtæki og það er eitt af megingagnrýnisatriðunum sem ég hef haft uppi um brtt. minni hluta samgn. við frv. um Póst og síma þar sem kveðið er sérstaklega á um áskilnað til handa Pósti og síma að halda hér uppi tiltekinni dreifingu á pósti og fjarskiptasviðinu á einu gjaldskrárverði.