Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 15:15:36 (7020)

1996-06-03 15:15:36# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[15:15]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki finnst mér þetta fullnægjandi svar af hálfu hv. talsmanns samgn. og meiri hluta samgn. Ég spurði hvort nefndin hefði farið í saumana á því hvort og þá í hvaða mæli kynni að reyna á ákvæði þessarar greinar. Ég óttast satt að segja að það verði ansi erfitt að seilast í vasa ríkissjóðs og fjmrh. framtíðarinnar til þess að tryggja að Póstur og sími fái fjárveitingar úr ríkissjóði til þess að standa undir því sem skilgreint væri sem íþyngjandi framkvæmdir til þess að sinna öryggis- og byggðarsjónarmiðum og miklu hættara við að þetta verði til þess að veikja almenna stöðu fyrirtækisins í samkeppni þá við væntanlega keppinauta. Ég minnist þess að fyrir allnokkru síðan, einum og hálfum áratug, var uppi hugmynd að standa hliðstætt að málum Rafmagnsveitna ríkisins, þ.e. að það kæmu bein framlög úr ríkissjóði og framkvæmdir fyrirtækisins væru flokkaðar í arðbærar framkvæmdir og ekki arðbærar framkvæmdir. Þegar til kastanna kom varð ekki mikið úr efndum á þeim hugmyndum einfaldlega vegna þeirra sjónarmiða sem við þekkjum, fjmrh. hverrar tíðar reynir að verja sitt ríki og hætt við því að ekki verði staðið við almennar skuldbindingar af þessum toga. Enda gerði hv. talsmaður meiri hlutans ekki ráð fyrir því af sinni hálfu að á þetta reyndi mikið. Það kemur kannski eitthvað skýrara svar hér á eftir.