Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 16:41:50 (7024)

1996-06-03 16:41:50# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[16:41]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði rétt áðan að við værum að tala um lifandi fólk sem þyrfti á atvinnuöryggi að halda. Ég er svo sannarlega sammála honum. En raunverulega í sama orði segir hæstv. ráðherra og ítrekar það sem hann hefur sagt áður að það sé eðlilegt að fólk viti ekkert um réttarstöðu þess áður en þetta frv. verður samþykkt. Við erum að tala um það að fólk viti hvað þessi formbreyting þýði varðandi réttarstöðu þess. Á að mismuna fólki eftir því hvort um er að ræða fólk sem var í vinnu fyrir formbreytinguna eða eftir formbreytinguna? Verða kjarasamningar lausir þegar frv. verður að lögum? Verða samningar lausir hjá þessu launfólki um áramót eins og hjá öðrum? Verður um að ræða einstaklingsbundna samninga o.s.frv. o.s.frv.? Heldur fólk vinnu sinni eftir þessar breytingar? Þetta eru grundvallatriði sem eðlilegt er að spurt sé um.

Ég vil spyrja ráðherrann um það sem hann ekki svaraði. Ég óska eftir að það sé ekki annar fundur á meðan ég er að reyna að beina þessari spurningu til ráðherrans. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að starfsfólkið fái a.m.k. einn fulltrúa í þessa þriggja manna undirbúningsnefnd sem á að fjalla um kjör þess og réttarstöðu? Ég ítreka það. Mun ráðherrann beita sér fyrir því að starfsfólkið fái einn fulltrúa í þessa þriggja manna undirbúningsnefnd sem á að fjalla um kjör þess? Mér þykir það miður að hæstv. ráðherra er svo á móti atvinnulýðræði að hann treystir sér ekki til þess að starfsfólkið hafi einn fulltrúa í stjórn hlutafélagsins. En við því er ekkert að segja. Ráðherrann ætlar að halda sínu striki.

Síðan spyr ég um það líka varðandi 2. gr. sem ráðherrann svaraði ekki áðan. Ég er að tala um 2. gr. sem kveður á um að heimilt sé að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum og félaginu sé heimilt að stofna nýtt félag eða félög sem séu alfarið í eigu þess til þess að annast ákveðna þætti í starfseminni. Gildir það sama um það og það sem ráðherrann sagði áðan, þ.e. að hann mundi ekki selja hlutabréf Pósts og síma? Hvað gildir um slík dótturfyrirtæki og samrunafyrirtæki? Lítur ráðherrann ekki örugglega svo á að samþykki Alþingis þurfi að koma til ef um er að ræða sölu varðandi hugsanleg dótturfyrirtæki eða samrunafyrirtæki hjá Pósti og síma hf.?