Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 16:44:36 (7025)

1996-06-03 16:44:36# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[16:44]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Um hið fyrra atriði sem hv. þm. minntist á, þá er það svo að undirbúningsnefndin mun gera nauðsynlegan samning og annað því um líkt sem þarf að gera vegna formbreytinga Póst- og símamálastofnunar í Póst og síma hf. Ég hélt satt að segja að hv. þm. vissi það að ef ekki hefur verið gerður nýr samningur fyrir 1. janúar nk., þá mun sá samningur sem nú er standa.

Varðandi 2. gr. er það að segja að efnisatriði hennar eru skýr. Hér er tekið skýrt fram að hlutafélaginu er heimilt að stofna nýtt félag eða félög sem alfarið verði í eigu þess til að annast ákveðna þætti í starfsemi þess. Hér er talað um að heimilt sé að skipta upp rekstrinum eins og hann er núna í tvö eða þrjú félög eftir atvikum eða fleiri, enda verði hlutaféð þá alfarið í eigu Pósts og síma hf., þ.e. í eigu ríkisins. Á hinn bóginn hefur fyrirtækið jafnframt heimild til þess að vera þátttakandi í öðrum hlutafélagarekstri, öðrum atvinnurekstri. Ég gerði mjög rækilega grein fyrir þessu við 1. umr. málsins. Þetta mál hefur án efa verið rækilega rætt í samgn. og hv. þm. hefði getað kynnt sér rækilega m.a. hjá embættismönnum Pósts og síma ef hv. þm. hefur haft áhuga á því.

Ég minni aðeins á það eins og ég gerði í ræðu minni áðan að meðan við sátum í sömu ríkisstjórn og samþykkt voru lög um Áburðarverksmiðju ríkisins hf. var sá sami háttur á hafður varðandi undirbúningsnefnd og stjórn eins og hér er gert.